Liisa Akimof – Finnland

Miljøpris finland 2024
Ljósmyndari
Private
Lestarstöðin Hoplax og umhverfi hennar í Helsingfors er dæmi um hringrásarlausn sem bætir umhverfi í byggð, eykur sjálfbærni og er öðrum hvatning.

Liisa Akimof er tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024. 

Liisa Akimof hefur unnið að þróun lestarstöðvarinnar Hoplax (Huopalahti á finnsku) í Helsingfors undanfarin tíu ár samkvæmt hugmyndum um endurnýjun og vistvænar byggingar. Hoplax-svæðið tengir saman fluglestina við aðrar lestir í aðeins 6 kílómetra fjarlægð frá miðborg Helsingfors og á hverjum degi njóta tugþúsundir ferðalanga góðs af sérstakri blöndu vistvænnar endurnýjunar og nýbygginga með endurunnu efni. Gamlar byggingar hafa verið teknar í notkun á ný og fengið nýtt hlutverk. Til dæmis hefur varðskálanum verið breytt í kaffihús og í garðinum hafa verið settar upp leiksýningar.

 

Eitt hundrað ára gömul timbur- og múrsteinshúsin á stöðvarsvæðinu hafa verið endurnýjuð með hefðbundnum aðferðum og eru hituð upp með jarðhita. Þak nýju stöðvarbyggingarinnar er úr endurunnum múrsteinum, gluggarnir eru endurunnir og innveggir spartlaðir með leir. Nýjasta verkefnið er timburbygging með fjórum íbúðum sem hönnuð er með það fyrir augum að lífsferill hennar spanni 400 ár. Að þeim tíma liðnum munu trén sem notuð voru í húsið hafa endurnýjast margfalt í skóginum og sjálfbærnibilið þannig hafa verið brúað.

 

Í nýbyggingum Akimof er notuð ný og frumleg tækni við timbursmíðar sem kennd við „Aaltopuu“ og felst í stórum ólímdum timbureiningum sem festar eru með snittteinum. Aaltopuu-aðferðin er bæði vistvæn, hagkvæm og heilnæm auk þess sem hægt er að taka efnið aftur niður og endurvinna. Aðferðin er byggð á hefðbundnum norrænum byggingaraðferðum. Jafnframt er hún einföld í framkvæmd og skalanleg fyrir allar aðstæður.

 

Hoplax-stöðin og umhverfi hennar í Helsingfors sýnir að hugsjónir einnar manneskju um hringrásarlausnir geta bætt umhverfi í byggð, aukið sjálfbærni og verið öðrum hvatning.