Maria Turtschaninoff

Maria Turtschaninoff
Photographer
Karin Lindroos
Maria Turtschaninoff: Maresi. Krönikor från Röda klostret. Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2014

Yfir bókmenntalegum eyjum, lokuðum og óaðgengilegum, himneskum og frjósömum, liggur undarleg birta. Í fantasíubókinni Maresi. Krönikor från Röda klostret skapar Maria Turtschaninoff eftirminnilega bókmenntaeyju. Eyjan Menos er griðastaður stúlkna, en nafn hennar minnir á orðið menstruation sem merkir blæðingar kvenna á mörgum tungumálum. Karlmenn mega ekki stíga fæti á eyjuna en stúlkur og konur lifa þar í sátt og samlyndi.               

Sagan er sjálfstætt framhald sagnanna Arra og Anaché, sem gerast í nærliggjandi löndum. Frásögnin um rauða klaustrið minnir á fornan harmleik þar sem gyðjur grípa inn í atburðarásina. Höfundur kynnir fyrir lesendum sínum stóran hóp persóna með hugmyndarík nöfn á borð við Maresi, Jai, Heo, Nummel, Dorje og Loeni. Bókarkápan hæfir furðusagnagreininni vel; er falleg og umhugsunarverð með blóðrauðu ívafi. Landakortin, sem oft gegna mikilvægu hlutverki í furðusögum, gefa draumkenndar vísbendingar í fölum pastellitum fremur en raunverulegar vegaleiðbeiningar. Þau þjóna þó einnig því hlutverki að undirstrika andrúmsloftið.

Maresi Enresdóttir er nýliði í klaustrinu. Hún segir söguna í fyrstu persónu, skrifar hana niður gegn eigin vilja, eftir að atburðirnir hafa átt sér stað. Þetta er hennar vitnisburður: „Lyktin af blóði. Hljóðið í brestandi beinum. Ég vil ekki vekja allt þetta upp aftur. En ég verð.“ Maresi var níu ára þegar hún flúði hungursneyð og leitaði skjóls í klaustrinu þar sem hún elst upp og stundar nám. Myrk öfl elta hana á röndum, en hún finnur styrk í lestri bóka og samstöðu kvennanna.

Lýsingarnar eru aðþrengjandi og valda nánast innilokunarkennd, enda er sögusviðið allt í lokuðum rýmum; á eynni, í húsakynnum klaustursins, í ranghölum innan í hellum. Einangrunin á eynni er rofin harkalega þegar Jai kemur til sögunnar. Hún er á flótta undan föður sem gróf systur hennar lifandi. Jai og Maresi eiga það sameiginlegt að hafa orðið vitni að dauða systra sinna. Í báðum tilvikum var um að ræða hrikalegt áfall sem þær þurfa að vinna úr til að ná sér að fullu og finna töfra- og lækningamátt sinn. Þar gegnir hár stúlknanna sérstöku hlutverki. Máttur þeirra býr í hárinu; þeim tekst jafnvel að greiða fram storm og vernda þannig eyna fyrir innrásarherjum.

Í meðförum Turtschaninoff verður þessi kraftmikla andspyrnusaga bæði trúverðug og sannfærandi. Þrátt fyrir að sagan eigi sér stað á fjarlægum slóðum á óvissum tíma leikur enginn vafi á því að viðfangsefnið er heiðurstengt ofbeldi og kúgun, rétt eins og í fyrri bókunum. Hinn mikli kraftur sem býr í stúlkunum er settur fram til höfuðs óréttlæti í samtímanum og boðskapurinn er skýr: Við eigum að þora að veita mótspyrnu! Hér er á ferðinni kynjað stríð í smækkaðri mynd, frá sjónarhorni stúlkna. Turtschaninoff ferst vel úr hendi að nýta hefðbundin stef í stúlknalýsingunum. Í anda Önnu í Grænuhlíð lætur Maresi sig til dæmis dreyma um að byggja skóla til að mennta stúlkurnar í heimalandi sínu. Annað nærtækt dæmi er kvennasamfélagið í The Tombs of Atuan (1970) í Earthsea-bókaflokknum eftir Ursulu Le Guin, þar sem segir frá stúlkum sem hafa orðið fyrir ofbeldi.

Maresi má lesa sem táknsögu, þar sem höfundur leikur sér með aðferðafræði fornrar leikritunarhefðar og blæs þannig nýju lífi í stórfenglega frásögn þar sem kraftur stúlknanna stendur á móti ofbeldi af höndum karlmanna. Turtschaninoff tekst frábærlega upp í lýsingum á mæðraveldi sem lýtur seiðmögnuðum lögmálum tíðablæðinga, stígur meyjardans og stundar femíníska sjálfsvörn með fulltingi töframáttar. Léttleikinn á yfirborðinu, það að höfundur er óhræddur við að stefna saman stefjum úr ólíkum heimum – allt skilar þetta sér í spennandi og íhugulli frásögn, fullri af hugsjón. Engu líkara en goðsögn hafi öðlast nýtt líf.