Handhafi kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Vinnare av Nordiska rådets filmpris 2019

Vinnare av Nordiska rådets filmpris 2019, Hjärter dam (Dronningen) Danmark. Manusförfattare och regissör May el-Toukhy, manusförfattare Maren Louise Käehne och producenterna Caroline Blanco och René Ezra.

Ljósmyndari
Magnus Fröderberg
Dronningen hefur hlotið kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2019.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 hlýtur danska kvikmyndin Dronningen eftir May el-Toukhy handritshöfund og leikstjóra, Maren Louise Käehne handritshöfund og framleiðendurna Caroline Blanco og René Ezra. 

Kvikmyndin Dronningen hlýtur verðlaunin fyrir ítarlega lýsingu á hörmulegu fjölskylduleyndarmáli og afleiðingum ofdrambs, losta og lyga sem leggjast á eitt til að leiða aðalpersónuna í óhugsandi ógöngur.

Rökstuðningur dómnefndar

Fjallar myndin um miðaldurskrísu? Um stétt? Eða girnd og ástríðu? Gerist aðalpersónan sek um kynferðislega misnotkun, eða er hún ef til vill siðblind? Við eigum því að venjast að kvikmyndir hafi skýra meginhugsun; við vitum nánast alltaf hvort persónur kvikmynda eru góðar eða vondar. Í Dronningen láta leikstjórinn May el-Toukhy og meðhöfundur hennar Maren Louise Käehne okkur áhorfendum það eftir að átta okkur á kjarna og boðskap myndarinnar og dæma um gjörðir aðalpersónunnar Anne, sem gerir einmitt það sem EKKI á að gera – tekur upp ástarsamband við stjúpson sinn. Það einkennilega er hvað áhorfandanum finnst viðeigandi að axla þá ábyrgð. Það er ekki ánægjulegt að kynnast Anne – en það er höfug ánægja fólgin í því að upplifa þéttriðna kvikmynd sem gefur áhorfendum réttu tólin til að átta sig á eigin afstöðu til flókinnar persónu. Og treystir þeim til að geta það. Ekki er annað hægt en að vekja sérstaka athygli á Trine Dyrholm fyrir stórkostlega blæbrigðaríka frammistöðu sem Anne „drottning“, en Dronningen er sannkallað afrek á öllum sviðum – hvort sem um ræðir myndatöku, tónlist, listræna stjórnun, handrit eða annað. Útkoman er kvikmynd þar sem hið allt að því ógerlega virðist létt og fyrirhafnarlítið.

Titill á frummáli: Dronningen

Titill á ensku: Queen of Hearts

Handrit: May el-Toukhy, Maren Louise Käehne

Leikstjórn: May el-Toukhy

Framleiðendur: Caroline Blanco, René Ezra