Linda Fredriksson

Ljósmyndari
Tero Ahonen
Linda Fredriksson saxófónleikari er tilnefnt til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir „Juniper“, fyrstu einleiksplötu sína (2021).

Rökstuðningur

Juniper, fyrsta einleiksplata Linda Fredriksson (f. 1985), kom út fyrir rúmum tveimur árum en er nú þegar talin sígild. Á útgáfutíma plötunnar hafði Fredriksson þegar skapað sér glæstan feril sem einleikari í vinsælum tónlistarhópum; meðal annars hefur tónlist háns með hópnum Mopo verið lýst sem pönkdjass. Með Juniper stimplaði hán sig endanlega inn sem einn mest áberandi og alþjóðlega þekkta saxófónleikara Finnlands. Í Finnlandi hefur platan hlotið nánast öll hugsanleg verðlaun á sínu sviði og hefur einnig selst vel af djassplötu að vera.

Linda Fredriksson er þekkt fyrir að spila á afslappaðan hátt sem jafnframt er ákafur og sérstæður. Á plötunni Juniper fer hán inn á nýjar, viðkvæmar og persónulegar brautir, bæði sem tónskáld og tónlistarflytjandi. Útkoman einkennist af brothættri nánd sem jafnframt er kraftmikil, með fallegum og ljóðrænum laglínum sem renna saman við heim hljóðgervla. Tónlistinni hefur verið lýst sem söngvaskáldstónlist í flutningi djasshljómsveitar.

Juniper er heildstætt listaverk sem Linda Fredriksson sá fyrst fyrir sér sem röð söngva; frásagnir án orða. Tilurð og framleiðsla plötunnar var fremur óvanaleg: ferlið var langt og upptökustaðirnir fleiri en tíu talsins, allt frá eldhúsum til sumarbústaða, frá vinnuherbergjum til stúdíóa. Til að skapa hinar endanlegu útgáfur laganna skeytti Fredriksson mismunandi demó- og stúdíóupptökum saman með frjálslegum hætti. Útkoman er einstök, persónuleg og listilega gerð heild.