Henrik Nor-Hansen

Henrik Nor-Hansen
Photographer
Nina Kristin Nilsen
Termin. En fremstilling av vold i Norge. Skáldsaga, Tiden Norsk Forlag, 2016.

Henrik Nor-Hansen er fæddur 1967 og búsettur í Stafangri. Frumraun hans, skáldsagan Krater på krater, kom út 1996. Verkið hlaut mikla athygli, en kom ekki í veg fyrir að höfundurinn breytti um bókmenntagrein og gaf hann út alls fimm ljóðabækur á fyrsta áratug 21. aldarinnar. Undanfarin ár hefur Nor-Hansen snúið sér aftur að skáldsagnaskrifum og er Termin þriðja skáldsaga hans síðan árið 2012, en hinar voru En redegjørelse for reisestipendet 2010 og En kort evaluering av psykososialt stress.

Líkt og síðastnefndu skáldsögurnar tvær er Termin stutt saga sem einkennist af fjarlægum frásagnarmáta og skýrum skilningi á tengslum tungumáls, sálarlífs og félagslegs taumhalds. Verk Nor-Hansens teljast til sérstæðustu og óháðustu verka norskra bókmennta í dag.

Aðalpersónan, þolandi ofbeldisins sem vísað er til í titlinum, heitir Kjetil Tuestad. Hann býr í Hommersåk í Rogalandi, á svæði sem olíuöldin í Noregi hefur einna helst sett mark sitt á. Frásögnin af Kjetil hefst á árás sem hann verður fyrir, meðferð sem gerir hann að „keisi“ og sem heldur áfram í nærri 20 ár, þó að bókin sé ekki mikil að umfangi. Dregin er upp mynd af einmanalegri, brotakenndri og mæddri tilveru. Sviptingar í efnahags- og atvinnulífi eru skrásettar og teknar saman með sama yfirvegaða hætti og ofbeldisatvik í nærumhverfinu. Lífi Kjetils Tuestad á þessum tíma – fjarlægum og/eða hverfulum tengslum, bæði í einkalífi og vinnu, tengslum hans við ýmsar stofnanir – öllu er þessu lýst með málsniði sem minnir á sjúkdómsgreiningu, skýrslu eða minnisbók. Sögumaður bókarinnar er einnig nafnlaus; allt er aðeins tungumál, nafnlaust, skrásetjandi og skriffinnskulegt. Ekkert er túlkað eða ályktað án nauðsynlegra fyrirvara: hlutirnir „ættu að hafa verið“ svona og hinsegin. Kjetil Tuestad „telur sig hafa“ skynjað eða upplifað ýmislegt.

Þannig tekst Nor-Hansen að skapa efa um það í hverju ofbeldið felst í raun. Hinu áþreifanlega ofbeldi, sem getur af sér meira ofbeldi og sem virðist blint og handahófskennt, hefði auðveldlega mátt lýsa á annan hátt, sem einhverju öðru, í öðru samhengi. Ofbeldi fyrirfinnst alltaf. Það má nota til að réttlæta nánast hvað sem er. Snilldin við Termin felst þannig ekki í því að félagshagfræðileg þróun í Stafangri og nágrenni er sett í samband við tíðni ofbeldis, heldur því hvernig fjarlægðin í sjálfu málsniðinu og frásagnarmátanum virðist á endanum vera undirrót ofbeldisins, og meira en það – hið eiginlega ofbeldi. Burtséð frá þeim atburðum sem eiga sér stað hefði ævi Kjetils Tuestad getað orðið einhvern veginn allt öðruvísi ef henni hefði verið lýst á annars konar máli. Með annars konar „móttökubúnaði“. Skrásetningin á ævi Tuestads með hinu skriffinnskulega, loðna orðalagi heilbrigðisgeirans getur okkur virst fyrst og fremst til þess fallin að halda keisinu í hæfilegri fjarlægð, en ekki til þess að hjálpa honum eða nokkrum öðrum að öðlast aukna innsýn í orsakir hlutanna.

Textinn birtist því einnig – óbeint – sem kolsvört andstæða þeirrar kröfu sem skáldsagan gerir um að aðlaga viðfangsefnið og gera það afstætt. Í Termin er snúið upp á tvíbendni tilfinninganna, efann og óöryggið – hugtök sem oft öðlast jákvæðan blæ í samhengi bókmenntanna; óöryggi og aðlögun verða að bjargræði fyrir hina nafnlausu árás. Í afstæðishyggju sinni, og því hvernig hún skrifar sig frá allri ábyrgð, stendur frásögnin af því sem hendir Kjetil Tuestad fyrir sérstaka birtingarmynd ofbeldis. Hér er miðillinn svo sannarlega merkingin.