Äta sova dö (Eat Sleep Die) - Svíþjóð

Eat Sleep Die (Sweden)

Ágrip

Þegar hin unga öfluga múslimska sænsk/balkanættaða „take-no-shit“ Raša missir vinnu sína í verksmiðju, stendur hún andspænis atvinnuleysiskerfinu. Án prófskírteinis, vinnu, en undir miklum áhrifum frá litla bænum sem hún ólst upp í, lendir Raša upp á kant við þjóðfélagið og þversagnakennd gildi og væntingar þess.

Rökstuðningur dómnefndar

Äta sova dö, fyrsta mynd Gabriela Pichler í fullri lengd, er frásögn beint úr bakgarði markaðshagkerfisins. Með aðstoð hinnar margrómuðu aðalleikkonu Nermina Lukac og annnarra tónvissra áhugaleikara teiknar hún hárfína en kröftuga mynd af hversdagsrasisma, hvernig er að vera utanveltu og andstæðum þjóðfélagshópum. Þetta hljómar þungt, og er að hluta til mjög þungt, en leikstjórinn og handritshöfundurinn Pichler hefur á ákveðinn hátt einnig tekist að setja í myndina stóran skammt af hlýju og húmor, sem veitir þessari grófu sögu áþreifanlega töfra. Hún segir frá af miklu sjálfsöryggi, bætir engu ytra vandamáli né eggjandi hliðarsögu við til að halda athygli áhorfandans, daglegt líf felur í sér nægilega mörg vandamál. Äta sova dö er í stuttu máli tilgerðarlaust líf.

Um myndina

Þegar Gabriela Pilcher hætti sem verkamaður í kexverksmiðju í litlum bæ í Svíþjóð til að gerast kvikmyndagerðarmaður, hafði hún einstaka lífsreynslu í farteskinu og mikla þrá til að sýna „öðruvísi“ Svíþjóð á hvíta tjaldinu, sýn um blandað þjóðfélag með ólíkum stéttum og þjóðarbrotum. Hún var ákveðin í að fara gegn ríkjandi stefnu í kvikmyndum sem einkennist af glæpa-, rómantískum og grínmyndum.

Með nám sitt í heimildarkvikmyndagerð í farteskinu var það markmið hennar að ljá hinum óþekktu verkamönnum sem hún hafði kynnst í dreifbýli Suður-Svíþjóðar rödd og andlit, og hún eyddi ótal tímum í að rannsaka og finna leikara sem myndu vera á skjánum það sem þeir eru í raunveruleikanum. Pilcher þurfti að leita í nær eitt ár að leikkonu sem hafði nægilega útgeislun til að leika Raša sem berst gegn atvinnuleysi og skrifræði á sama tíma og hún ræktar sambandið við föður sinn. Prufuleikstjóri hennar fann leikkonuna Nermina Lukač í félagsmiðstöð.

Þessi áhugaleikkona sem er fædd í Svartfjallalandi ber myndina á herðum sér og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir frammistöðuna, s.s. sem besta leikkona á kvikmyndahátíðunum í Sevilla og Amiens og Viasat Film Rising Star verðlaunin í Stokkhólmi 2012. Á þessu ári var Lukač valin besta leikkona á Angers’ Premiers Plans kvikmyndahátíðinni í Frakklandi og á Guldbagge verðlaunahátíðinni í Svíþjóð hlaut myndin fern verðlaun, fyrir besta handrit, leikstjórn, bestu leikkonu og besta leikara í aukahlutverki (Milan Dragišić).

Äta sova dö hlaut lof gagnrýnenda um allan heim og einnig í Svíþjóð þar sem myndin hlaut Greta verðlaunin frá samtökum kvikmyndagagnrýnenda.

Handritshöfundur-Leikstjóri, Gabriela Pichler

Gabriela Pichler var valinn einn af 10 áhugaverðustu evrópsku leikstjórunum af tímaritinu Variety, og hefur stíl hennar verið líkt við félagsraunsæi Dardenne bræðra og fyrstu verk Lukas Moodysson.

Gabriela Pilcher, sem er fædd í Svíþjóð árið 1980 og á austurrískan föður og bosníska móður, sagði upp starfi sínu í kexverksmiðju til þess að setjast á skólabekk í kvikmyndaleikstjórnarskólanum í Gautaborg. Útskriftar stuttmynd hennar Skrapsår hlaut Guldbagge verðlaun fyrir bestu stuttmynd árið 2009 og fjölda alþjóðlegra verðlauna, s.s. fyrir bestu mynd á Fresh kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary. Äta sova dö er fyrsta mynd hennar í fullri lengd.

Framleiðandi, China Åhlander

Åhlander, sem fædd er í Lundi árið 1963, kemur úr fjölskyldu sem tengist iðnaði á svæðinu. China Åhlander hefur starfað í kvikmyndageiranum frá árinu 1985 og unnið við allflestar hliðar kvikmyndagerðar, aðallega við að finna tökustaði og sem framleiðslustjóri sænskra og alþjóðlegra kvikmyndaverkefna. Fyrsta starf hennar var sem aðstoðarklippari við kvikmynd Andrej Tarkovsky The Sacrifice árið 1986. Hún hóf feril sinn sem framleiðandi með því að framleiða eigin heimildamyndir. Myndin Close to the Soil (2001) var valin besta heimildamynd á kvikmyndahátíðinni í Aspen og Old Swedish Village (1991), var sýnd um alla Skandínavíu.

Äta sova dö er fyrsta myndin í fullri lengd sem hún framleiðir. Næsta mynd sem hún kemur að er gamanmyndin Gloria, fyrsta mynd Jenifer Malmqvist í fullri lengd, en hún náði því að koma þremur myndum á Sundance kvikmyndahátíðina, þar á meðal On Suffocation (2013). Åhlander er einnig að vinna að sjónvarpsþáttaröð The Malmö Syndrome sem verður tekin upp árið 2014 og leikstýrt af Malmquist og Goran Kapetanovic (tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2013 fyrir Kiruna-Kigali).

Åhlander framleiddi Äta sova dö fyrir hið þekkta framleiðslufyrirtæki Anagram. Hún hefur nú stofnað sitt eigið fyrirtæki Chinema Film Sweden þar sem hún þróar eigin verkefni í samstarfi við Anagram og önnur fyrirtæki.

Helstu framleiðsluupplýsingar

Upprunalegur titill: Äta sova dö

Leikstjóri: Gabriela Pichler

Handritshöfundur: Gabriela Pichler

Framleiðandi: China Åhlander

Aðalhlutverk: Nermina Lukač, Milan Dragišić, Jonathan Lampinen, Peter Fält

Framleiðslufyrirtæki: Anagram

Lengd: 104 mín

Dreifing innanlands: TriArt

Alþjóðleg dreifing Yellow Affair

Fulltrúar í dómnefnd

Fredrik Sahlin, Pia Lundberg, Bertil Sandgren