Standa á vörð um frjálsa för á Norðurlöndum – yfirlýsing í kjölfar fundar MR-SAM þann 19. apríl 2016

19.04.16 | Yfirlýsing
Norrænu samstarfsráðherrarnir ræddu þann 19. apríl 2016 frjálsa för á Norðurlöndum og leggja með hliðsjón af því fram eftirfarandi yfirlýsingu:

Upplýsingar

Adopted
19.04.2016

„Möguleikar Norðurlandabúa á því að ferðast frjálst milli landanna – til að stunda nám eða vinnu, reka fyrirtæki eða fara í frí – mynda kjarnann í norrænu samstarfi, ásamt sameiginlegri sögu okkar og menningu.

Norrænt samstarf um vegabréfafrelsi hófst á 6. áratug 20. aldar eftir margra ára markvisst hugsjónastarf. Frjáls för varð að veruleika á Norðurlöndum löngu áður en slíkt var til umræðu á evrópskum vettvangi. Norðurlönd án landamæra hafa komið íbúum landanna vel í áranna rás og átt sinn þátt í að tryggja farsæld og hagvöxt á svæðinu.

Flóttamannavandinn, sem nú steðjar að, sækir að frjálsri för á Norðurlöndum. Honum hafa fylgt stór viðfangsefni hvað varðar allsherjarreglu og almannaöryggi, og þeim verður að gefa gaum. Endurupptaka landamæraeftirlits innan Norðurlanda er tímabundið úrræði til að takast á við þessi viðfangsefni. Norræn stjórnvöld hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga sinna, til að bregðast við vandasömum aðstæðum með skynsamlegum hætti.

En þrátt fyrir þau viðfangsefni sem nú liggja fyrir eigum við að stefna að landamæralausum Norðurlöndum, hér eftir sem hingað til, og muna að flóttamannavandinn verður ekki leystur innan Norðurlanda – heldur á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Við viljum því tryggja, í samstarfi við hlutaðeigandi ráðherra á sviði landamæraeftirlits, að löndin standi vörð um hreyfanleika innan Norðurlanda þegar gripið er til ráðstafana til að bregðast við flóttamannavandanum – í löndunum sem og á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.

Einnig höfum við óskað eftir því að framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar haldi áfram að greina þær afleiðingar sem tímabundið landamæraeftirlit innan Norðurlanda hefur á frjálsa för á svæðinu, auk áhrifa á m.a. vinnumarkaðinn, hagkerfið og fjárfestingar.

Að lokum höfum við beðið Stjórnsýsluhindranaráðið um að beita sér fyrir því af auknum krafti að uppræta aðrar stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum sem takmarka frjálsa för einstaklinga og fyrirtækja og hamla hagvexti.

Norrænt samstarf er öflugt. Nú um stundir dafnar norrænt samstarf á ýmsum sviðum. Öll hafa norrænu löndin notið góðs af fjölbreytilegu samstarfi sín á milli. Við hófum nýverið metnaðarfullt samstarf um aðlögun nýrra innflytjenda, með það að markmiði að geta sótt í reynslu hvert annars þegar tekist er á við þau verkefni sem fjöldi flóttafólks hefur í för með sér.

Mikilvægt er að standa vörð um hið norræna sjónarhorn í komandi umræðum og tillögum um stöðuna í málefnum flóttamanna. Saman erum við öflugri. Og saman getum við þróað hið langvinna og farsæla samstarf Norðurlandanna enn frekar.“

Contact information