Jesper Larsson

Jesper Larsson, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Jesper Larsson 

Ljósmyndari
Severus Tenenbaum
Jesper Larsson: Den dagen den sorgen. Skáldsaga. Nirstedt/litteratur, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Gegnumgangandi stef í skrifum Jesper Larsson er fólk sem er utanveltu, sem upplifir sig úr tengslum við samfélagið og er einmana. Þetta á einnig við um skáldsöguna Den dagen den sorgen („Hverjum degi nægir sín þjáning“, hefur ekki komið út á íslensku).

Atburðarásin hverfist um smiðinn Bengt. Hann er einmana og einangraður. Síðan kona hans lést fyrir fjórum árum hefur hann verið einstæður faðir hinnar þrettán ára Melissu. Bengt skammast sín fyrir þá stétt sem hann tilheyrir og finnst sér stöðugt mismunað innan samfélagsins. Einn góðan veðurdag hættir Melissa að leika á píanó og fer að skrifa ljóð í staðinn. Bengt er handviss um að ritlistarkennarinn misnoti dóttur hans og fer að fylgjast grannt með þeim í leit að einhverju sem sannað geti grunsemdir hans.Ekki hjálpar upp á sakirnar að dóttirin bregst ekki við stöðugri þörf hans fyrir samskipti, stöðugri leit hans að svörum.Bengt verður æ markalausari í viðleitni sinni til að elta Melissu á röndum, fylgjast grannt með henni og leita að merkjum um að ótti hans sé á rökum reistur.

Jesper Larsson fléttar ofsóknaræði Bengts og hræðslu hans við að missa stjórnina inn í textann af miklu öryggi og án þess að forðast sára punkta. Á enn dýpra plani má einnig greina vísbendingar um þá tilfinningu föðurins að hann dugi ekki til, að hans sé ekki lengur þörf.

Den dagen den sorgen fjallar um hin fljótandi skil á milli sjálfsins og þess sem umheimurinn álítur raunverulegt.Lesandinn fyllist óljósri óþægindatilfinningu: hvað hefur eiginlega átt sér stað? Hugleiðingar um stétt, karlmennsku og það hvaða raddir fá að heyrast í samtímanum eru einnig fléttaðar inn í textann með hárfínum hætti. Persónum á borð við Bengt er sjaldan lýst af alúð í samtímabókmenntum, en Larsson gerir hann heildstæðan og trúverðugan: hann er karlremba, haldinn útlendingafordómum og óviðkunnanlegri stjórnunarþörf og talar lélegt mál, en fær að standa í brennidepli sem miðpunktur frásagnarinnar.

Með knöppum og gagnorðum stíl sýnir Jesper Larsson okkur hvernig hyldýpið leynist ávallt undir hinu að því er virðist eðlilega yfirborði hversdagsleikans. Með dáleiðandi innri einræðum sögupersóna umbreytir Larsson hversdagslegum atvikum í viðburði sem hafa brenglaðar afleiðingar, svo að stíll og innihald renna saman í eitt , lesandinn fylgir sögumanni og verður eitt með honum.

Den dagen den sorgen, sem er 130 síður að lengd, er sérstæð og ögrandi bók í sænskum samtímabókmenntum. Metnaður Jesper Larsson, fullvissa án málamiðlana og hæfileiki hans til trúverðugra lýsinga gera hann að skærri stjörnu á bókmenntahimninum.

Jesper Larsson er fæddur árið 1970. Fyrsta bók hans, snö, tårar  (2003 („snjór, tár“, hefur ekki komið út á íslensku)), var tilnefnd til verðlauna Borås Tidning fyrir frumraun í bókmenntum.Síðan hefur hann sent frá sér tvær bækur, hina umfangsmiklu Hundarna  (2007 („Hundarnir“, hefur ekki komið út á íslensku)) og nú fjórtán árum síðar Den dagen den sorgen (2021), sem er tilnefnd til skáldsagnaverðlauna sænska útvarpsins 2022.