Ida Jessen

Ida Jessen
Photographer
Miklos Szabo
Ida Jessen: Postkort til Annie. Smásögur, Gyldendal, 2013.

Ida Jessen fjallar um mannleg tengsl. Þegar þau eru hvað innilegust og þegar þau valda hvað mestum sársauka. Frásögnin er ýmist lágróma eða sleppir fram af sér beislinu í gríni og gamansögum með mjög líflegri framvindu. Í smásagnasafninu Postkort til Annie er fjallað um samband karls og konu og samband móður og sonar. Í aðalhlutverkinu er oft kona, oft í björtu báli, báli umkomuleysis, ástarbáli, báli ófullnægðrar þrár, hitasótt móðurástar. Synirnir eru oft óstýrilátir, jafnvel ofbeldisfullir, og mæðurnar eru ástfangnar af þeim. Karlmennirnir eru oft slyttislegir og konurnar verða engu að síður ástfangnar af þeim.

Jessen er snillingur í að lýsa í stuttu og samþjöppuðu máli ástandi eða aðstæðum; sorg, hjónabandi, ástarhita, dönskum ferðamannabæ við hafið. Um tvær ungar stúlkur sem eru nýbúnar að missa móður sína segir: „Hárið fléttað af óöruggri hendi“, og öll fjarvera móðurinnar er samansöfnuð í vöntuninni á öruggri móðurhönd til að flétta hárið. Þegar samband hjóna er tekið saman í þessu svari: „Já, hvernig segir maður frá maka sínum? Maður segir við.“ Þegar hægt er að segja frá brennheitri ást og því sem henni fylgdi í einni setningu og einu bergmáli: „...og þau féllust í faðma og faðmlagið entist í mörg, mörg ár. Faðmlag.“ Þegar græðgishagkerfi litla ferðamannabæjarins myndgerist í „kanilbollum heimabakarans sem ekki hafa náð að lyfta sér.“ Þegar konan óttast að maðurinn fari frá henni en þráir jafnframt frelsi „ekki frá honum heldur frá vonunum sem hún bindur við hann.“

Flestar af smásögunum eru skrifaðar í þriðju persónu en með sögumanni sem fléttar sig inn í sjónarhorn söguhetjunnar. Undantekningin er löng sakamálasmásaga, „December er en grusom måned“ („Desember er grimmilegur mánuður“), þar sem sögumaður svífur í meira mæli yfir vötnunum frá einni sögupersónu til annarrar í síbreytilegri frásagnargerð sem skapar mikla spennu.
Jessen er snillingur í að búa til spennandi óvissu. Aðeins ein af smásögunum inniheldur eiginlega morðgátu, sem lesandinn að þarf að miklu leyti að leysa sjálfur, en í öllum sögunum er hraður púls, augnabliks andnauð, einhver leyndardómur sem ekki er endilega lokið upp. Hver er dularfulli maðurinn sem tvítugur sonur móðurinnar flytur til út í sveit í „Mor og søn“ („Móðir og sonur“)? Af hverju vill sonurinn Sofus ekki hafa neitt saman við foreldra sína að sælda í smásögunni „Et skænderi“ („Rifrildi“)? Af hverju leyna herra og frú Saugmann því allt fram að jarðarför hennar að hún á dóttur sem er lifandi eftirmynd hennar? Síkvik orka leiðir okkur full af forvitni í gegnum sögurnar en við fáum engin skýr svör eða lausnir.

Oft verður stefnubreyting í sögunum: Saga sem virðist fjallla um banvænan fund geðsjúkrar konu og strætisvagns verður að sögu um banvænan fund ungs manns og ungrar konu. Saga sem virðist fjalla um par sem deilir við fullorðinn son sinn verður að sögu um brennandi líkama konu sem ekki fær þörfum sínum fullnægt. Saga sem virðist fjalla um vinkvennasamband sem lifir af skilnað verður að sögu um deyjandi hjónaband sem lifir af vinkonu. 
Í sögunni sem bókin sækir nafn sitt til, „Póstkort til Annie“, er okkur sagt frá því að þegar aðalsöguhetjan var ung hafi hún verið talin „allt of auðtrúa“, „góð og einföld“, en að henni hafi sjálfri fundist hún vera „gegnsýrð af harðasta kaldlyndi sem kom frá hjarta hennar sjálfrar og sem gerði að hún sá í gegnum fólkið sem hún var með og í gegnum sjálfa sig.“ Þessa persónulýsingu mætti túlka sem merki um að almennt sé tvöfeldni ráðandi í því hvernig sagan er sögð: Annars vegar er horft með vinsamlegum og kærleiksríkum augum á persónurnar, hins vegar er fylgst með þeim og þær gegnumlýstar af köldu raunsæi.

Postkort til Annie einkennist af áköfu sálfræðilegu raunsæi, en jafnframt eru merki um hreina dulúð draumsins. Frásögnin af því þegar gamla konan („hún hafði náð þeim aldri þar sem konur hafa tilhneigingu til að verða gagnsæjar“) heimsækir son sinn, sem er fullorðinn glæpamaður, meðvitundarlausan á sjúkrahúsinu og hann opnar skyndilega augað, er sterk og ógleymanleg draumsýn: „Þetta er auga Mogens, dökkt og athugult. Það er eins og hann horfi á hana með vitneskju úr öðrum heimi. Þannig horfði hann líka á hana þegar hann var nýfæddur, með íhugulum, dökkum augum sínum.“

Með þessum smásögum sínum gerir Ida Jessen snilldarlega bókmenntalega úttekt á sterkum böndum milli fólks, hvernig þau eru bundin, hvernig þeim er slitið. Þetta eru tilvistarleg og sálfræðileg klókindi í formi smásagna. En þetta er líka kraftmikill prósi með líflega framvindu í máli og sögugerð, í senn lágvær og kærulaus frásagnarstíll, umburðarlynd kímnigáfa og dreymnar, leyndardómsfullar myndir. 

Lilian Munk Rösing, Asger Schnack