Pallborðsumræður norrænna sérfræðinga gegn kynbundinni hatursorðræðu á netinu

11.03.16 | Fréttir
Expertpanel sexistiskt näthat
Þegar ráðherrar jafnréttismála á Norðurlöndunum halda til New York á mánudag til að taka þátt í fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) verða fimm sérfræðingar í kynbundinni hatursorðræðu á netinu með í för. „Ef við tryggjum ekki rétt kvenna til að tjá sig án þess að þurfa að hræðast áreitni, verður fullt kynfrelsi þeirra aldrei að veruleika,“ segir femínistinn og aktívistinn Emma Holten.

Kynbundin hatursorðræða á netinu er nýtt form ofbeldis sem beinist fyrst og fremst að konum og stúlkum og er birtingarmynd andstöðu við kynjajafnrétti.

Ofarlega á dagskránni í samstarfi ráðherra jafnréttismála er að finna leiðir til að berjast gegn slíkri hatursorðræðu. Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa því blásið til pallborðsumræðna sérfræðinga sem vinna, hver á sinn hátt, að rannsóknum á slíkri orðræðu og berjast gegn henni.  

Ofbeldi gegn konum á sér nú einnig stað á netinu. Nektarmyndir sem dreift er án samþykkis, svonefnt hefndarklám, hafa hrikalegar afleiðingar fyrir þolendur. Í alvarlegustu tilfellum getur hefndarklám rekið fólk til að fremja sjálfsmorð. En þar er það ekki nekt þolendanna sem leiðir til dauða þeirra, heldur grimmd gerendanna, drusluskömmun og fordæming.

Þingmenn og fjölmiðlafólk

Með því að efna til pallborðsumræðna sérfræðinga á kvennanefndarfundinum í næstu viku kalla ráðherrarnir eftir auknu alþjóðlegu samstarfi í málaflokki sem er afar brýnn á sviði jafnréttismála.

Þátttakendur í pallborðsumræðunum eru:

  • Emma Holten, danskur ritstjóri sem gerðist femínískur aktivisti eftir að hún varð fyrir því að nektarmyndir af henni komust í dreifingu
  • Nasima Razmyar, fyrrum flóttamaður frá Afganistan, nú þingkona í Finnlandi, sem hefur orðið fyrir skipulögðum ofsóknum vegna aðkomu sinnar að málefnum flóttamanna
  • Johnny Lindqvist, verkefnastjóri hreyfingarinnar No Hate Speech Movement í Svíþjóð
  • Anine Kierulf, lögmaður og fræðikona sem starfar hjá norsku mannréttindastofnuninni
  • Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur, aktívisti og blaðakona, sem hefur m.a. barist gegn kynbundnu ofbeldi og hefndarklámi og var valin kona ársins 2015 af Bandalagi kvenna í Reykjavík.

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að greinilegrar kynjaslagsíðu gæti í áreitni og ofsóknum á netinu. Konur eiga á hættu að verða fyrir hatursorðræðu og hótunum um ofbeldi og nauðganir, jafnvel fyrir það eitt að vera sýnilegar og láta að sér kveða í umræðunni. Karlar verða sjaldan fyrir þess háttar kynbundinni áreitni á netinu.

Hrikalegar afleiðingar

„Ofbeldi gegn konum á sér nú einnig stað á netinu. Nektarmyndir sem dreift er án samþykkis, svonefnt hefndarklám, hafa hrikalegar afleiðingar fyrir þolendur. Í alvarlegustu tilfellum getur hefndarklám rekið fólk til að fremja sjálfsmorð. En þar er það ekki nekt þolendanna sem leiðir til dauða þeirra, heldur grimmd gerendanna, drusluskömmun og fordæming,“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Hatursorðræða á netinu takmarkar möguleika kvenna til að tjá sig í ræðu og riti og setur athafnarými þeirra á stafrænum vettvangi miklar skorður.

Þetta hefur ýmsar afleiðingar fyrir lýðræðið.

„Varðstaða um tjáningarfrelsið er nauðsynleg vegna þess að það tryggir að margbreytilegar skoðanir fái að heyrast. Hatursfullar og kvenfjandsamlegar athugasemdir sem þagga niður í konum stuðla ekki að fjölbreytilegri umræðu. Vilji fólk að margs konar hugmyndir fái að heyrast á opinberum vettvangi ætti það að hafa hemil á hatrinu,“ segir Anine Kierulf.

 

Sérfræðingahópurinn tekur þátt í kvennanefndarfundinum á viðburðinum Fighting sexism and hate speech online – a Nordic panel of experts í höfuðstöðvum SÞ þann 18. mars kl. 11:30–12:45 að staðartíma.

Finnska blaðakonan Johanna Korhonen stjórnar umræðum.

Hægt verður að fylgjast með umræðunum á vefnum í beinni útsendingu eða horfa á upptöku eftir á.

  •  Vefvarp SÞ 

Hægt verður að taka viðtöl við sérfræðingana strax að viðburðinum loknum, eða eftir samkomulagi, sjá upplýsingar um tengiliði hér að neðan.