Heidi von Wright

Heidi von Wright

Heidi von Wright

Ljósmyndari
Helen Korpak
Heidi von Wright: Autofiktiv dikt av Heidi von Wright. Ljóðabók. Schildts & Söderströms, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Heidi von Wright (f. 1980) steig fyrst fram á ritvöllinn með skör och spräcklig (2003), þaulhugsaðri ljóðabók með sterkri tengingu við bernskuna og ímyndunaraflið og lágstemmdri áherslu á þá möguleika og duldu hættur sem búa í tungumálinu. Auk sjö útgefinna ljóðabóka, sem allar fela í sér rannsókn á textabundnum ráðgátum og örkristölum tungumálsins, hefur Heidi von Wright fengist við að teikna myndasögur sem hún birtir á bloggsíðu sinni. Árið 2020 skrifaði hún örsögur ásamt Jolin Slotte sem birtust í bókinni Märkligt verkligt – Verkligt märkligt, sem einnig var myndskreytt af von Wright.

Autofiktiv dikt av Heidi von Wright („Sjálfsöguleg ljóð eftir Heidi von Wright“, hefur ekki komið út á íslensku) er áttunda bók Heidi von Wright og engin venjuleg ljóðabók, þrátt fyrir nafnið. Þess í stað er frekar um að ræða atviksfrásagnir og minningar á formi prósaljóða. Hinir og þessir ættingjar koma fyrir: oft móðuramma en einnig móðir móðurömmunnar, auk móðurafa, bróður móðurafans, föður föðurafans, systkina o.fl., og svo ljóðmælandinn sjálfur. Við heyrum af bróður móðurömmunnar sem starfaði við olíuflutninga og fórst í árás þýskrar sprengjuflugvélar, föðurafa sem átti píanó sem var flutt yfir landamærin og hent í síki, föður sem fæddist of snemma, lá í hitakassa og fékk koníak, „einn dropa í dulu“.

Þetta eru fjölskyldugoðsagnir, dramatískar að meira eða minna leyti, en þó ekki fléttaðar inn í dramatískan söguboga heldur standa þær sem stuttar, sjálfstæðar frásagnir kringum einstaka atburði og minningar, oft með smæstu smáatriði í brennidepli. Frásagnir og minningar eru endursagðar án yfirlýsts tilgangs eða markmiðs og leyft að standa á eigin fótum. Þetta kallaði Roland Barthes „biografem“, smáatvik á mannsævinni sem standa til hliðar við lífshlaupið og varpa ljósi á það.

Autofiktiv dikt av Heidi von Wright er nokkurs konar örfrásögn, en mannkynssögunni bregður einnig fyrir á stærri skala – stríðsátökum, Tsjernóbylslysinu, kórónufaraldrinum: „Ég veiddi snjókorn með tungunni og velti fyrir mér hvort snjórinn gæti borið smit.“ Þetta eru fáguð og íhugul skrif um margvísleg viðfangsefni: gang tímans, mörk staðreynda og skáldskapar, mörk þess sem „ég veit“ og þess sem „ég ímynda mér“, ósjaldan með launfyndnu ívafi.

Einnig má lesa bókina sem hægláta ögrun gegn hinni á köflum einhliða sjálfsspeglun sem birtist í svonefndum sjálfsögum (autofiction), í tilraun til að kanna það sem líkt er með skyldum: „Ég sé mynd af systur minni og finnst ég horfa á sjálfa mig. Ég heyri rödd hennar og finnst hún vera mín eigin. Myndin af mér rennur saman við myndina af henni. Hárið á henni er líka mitt. Augun í mér eru bróður míns. Hugsanirnar eru okkar eigin en þær hafa skrölt gegnum eina kynslóð af annarri.“

Þrátt fyrir felustað sinn er ljóðmælandinn aldrei langt undan í Autofiktiv dikt av Heidi von Wright, viðheldur nálægð gegnum eigin minningar og upplifanir, speglar sig oft í öðrum, stundum upp að því marki að úr verður nokkurs konar nafnleysi. Eins og innan um nakta líkamana í sturtuklefa sundlaugarinnar: „Ég er ekki ég, ég er einhver önnur.“ Nokkurs konar frelsun á sér stað: „Við vorum í feluleik. Ég fann góðan felustað. Enginn fann mig. Ég bjó mig undir að sitja þarna það sem eftir væri ævinnar.“

Minningarnar í Autofiktiv dikt av Heidi von Wright hafa verið tíndar saman á löngu tímabili, þeim hefur verið ljáð úthugsað listrænt form með dálitlum mishljómi eða gloppum; nokkurs konar sprungum sem opna ljóðin í átt að margræðni, húmor eða hreinni depurð. Með því að vera svo opin bjóða ljóðin lesandanum einnig að muna og rifja upp. Autofiktiv dikt av Heidi von Wright felur í sér stórfenglega list í smækkaðri mynd og er um leið eins og opin gátt að höfundarverki Heidi von Wright eins og það leggur sig.