Niviaq Korneliussen: HOMO sapienne

Niviaq Korneliussen
Photographer
Jørgen Chemnitz
Skáldsaga, Milik, 2014

Titill bókarinnar er nýyrði, eins konar kvenkynsmynd af homo sapiens – og með áherslu á homo, eins og í homosexual. Af hinum fimm aðalpersónum bókarinnar eru tvær lesbískar, einn hommi, ein tvíkynhneigð og ein transmanneskja.  Í grunninn fjallar sagan um ást, vináttu og fjölskyldubönd og er tjáð gegnum persónur sem ekki falla að venjum samfélagsins – ekki heldur á Grænlandi!

Fia uppgötvar það ekki fyrr en hún slítur gagnkynhneigðu sambandi að hún laðast að konum, sérstaklega Söru, sem er í lesbísku sambandi með Ivik, sem á í erfiðleikum með að tjá ást sína á líkamlegum nótum. Inuk, bróðir Fiu og Arnaq vinkona þeirra gegna einnig mikilvægum hlutverkum í sögunni áður en yfir lýkur.

Síðan Homo Sapienne kom út í nóvember 2014 hefur hún vakið mikla athygli meðal grænlenskra og danskra lesenda og fengið góðar umsagnir í fjölmiðlum beggja landa. Mörgum lesendum finnst bókin stórgóð, spennandi og skemmtileg meðan öðrum finnst hún fara „yfir strikið“ og ógna almennu velsæmi, með persónulegum umfjöllunarefnum á borð við samkynhneigð og tvíkynhneigð. Á hinn bóginn má halda því fram að einmitt það eigi góð bók að gera: hreyfa við kenndum okkar og bældum tilfinningum gagnvart málum sem bannhelgi hvílir á, eins og til dæmis kynhneigð. HOMO sapienne er nýstárleg, fersk og áræðin saga í grænlensku bókmenntalandslagi. Í henni lýsir höfundur skrýtnum skrúfum í grænlensku samfélagi án þess að falla í gryfju predikunar.

HOMO sapienne er skrifuð á grænlensku og endurskrifuð á dönsku af höfundi.

HOMO sapienne er tilnefnd til bókmenntaverðlauna danska dagblaðsins Politiken árið 2014.

Niviaq Korneliussen er fædd árið 1990 og ólst upp í Nanortalik á Suður-Grænlandi. Hún lagði stund á nám í samfélagsgreinum við háskólann í Nuuk um nokkurra ára skeið en nemur nú sálfræði við Árósaháskóla.

Hún hóf rithöfundarferilinn árið 2012 með sigri í smásagnakeppni fyrir grænlensk ungmenni, en smásaga hennar San Francisco var af dómnefnd talin meðal þeirra allrabestu af tíu sögum sem valdar voru til útgáfu í smásagnasafninu Ung i Grønland – ung i Verden.

Danski rithöfundurinn Mette Moestrup, sem kynntist Korneliussen í tengslum við smásagnakeppnina, hefur ritað formála að skáldsögunni og setur þar fram eftirfarandi spá: „Hún er boðberi nýrrar kynslóðar sem lengi hefur verið vænst í grænlenskri skáldsagnaritun, og kveður sér um leið hljóðs í dönskum nútímabókmenntum.“

Contact information