Hross í oss – Ísland

Om heste og mænd (Hross ì oss)

Ágrip

Hross í oss er sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum. Ást og dauði fléttast saman með skelfilegum afleiðingum. Örlagasögur af fólki í sveit eru sagðar frá sjónarhóli hestsins.

Rökstuðningur dómnefndar

Hross í oss er áberandi frumleg mynd sem einkennist af kraftmiklu myndmáli og samanfléttaðri hljóðmynd sem gefur áhorfandanum tilfinningu fyrir dýrslegri eðlishvöt í mönnum eða „skepnunni í manninum“ (eins og Zola orðaði það). Myndin sýnir eilífa baráttu mannsins við að beisla náttúruna og hvernig það misheppnast á aumkunarverðan hátt, oft með hrikalegum afleiðingum. Í þessari sérstæðu ástarsögu um samband manna og hesta hefur leikstjórinn, Benedikt Erlingsson, full tök á merkingu og miðlun hugmynda með aðdáunarverðri stjórn sinni á persónum, hvort sem er dýrum eða mönnum. Með því að nota augnaráð skepnu sem eitt helsta sjónarhornið til að endurspegla grátbroslega hegðun manna fær Hross í oss sérstæðan ljóðrænan blæ en líka svartan, spaugsaman tón sem gefur myndinni skýr íslensk einkenni.

Leikstjóri/Handritshöfundur – Benedikt Erlingsson

Benedikt Erlingsson er fæddur 1969. Hann hefur verið einn fremsti sviðsleikstjóri Íslands sl. áratug og hlotið mörg verðlaun sem leikstjóri, leikritahöfundur og leikari. Verkum hans fyrir sjónvarp hefur einnig verið vel tekið, til dæmis fékk hann Eddu-verðlaunin fyrir besta leik og besta handrit fyrir sjónvarpsþáttaröðina Fóstbræður(1999). 
Hann hefur jafnframt leikið í ýmsum kvikmyndum, meðal annars mynd Lars von Triers, Direktøren for det hele(Forstjórinn yfir öllu). Árið 2008 leikstýrði hann tveimur stuttmyndum, Takk fyrir hjálpið sem hlaut verðlaun dómnefndar og verðlaun áhorfenda á BE-kvikmyndahátiðinni í New York og Naglinn sem hlaut viðurkenningu á stuttmyndahátíðinni í Clermont-Ferrand í Frakklandi.

Gamanmyndin Hross í oss er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Benedikt leikstýrir og hún varð ein vinsælasta íslenska mynd síðari ára. Myndin hefur verið seld til meira en 30 landa (þar á meðal Bandaríkjanna) og fengið nærri 20 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun, til dæmis verðlaun fyrir besta nýja leikstjóra í San Sebastian, besta leikstjóra í Tókýó og bestu norrænu mynd í Gautaborg. Myndin var valin sem framlag Íslendinga til Óskarsverðlauna fyrir bestu mynd á erlendu tungumáli og hún hlaut sex Eddu-verðlaun, þar á meðal fyrir bestu mynd og besta leikstjóra.

Framleiðandi – Friðrik Þór Friðriksson

Friðrik Þór Friðriksson er í flokki fremstu leikstjóra og framleiðenda á Norðurlöndum og hefur unnið að meira en þrjátíu kvikmyndum í fullri lengd og mörgum stuttmyndum og heimildamyndum. Hann hóf kvikmyndaferil sinn í byrjun níunda áratugarins með því að gera tilraunamyndir og heimildamyndir. Árið 1987 stofnaði hann Íslensku kvikmyndasamsteypuna sem um tíma var helsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Íslands.

Friðrik Þór hlaut alþjóðlega viðurkenningu sem leikstjóri fyrir aðra mynd sína í fullri lengd, Börn náttúrunnar(1992) sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki kvikmynda á erlendum tungumálum. Af öðrum myndum Friðriks Þórs má nefna Bíódaga (1994), Á köldum klaka (1995), Djöflaeyjuna (1997) og Engla alheimsins (2000) sem helmingur Íslendinga fór í bíó til að sjá. Kate Winslet var sögumaður í heimildamynd Friðrik Þórs,Sólskinsdrengurinn.

Síðasta mynd Friðriks Þórs sem leikstjóra og framleiðanda, Mamma Gógó, er að hluta sjálfsævisöguleg. Hún var framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 2011. Meðal væntanlegra mynda Friðriks Þórs má nefna lesbíugamanmyndina Staying Alive og heimildamyndina Sjóndeildarhringur um Georg Guðna Hauksson heitinn listmálara.

Grunnupplýsingar um myndina

Frumtitill: Hross í oss

Leikstjóri: Benedikt Erlingsson

Handritshöfundur: Benedikt Erlingsson

Framleiðandi: Friðrik Þór Friðriksson

Í aðalhlutverkum: Ingvar Eggert Sigurðsson, Charlotte Bøving, Steinn Ármann Magnússon, Helgi Björnsson

Framleiðslufyrirtæki: Hrossabrestur

Lengd: 81 mínúta

Dreifing innanlands: Sena

Alþjóðleg dreifing: Film Sharks International

Dómnefndarmenn

Kristín Jóhannesdóttir, Björn Ægir Norðfjörð & Auður Ava Ólafsdóttir