Niillas Holmberg: amas amas amasmuvvat

Niillas Holmberg
Photographer
Eetu Niininen
Ljóðabók, DAT, 2013

Niillas Holmberg (f. 1990) er frá Ohcejohka/Utsjoki í Finnlandi og hefur getið sér nafn sem listamaður á ýmsum sviðum þrátt fyrir ungan aldur. Árið 2009 kom út fyrsta bók hans, ljóðabókin Dego livččen oaidnán iežan, 2010 lék hann aðalhlutverk í sýningunni Allaqsem sýnd var í Beaivváš, þjóðleikhúsi Sama, og árið 2011 gaf hann út hljómplötuna Manin guottán girjji fárus. Hann hefur síðan haldið áfram að vaxa sem listamaður í öllum ofantöldum greinum. Ljóðabókin amas amas amasmuvvat er önnur bók Holmbergs og hlaut hún bókmenntaverðlaun Samaráðsins árið 2014.

amas amas amasmuvvat er ljóðabók með sjálfsævisögulegum einkennum þar sem ljóðmælandi að nafni Niillas tekur til máls. Bókin skiptist í fimm hluta og lesandinn fylgist með Niillas á mismunandi tímabilum þar sem hann rýnir í eigin sjálfsmynd sem listamaður og Sami. Hver bókarhluti fylgir tilteknum þræði, en saman mynda þeir breiða heild þar sem form ljóðanna flakkar milli epísks söguljóðastíls annars vegar og meitlaðrar og gagnorðrar ljóðrænu hins vegar.

Í upphafi bókarinnar veltir Niillas því fyrir sér hvar hann passi inn í heildina, fjölskylduna og samfélagið, í veruleika listarinnar í hnattvæddum heimi. Þetta býður heim vangaveltum um þýðingu þess að vera ungur Sami, um þrýstinginn sem beinist að samfélaginu utan úr heimi og jafnframt þá möguleika sem hinn stóri heimur býður ungum Sömum í dag, bæði hópum og einstaklingum meðal þeirra, og um þrýstinginn sem sækir að Sömum innan frá; í samfélagi þeirra sjálfra, frá fjölskyldunni og frá sjálfi hvers og eins, og um þýðingu þess að vera samískur listamaður þegar búist er við því að bæði hið afar nána og hið óskilmerkilega hnattræna sé til staðar, enda er það til staðar, bæði í listinni og lífinu. Í fimmta og síðasta hlutanum nær textinn hámarki í ákalli til samískrar æsku að vera staðföst, að varðveita sögu sína og menningu og endurskilgreina hana. Þetta kann að hljóma eins og skýr krafa, en er það ekki þegar að er gáð.

Niillas Holmberg er fulltrúi nýrra tíma í samískri list, fulltrúi kynslóðar sem hefur alist upp í ofurhnattvæddu upplýsingasamfélagi með öllu sem því fylgir. Í amas amas amasmuvvat er klofin upplifun ungmenna af samfélaginu tekin alvarlega og Holmberg nálgast viðfangsefni sín af hyggindum og næmni. Hann hefur sérstæða og hljómmikla rödd sem heldur góðu flæði gegnum ólíka hluta bókarinnar. Málfar ljóðanna er sterkt, leikandi og blæbrigðaríkt og hittir vel í mark. Holmberg hefur lagt upp úr því að leita uppi og nota gömul samísk orð sem eru að hverfa úr almennri notkun og gefur þeim hér endurnýjaðan lífskraft og innihald með því að nota þau í nýju samhengi.