Kaj Korkea-aho

Kaj Korkea-aho, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Kaj Korkea-aho

Ljósmyndari
Niklas Sandström
Kaj Korkea-aho: Röda rummet. Skáldsaga. Förlaget M, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Ungur og dálítið þunglyndur rithöfundur og tónlistarmaður er þreyttur á að draga fram lífið sem blankur listamaður og lætur heillast af þeirri hugmynd að stytta sér leið að hamingjunni. Hvað ef einhver vildi gefa honum flotta íbúð í skiptum fyrir að skrifa skáldsögu? Í hálfgerðu gríni birtir söguhetja Röda rummet („Rauða herbergið“, hefur ekki komið út á íslensku) auglýsingu í dagblaði og fær svar frá manni sem minnir í senn á Hercule Poirot og Mefistófeles.

„Við getum áreiðanlega komist að samkomulagi,“ segir Aimo Kangas og leggur til að aðalpersónan kaupi glæsilega íbúð hans á verði sem er langt undir raunvirði. Þessi setning heldur áfram að óma í eyrum sögumannsins og tekur á sig æ flóknari hljóðan eftir því sem líður á söguna. Komist að samkomulagi?

Lesandinn og sögumaðurinn reyna báðir að átta sig á hinum viðmótsþýða og heimsvana Aimo. Fljótlega kemur á daginn að hann vill að söguhetjan skrifi bók um hann og þrá hans eftir undirgefni. Er rangt að þrá af öllu hjarta að leggja líf sitt í hendur annarrar manneskju og svífa um í valdaleysi án ábyrgðar? Hin milda og fágaða persóna Aimos á sér þó stjórnsama hlið sem gefur bókinni yfirbragð spennusögu.

Rauða herbergið í titli skáldsögunnar vísar ekki í samnefnt stórvirki eftir August Strindberg, heldur er það herbergi í íbúð; vistarvera drauma, fullnægju og smám saman einnig ofbeldis. Aðalpersóna skáldsögunnar laðast að íbúðinni og býður við henni í senn. Í þrjósku sinni reynir hann að mála rauða herbergið hvítt, um leið og hann heldur áfram að hitta Aimo, og án þess að verða þess var sekkur hann æ dýpra inn í hugarheim eldri mannsins.

Texti Korkea-ahos ögrar markvisst mörgum af hugmyndum samtímans um vald og undirtök, fullnægðar langanir og losta, án þess þó að leiðbeina eða veita skýr svör. Skáldsagan nálgast langanir persónanna af hreinskilni og hluttekningu og hringsólar af næmi í kringum hinar leyndardómsfullu og mótsagnakenndu birtingarmyndir lostans.

Kaj Korkea-aho er finnlandssænskur rithöfundur, pistlahöfundur og grínisti sem hefur áður gefið út skáldsögurnar Se till mig som liten är (2009 („Sjáðu mig lítinn“, hefur ekki komið út á íslensku)), Gräset är mörkare på andra sidan (2012 („Grasið er dimmara hinumegin“, hefur ekki komið út á íslensku)) og Onda boken (2015 („Illa bókin“, hefur ekki komið út á íslensku)). Sú síðastnefnda hefur verið þýdd á sex tungumál.