Norrænt jafnrétti á leið til New York

10.02.14 | Fréttir
Eygló Harðardóttir
Ljósmyndari
Sigurjon Arnarson - Sissi 2013
Samstaða á Norðurlöndum um jafnrétti í 40 ár Jafnréttisráðherrar Norðurlandanna hyggjast marka þau tímamót með dagskrá í tengslum við árlegan fund kvennanefndar SÞ (CSW) sem hefst 10. mars í New York.

Nefndin mun að þessu sinni ræða árangur og áskoranir í sambandi við framkvæmd á þúsaldarmarkmiðum SÞ um að auka jafnrétti og bæta stöðu kvenna.

„Alþjóðasamfélaginu hefur tekist að draga úr barnadauða og það er ánægjulegt. Ég hef hins vegar áhyggjur af bakslagi sem orðið hefur í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama. Þetta er mál sem Norðurlöndin hafa beitt sér fyrir á vettvangi SÞ og við ætlum ekki að láta deigan síga,“ segir Eygló Harðardóttir en hún er formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál á þessu ári.

Staðalímyndir hindrun á veginum

Í pallborðsumræðum norrænu ráðherranna þann 12. mars með yfirskriftinni Promoting Gender Equality and Empowering Women and Girls Through Education munu þeir miðla reynslu af því hvernig stefnumótandi ákvörðunum, pólitík og beinum aðgerðum er beitt tilað hvetja konur og stúlkur til að velja í auknum mæli störf í raun- og tæknigreinum og ennfremur að fjölga konum í stjórnunarstöðum.

13. mars efnir Norræna ráðherranefndin til málþings með sérfræðingum í Scandinavia House með yfirskriftinni Do Everything: Break Stereotypes when Choosing Education and Work. Á málþinginu verður rætt um áskoranir og hindranir á vegi jafnréttis í menntakerfi og á vinnumarkaði sem menn eru enn að kljást við á Norðurlöndum. Í brennidepli verður sú staðreynd að staðalímyndir hafa enn sem fyrr áhrif á námsval ungs fólks á öllum menntastigum.

„Sem dæmi má nefna að á Íslandi er enginn karl ljósmóðir og í Danmörku hafa aðeins örfáir karlar valið ljósmóðurmenntun. Öllum er akkur í því að við losum okkur við óþarfar staðalímyndir,“ segir Eygló Harðardóttir.