Norðurlönd samkvæmt PISA: Jákvæð teikn en blikur á lofti

16.02.17 | Fréttir
Nordic Pisa 2015 Socioeconomic
Ný PISA könnun sýnir að straumhvörf hafa orðið á Norðurlöndum. Fjögur af fimm Norðurlöndum eru yfir meðaltali OECD í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúrufræðilæsi. Nokkur lönd drógust aftur úr í því sem fram af þessu hefur verið aðalsmerki Norðurlanda: Geta skólans til að vega á móti félagslegum ójöfnuði.

Frammistaða Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar er betri en í fyrri könnunum. Í fyrsta sinn frá árinu 2000 hefur frammistaða þeirra batnað á öllum sviðum PISA könnunarinnar. Fjögur af fimm Norðurlöndum eru yfir meðaltali OECD samkvæmt niðurstöðum PISA könnunar sem kynntar voru rétt fyrir jól.

Finnland heldur áfram að dragast aftur úr en er samt yfir meðaltali OECD en Ísland er undir meðaltali.

Góður árangur Norðurlanda?

Í stórum dráttum virðast niðurstöðurnar vitna um góðan árangur Norðurlandaþjóða en hinn alþjóðlega viðurkenndi skólasérfræðingur Pasi Sahlberg frá Finnlandi er ekki sannfærður:

„Nei, en túlka má niðurstöðuna sem vísbendingu um að ákveðnir þættir hafi batnað í dönskum, norskum og sænskum skólum.  Meiri áhersla virðist lögð á námið sjálft, á stærðfræðilæsi og lesskilning og er ekkert nema gott um það að segja. En við ættum að fara varlega í að álykta of mikið út frá aðeins einni könnun.“

Pasi Sahlberg segir framfarir samkvæmt PISA fjalla um að löndin hafi lagt pólitíska áherslu á þá þætti sem settir eru undir smásjá PISA. Því hefði komið meira á óvart ef um afturkipp hefði verið að ræða.

Þátttaka allra og lýðræði eru ekki metin

-  Ef litið er til sögunnar þá hefur metnaður norrænna skóla snúist um miklu meira en að standast kröfur PISA á þeim sviðum sem þar eru mæld. Skólinn á einnig að veita nemendum færni í lýðræði, þátttöku allra og tungumálum. Áhugavert væri að mæla einnig gæði menntunar á þeim sviðum,“ segir Pasi Sahlberg. 

Gerðar hafa verið breytingar á fræðslukerfum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá aldamótum, meðal annars í þeim tilgangi að bæta árangur landanna í PISA könnunum Stjórnvöld fara þó varlega í að skýra bættan árangur í PISA könnuninni með breytingum á skólakerfinu.

Dönum hefur farið mest fram í stærðfræðilæsi. Danmörk er efst Norðurlanda og í 7. sæti OECD og er því óhætt að segja að frammistaðan hafi batnað.

Merete Riisager, menntamálaráðherra Danmerkur, þakkar stærðfræðikennurum góðan árangur en telur ekki að breytingar á grunnskólakerfinu eigi heiðurinn.

Dregur úr jöfnuði

Jan Björklund, fyrrum skólaráðherra Svíþjóðar, segir niðurstöðurnar staðfesta að breytingar á grunnskólakerfinu í stjórnartíð hægri flokkanna hafi tekist vel. Engu að síður hefur hann rétt eins og núverandi menntamálaráðherra, Gustav Fridolin, áhyggjur af því að dregið hefur úr jöfnuði í skólum.

Styrkleiki Norðurlanda er og hefur verið jöfn frammistaða í könnunum óháð því hvaða skólar eða hverfi eiga í hlut. Nú skilur á milli Norðurlanda. Í tveimur löndum eykst munur á milli nemenda með bágan félagslegan og efnahagslegan bakgrunn og þeirra sem búa við betri hag. Norðurlönd eru enn yfir meðaltali OECD hvað þetta snertir, það er að mismunandi frammistöðu megi aðeins að litlu leyti rekja til félagslegra og efnahagslegra aðstæðna nemenda. Í OECD er meðaltalið 12,9%. Singapúr er yfirleitt ofarlega í PISA könnunum en þar er talan 16,8. Bendir hún til þess að skólar þar í landi megni illa að vega á móti félagslegum og efnahagslegum bakgrunni nemenda.

