Mette Vedsø

Hest Horse Pferd Cheval Love. Roman
Mette Vedsø: Hest Horse Pferd Cheval Love. Skáldsaga, Jensen & Dalgaard, 2017

Líklega var það forystugrein í sænska tímaritinu Bazar Masarin, 2016:2, undir fyrirsögninni „Häst är bäst“, sem varð Mette Vedsø hvatning til þess að skrifa hestaskáldsögu. „Hestaskáldsögur gera börnum og unglingum nútímans kleift að hverfa inn í veröld þar sem þau finna leið til að skapa eða finna sjálfsmynd sína,“ stóð í greininni og er lýsandi fyrir það sem Mette Vedsø tekst svo vel í umræddri skáldsögu.

Sögupersónurnar eru þrettán ára vinkonur og algjörar andstæður, þær Naja og Vanessa sem kölluð er Taxa. Þær sinna hestunum sínum en þeir gegna einnig hlutverki í sögunni hvor með sínu lundarfari. Vinkonurnar tala saman um gaman og alvöru og um pólsku hestahirðina sem ráða ekki alveg við dönskuna. Naja kemur frá penu millistéttarheimili en Taxa býr í blokk. Naja á ráðríka mömmu en mamma Taxa er varla til staðar.

Taxa er byrjuð á blæðingum, hún hefur áhuga á strákum og er byrjuð að reykja. Hún er þroskaðri en Naja og lesandanum dylst ekki að vinátta stelpnanna er að líða út af, eða breytast. Bókarhönnuður gefur þetta í skyn á fallegan hátt með biðukollum og svifhárum sem líða um kápu og opnur bókarinnar. Fræin ýmist hverfa út í buskann eða ná rótfestu og breiða úr sér. Í æstu lékum við okkur að því að blása á biðukollur til að sjá hvað við ættum marga kærasta. Við vitum hvernig svifhárin berast með vindinum. Við vitum líka að fræin eru harðger. 

Stíll Mette Vedsø er einfaldur og knappur. Hann er er hnitmiðaður en jafnframt aðeins ýjað að sumum hlutum. Lesendum dylst ekki að sagan er mun stærri en hún virðist í fyrstu því milli línanna leynast ótal tilfinningar og sterk samkennd.

Sagan er ljóðræn og raunsæ í senn. Lesandanum er kippt út úr þægindaramma þar sem svörin eru gefin fyrir fram. Lesandinn – og hestarnir – eru vitni að þeirri blíðu og óvissu sem einkennir vináttu stelpnanna en þær eiga kannski ekkert annað sameiginlegt áhugamál en hestana.

Með bókinni hljóta hestaskáldsögur verðugan sess í bestu bókahillunni! Sagan er jafnframt annað og meira því hún sprengir af sér ramma hestaskáldsögunnar.

Við kynnumst tveimur stelpum í heimi þar sem þær finna kannski leið að sjálfsmynd sinni. Og hvor að annarri?