Norrænn styrkur til fjölmiðla á rússnesku í Eystrasaltsríkjum

28.10.19 | Fréttir
Journalister i arbete
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg
Rússneskumælandi minnihlutar í Eystrasaltsríkjunum er í vaxandi mæli háðir fjölmiðlaefni frá Rússlandi. Þetta er áhyggjuefni í ljósi aðlögunar málminnihlutahópanna að samfélögunum. Þess vegna hefur Norræna ráðherranefndin stutt óháða fjölmiðla á rússnesku í Eistlandi, Lettlandi og Litháen síðan 2015.

Norræna samstarfsnefndin ræddi fjölmiðlaáætlunina fyrir Eystrasaltsríkin á fundi sínum 28.10. og ákvað að verja rúmlega tveimur milljónum danskra króna til þess að halda áætluninni áfram fram til loka árs 2021.

„Það er hagur Norðurlandanna að styðja verkefni í Eystrasaltslöndunum sem styðja möguleika rússneskumælandi minnihluta til að taka þátt í samfélagsþróun landanna við Eystrasalt,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fjölmiðlaáætlunin fyrir Eystrasaltslöndin hefur fram til þessa verið þríþætt. Þar hefur verið um að ræða menntun blaðamanna, fjölmiðlafræði aðallega fyrir ungt fólk og styrki til óháðrar fjölmiðlunar. Nú er verið að fjármagna áætlun sem eingöngu beinist að styrkjum til fjölmiðlunar.

Beinist að vandaðri fjölmiðlun fyrir heimamarkað

Styrkir eru veittir í kjölfar umsókna og eru veittir til vandaðrar fjölmiðlunar á rússnesku í Lettlandi, Eistlandi og Litháen. Markmiðið er að auðvelda aðlögun rússneskumælandi íbúa að nærsamfélaginu með þessum hætti og veita rússneskumælandi fólki betri tækifæri til að taka virkan þátt í pólitískum ákvörðunum og umræðum.

Sérstakri stuðningsáætlun fyrir rússneskumælandi rásina ETV+ á almannaþjónustustöðinni ETV í Eistlandi verður fram haldið.