Sænskir skólar hafa verið einna bestir til að vega á móti félagslegum ójöfnuði. En nú dregst Svíþjóð aftur úr og er neðst Norðurlanda og nálægt meðaltali OECD.

„Við erum orðin miðlungsland í ójöfnuði. Flestum OECD-löndum og Norðurlöndum gengur betur að draga úr ójöfnuði í skólum,“ sagði Gustav Fridolin í viðtali við Lärarnas tidning (Kennarablaðið) í desember. 

Mikið skilur með Norðurlöndum

Svíþjóð mælist með 12,2%, Danmörk 10,4%, Finnland 10%, Noregur tæplega 9% og Ísland með 5%.

Einnig í Finnlandi virðast áhrif félagslegs bakgrunns á frammistöðu nemenda fara vaxandi. Í síðustu könnun virðist jöfnuður hafa aukist í Danmörku en ekki er hægt að álykta að um jákvæða þróun sé að ræða fyrr en niðurstöður næstu könnunar liggja fyrir.   

„Mitt mat er að Norðurlönd verði að huga betur að jöfnuði. Við sjáum aðskilnað aukast og nægir þar að nefna einkarekna skóla í Danmörku og frjálst skólaval í Svíþjóð. Verði ekkert að gert munum við sjá enn meiri ójöfnuð í frammistöðu nemenda,“ segir Pasi Sahlberg. 

Niðurstöður PISA ethnic eru væntanlegar síðar í vor og fæst þá skýrari mynd af getu norrænna skóla til að vega á móti félagslegum bakgrunni og erlendum uppruna nemenda.



 

 




Fróðleiksmolar: PISA niðurstöður frá norrænum sjónarhóli

  • Þrátt fyrir lakari frammistöðu Finna í náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi er Finnland enn efst á Norðurlöndum og mun hærra yfir OECD-meðaltali (5. sæti OECD í öllum þáttum sem mældir voru).

  • Norðurlönd að Íslandi undanskildu eru fyrir ofan OECD-meðaltal á öllum þremur sviðum (stærðfræðilæsi, náttúrufræðilæsi og lesskilningi).

  • Alls staðar á Norðurlöndum fjölgar fluglæsum nemendum.

  • Frammistaða nemenda af erlendum uppruna, hvort sem er af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda, í náttúrufræðilæsi er lakari en annarra nemenda. Þemagreining PISA Ethnic er væntanleg vorið 2017.

  • Félagslegur bakgrunnur nemenda hefur minni áhrif á frammistöðu norrænna nemenda en í öðrum OECD-löndum. Áhrifin eru mest í Svíþjóð þar sem 12,2% staðalfrávik má skýra með félagslegum bakgrunni. Á Íslandi er sambærileg tala 5%, í Noregi 8%, í Danmörku 10,4% og í Finnlandi 10%. OECD-meðaltalið er 12,9%.
  •  Öll Norðurlönd sýna lakari árangur í PISA könnun ársins 2015 en í fyrri könnunum frá árunum 2000 og 2006. Þó hafa ákveðnar framfarir orðið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á tímabilinu 2012–2015. Á sama tíma hefur árangurinn smáversnað á Íslandi og í Finnlandi.
  • Enn sýna niðurstöður PISA mikinn kynjamun í lesskilningi þar sem frammistaða stúlkna er áberandi betri en drengja. Þó hefur dregið saman með kynjunum á milli kannana á árunum 2012 og 2015.
  • PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD.  

  • Hér er að finna fleiri tölur um Norðurlönd í niðurstöðum PISA

  • Hér er að finna meira lesefni um PISA frá norrænum sjónarhóli