Andrzej Tichý

Andrzej Tichý
Photographer
Anders Hansson
Andrzej Tichý: Kairos. Skáldsaga, Albert Bonniers Förlag, 2013.

Í skáldsögunni Kairos eftir Andrzej Tichýs mætum við straumi radda og atburða sem draga upp skýra og nákvæma mynd biturleika og vanmáttar af samtíma okkar. Kairos er augnablik hættuástands, afgerandi punktur milli tveggja atburða, andstætt kronos, línulega tímanum. Efnahagsleg forlagatrú er ríkjandi og úthlutar hverjum einstaklingi ákveðnu hlutverki og enginn kemst undan þó reynt sé af megni að streitast á móti, skrifar Tichý. Er þá til nokkur kraftur sem er nógu sterkur til að losna úr þessum tilvistarlegu og pólitísku ógöngum?

Skáldsaga Tichýs er kreppudagbók sem bæði lýsir þessu hörmungarástandi og veltir því fyrir sér hvort nokkuð sé til ráða. Annað grundvallarviðhorfið í umræðunni er sótt í leikrit Brechts, „Heilög Jóhanna í sláturhúsunum“, sem hvetur til virkrar andspyrnu. Hitt grundvallarviðhorfið er sótt í frásögn Peter Weiss af síðustu dögum Karin Boyes sem lýsir leið uppgjafar og sjálfsmorðs. Milli þessara póla ferðast ofsafengin og skjálfandi textamergð og gegnum hana fara atburðir, manneskjur og örlög. Þýski sósíalistinn Bernward Wester sem einnig framdi sjálfsmorð og götusalinn Mohammed Bouazizi frá Túnis sem kveikti í sjálfum sér og hleypti með því af stað arabíska vorinu 2010 eru dæmi um mannleg örlög af þessu tagi.

Sagt er frá heimilislausi fólki í ólöglegum tjaldbúðum, fólki sem stundar vændi á bílastæðum og vansköpuðum börnum á viðstöðulausu ferðalagi um tíma og rúm milli svipmynda af dystópískum stöðum og örlagaríkum, sögulegum atburðum. Og frá öllu er sagt á hrífandi, háfleygu og stórkostlega fallegu máli.

Andrzej Tichý er fæddur árið 1978 og hefur áður gefið út tvær skáldsögur og eitt ljóðasafn. Með fjórðu bók sinni skipar hann sér í sveit frumlegustu og hæfileikaríkustu rithöfunda yngri kynslóðarinnar í Svíþjóð. Hann hefur í senn sýnt snilld sína í meðferð fjölraddaðs máls og komið með harða og skarpa gagnrýni á samfélag nútímans. Kairos er líklega mesta verk hans til þessa. Bókin myndar vef af röddum og myndum sem samtvinna djúpa og persónulega frásögn af grimmúðlegum samtíma og umræðu um mögulegar og ómögulegar leiðir út úr sögulegum ógöngum. Í skáldsögunni er bergmál af leyndum eða sýnilegum tilvísunum sem eru bræddar saman í hljómaflæði þangað til öngþveitið niðar og syngur samhljóma. Kairos er verk sem ekki er hægt að flýja og það hefur kröftug og hvetjandi áhrif á hvern þann sem hættir sér inn fyrir orkusvið þess.

Eva Ström