Karin Erlandsson (AX)

Pärlfiskaren
Karin Erlandsson: Pärlfiskaren. Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2017

Ævintýrið hefst á markaði þegar spákona segir aðalpersónunni Miröndu að hún eigi eftir að verða fyrir einhverju en vill ekki segja hvað það er. „Þú átt eftir að fara langt í burtu og kannski kemurðu heim aftur. Kannski ferðu eitthvað allt annað,“ segir spákonan leyndardómsfull. Miranda er rétt eins og margir aðrir á höttunum eftir augasteininum. Hann er stærsta og dýrmætasta perlan sem er á allra vörum og sem fólk hefur leitað að frá örófi alda. Augasteinninn á að færa henni auð og frægð og Miranda er vongóð um að finna hann vegna þess hvað hún er fær perlukafari. Með sér í leitina neyðist hún til að taka með sér yngri stelpu sem heitir Syrsa. Rétt eins og Miranda hefur Syrsa misst annan handlegginn í viðureign við hákarl þegar hún kafaði eftir perlum á hafsbotni. Ef fötlunin er frátalin er fátt líkt með stelpunum. Syrsa er málglöð, ör og hláturmild. Hún býr yfir leyndum hæfileikum sem eiga eftir að koma sér vel í leitinni að augasteininum. Eftir ýmsa hrakninga nálgast þær óðum og eru komnar á slóð augasteinsins þegar Miranda fer að efast um tilganginn með leitinni. Án þess að hún hafi tekið eftir því hefur líf hennar tekið aðra stefnu á meðan á leitinni stóð.

Pärlfiskaren („Perlukafarinn", óþýdd) eftir Karin Erlandsson tekur lesendur með sér niður í undirdjúpin þar sem perlur í öllum regnbogans litum eru á hafsbotni þar sem lífshættulegir rósarhákarlar gæta þeirra. Ásamt aðalpersónunum finnum við nýjar lyktir og brögðum á spennandi og safaríkum réttum. Endalaus leit Miröndu að augasteininum endurspeglar hvernig fullorðna fólk nútímans einblínir á efnislega hluti en gleymir að njóta þess sem það hefur. Bókin fjallar einnig um þrá. Hvað gerist ef ekkert er lengur eftirsóknarvert? Hvernig er hægt að pirrast óendanlega á manneskju sem síðan verður ómissandi í lífi okkar? Pärlfiskaren er tímalaust og nýstárlegt ævintýri fyrir alla aldurshópa sem hentar vel til sameinlegs upplesturs hinna yngri og eldri. Pärlfiskaren er fyrsta bókin sem Karin Erlandsson skrifar fyrir börn. Myndskreytingar gerði Tuuli Toivola. Bókin hlaut fyrstu verðlaun í ritkeppni Schildts & Söderströms, „Berättelsen är bäst!“. Pärlfiskaren var einnig tilnefnd til verðlaunanna Arvid Lydeckenpriset og hlaut Runeberg Junior-verðlaunin.