Mary Ailonieida Sombán Mari

Mary Ailonieida Sombán Mari, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Mary Ailonieida Sombán Mari

Ljósmyndari
Tanya Busse
Mary Ailonieida Sombán Mari: Beaivváš mánát. Ljóðabók. Mondo Books, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Með æðisgenginni ljóðlist sinni dregur rithöfundurinn, ljóðskáldið og myndlistarkonan Mary Ailonieida Sombán Mari okkur inn í upplifun Sama af valdbeitingu, kynþáttahyggju og fyrirlitningu af hálfu yfirvalda. 

 

Fyrri hluti bókarinnar, Leve blant reptiler („Lifað á meðal skriðdýra“), er á norsku, og seinni hlutinn sem bókin dregur nafn sitt af, Beaivváš mánát („Börn sólarinnar“), er á norðursamísku. Bókin hefur ekki komið út á íslensku. Í báðum hlutunum eru dregnar upp myndir af vissum tímabilum sem opna augu lesenda, ýmist með því að efla skilning þeirra sem ekki tilheyra hópi Sama eða með því að valdefla þá lesendur sem eru Samar.

 

Ljóðin mæta okkur eins og foss orða, sem spyr spurninga með vísan í sársaukafulla sögu: 

Lea go sápmelaš / goas ge čállán / dážii dakkár lágaid / ahte visot gullá sutnje / ja álo de beassá dáža njeaidit dikkis / danne go ieš lea čállán visot lágaid? (Úr ljóðinu „Dás ii leat dárustit“, bls. 61)

 

Hafa Samarnir / nokkurn tíma samið / lög fyrir Norðmanninn / sem kveða á um að allt tilheyri þeim, / til að geta síðan sallað/ Norðmanninn niður fyrir rétti / þar sem þeir sjálfir hafa samið lögin? (Úr formálanum „Da de brente meg levende på noaidebålet“ („Þegar þau brenndu mig lifandi á nornabálinu“), bls. 17)

Um leið er bókin óður til sólarinnar og landslagsins sem andlegs orkugjafa og uppsprettu lífs, og til hinnar andlegu tengingar sem hefur verið og er enn til grundvallar í lífsháttum Sama.

juoiggas nana luđiid / mat bistet / agibeaivái / ja vel duobbeliidda / gos mii oktii / bođiimet, Beaivváža mánát (Úr ljóðinu „Buohkaid buhtes luondu“, bls. 65)

 

jojkum kraftmikil jojk / sem vara / að eilífu / og enn lengur / þaðan sem við eitt sinn / komum, börn Sólarinnar

Útlit bókarinnar minnir á skartgrip; hana prýða gyllt kápa og magnaðar myndir eftir höfundinn/listakonuna, sem hrífa lesandann með sér líkt og litríkur foss. Bókin var valin fegursta bók ársins 2021 af Grafill, samtökum hönnuða og myndskreyta í Noregi. Hægt er að lesa hana á vefnum og jojk fylgir einnig með. 

Hrífandi myndskreytingarnar í bókinni fara vel saman við einarðan stíl ljóðanna, og Mary Ailonieida Sombán Mari sprengir virkilega þann þrönga stakk sem oft er sniðinn um rithöfunda sem ekki tilheyra meirihlutanum og vilja láta rödd sína heyrast: 

Mis ii lean goassige / makkárge / agenda singuin / ahte nubbi olmmoš nu /ráfi haga / juos juoba leš ge olmmoš / galbmavarat repeŋilljá / olmmošmeahttun / dovdduid haga (Úr ljóðinu „Dás ii leat dárustit“, bls. 61)

 

Við ætluðum okkur aldrei / neitt með þau / að gera aðra manneskju / svo friðlausa / ef þau eru þá manneskjur / þessi skriðdýr með kalt blóð / svo ómanneskjulegar / og tilfinningalausar / sem þær eru (Úr formálanum „Da de brente meg levende på noaidebålet“ („Þegar þau brenndu mig lifandi á nornabálinu“), bls. 17)

Ljóðin varpa ljósi á þann skort á mannúð sem einkenndi hugmyndafræði fortíðarinnar, en draga um leið þráð til ástandsins í dag:

Juos dáruiduhttin ii livčče leamaš / de min girjerádjosat / livčče dievva / vássán čálliiguin / min iežamet Ibsen / livččii lean Strindberga / geas ledje sámi váhnemat (Úr ljóðinu „Govadas baldon olbmot“, bls. 52)

 

Hefðum við ekki verið gerð norsk/ væru bókasöfn okkar / full / af rithöfundum fortíðarinnnar / við hefðum átt okkar eigin Ibsen / hefðum átt Strindberg / fæddan af samískum foreldrum

Mary Ailonieida Sombán Mari hefur verið frumkvöðull fyrir hönd samíska málsvæðisins í fleiri en einni bókmenntagrein og hefur gefið út fjölda sterkra verka, meðal annars fyrstu barnabókina á samísku: Ámmul ja alit oarbmælli (1976, „Ámmul og blái frændinn“, hefur ekki komið út á íslensku)), og einnig fyrstu erótísku samísku skáldsöguna, Bajándávgi (2004), sagða frá sjónarhorni konu.

Hún var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 fyrir barna- og ungmennabókina Čerbmen Bizi – girdipilohtta („Bizi litli, hreindýrskálfurinn fljúgandi“, hefur ekki komið út á íslensku) og til Hedda-verðlaunanna norsku 2013 fyrir leikverkið Stáinnak („Hvíta hreindýrið“, hefur ekki komið út á íslensku). Mary Ailonieida Sombán Mari var einnig í hópi þeirra samísku rithöfunda sem unnu frumkvöðlastarf með stofnun samíska rithöfundasambandsins, Sámi Girječálliid Searvi (SGS), árið 1979.