Skýrsla: Útilokun frá Ólympíuleikum samsæri að sögn rússneskra fjölmiðla

07.12.17 | Fréttir
Forskning
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Útilokun rússnesks íþróttafólks frá Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra á árinu 2016 er almennt lýst í rússneskum fjölmiðlum sem „alþjóðlegu samsæri“ eða að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu til þess eins að refsa Rússlandi. Þetta kemur fram í könnun sem Norræna blaðamannamiðstöðin (NJC) vann og Norræna ráðherranefndin fjármagnaði.

Samkvæmt skýrslunni „Truth vs. Truth“ könnuðu aðeins örfáir rússneskir fjölmiðlar á hlutlausan hátt þá ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar að útiloka rússneskt íþróttafólk frá keppni vegna lyfjamisferlis. Þá voru ekki margir rússneskir fjölmiðlar sem vitnuðu í þá alþjóðlegu sérfræðinga sem voru fylgjandi ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar.

Einstaka óháðir fjölmiðlar birtu ítarlegar fréttaskýringar um hvernig og hvers vegna Alþjóða Ólympíunefndin komst að umræddri niðurstöðu, en hvergi er að finna raddir sem styðja ákvörðunina eða greinar þar sem farið er fram á að rússneskir embættismenn svari til saka og hljóti tilhlýðilega refsingu.

Fyrir Ólympíuleikana í Ríó de Janeiro setti Alþjóða Ólympíunefndin 279 (af 389) rússneska íþróttamenn í keppnisbann. Alþjóðaólympíunefnd fatlaðra (IPC) ákvað að útiloka alla rússneska keppendur á næstu Ólympíuleikum fatlaðra.

Skýrsla um brennandi spurningar

Skýrslan „Truth vs Truth“ er fjármögnuð af verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, „Nordic – Northwest Russian Journalist Cooperation 2016–2017“. Hún er afrakstur samstarfsverkefnis sem fólst í að kanna hvernig rússneskir fjölmiðlar í Norðvestur-Rússlandi, í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndum fjölluðu um lyfjahneykslið sem uppvíst varð um fyrir Ólympíuleikana og Ólympíuleika fatlaðra 2016.

Skýrslan studdist eingöngu við greinar sem umræddir fjölmiðlar birtu á netinu.

Könnunin fjallar um spurningar sem brenna á vörum fólks þessa dagana þegar ákveðið hefur verið að útiloka rússneskt íþróttafólk frá Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður–Kóreu.

Ole Rode Jensen
Telefon: +45 40 27 04 40
E-post: orj@dmjx.dk