Rakel Haslund-Gjerrild

Rakel Haslund-Gjerrild, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Rakel Haslund-Gjerrild

Photographer
Sofie Amalie Klougart
Rakel Haslund-Gjerrild: Adam i Paradis. Skáldsaga. Lindhardt & Ringhof, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Girnd, losti og mannleg viðleitni: Í þessari listilega skrifuðu skáldsögu eftir Rakel Haslund-Gjerrild, Adam i Paradis („Adam í Paradís“, hefur ekki komið út á íslensku), er lýsing á lífsvilja skynjandi manneskju dregin upp af djúpu innsæi. Manneskju sem upplifir sig í senn á jaðrinum og í miðpunkti alls.

Rakel Haslund-Gjerrild sendi frá sér sína fyrstu bók árið 2016, hið stílhreina og raunsæislega smásagnasafn Øer („Eyjar“, hefur ekki komið út á íslensku), og 2020 kom út Alle himlens fugle („Allir fuglar himinsins“, hefur ekki komið út á íslensku), drungaleg heimsendaskáldsaga með loftslagsþema. Með skáldsögunni Adam i Paradis, sem byggir á atburðum í lífi raunverulegrar persónu, sýnir hún svo ekki verður um villst að hún getur skrifað hvað sem hún ætlar sér.

Listmálarinn Kristian Zahrtmann (1843–1917) skipar sérstakan sess í danskri listasögu og er nú einnig orðinn til sem skáldsagnapersóna í bókinni Adam i Paradis eftir Rakel Haslund-Gjerrild. Lesandinn þarf þó hvorki sérstaka þekkingu á málaranum né samtíð hans til að njóta skáldsögunnar. Kristian Zahrtmann verður til í gegnum meistaralega frásagnargáfu Rakelar Haslund-Gjerrild. Og hún kann svo sannarlega að segja frá.

Árið er 1913, rétt áður en „Stríðið mikla“ skellur á, og við upphaf sögunnar er Kristian Zahrtmann að breyta vinnustofunni á heimili sínu í Kaupmannahöfn í iðjagrænan Edensgarð, með trjám og pálmatrjám sem hann hefur fengið að láni úr grasagarðinum Botanisk have. Hann býr sig undir að mála málverkið Adam leiðist í garði Paradísar, sem skáldsagan dregur titil sinn af. Málverkið sýnir myndarlegan og fagurskapaðan nakinn mann; upp að nánast beruðu skauti hans hringar snákur sig. Lystisemdir holdsins eru allsráðandi. Erótíkin svífur yfir vötnum. Litavalið er skrautlegt og óvænt. Þetta á allt við um myndina af Adam og einnig um texta Haslund-Gjerrild.

Hún skrifar á máli sem er í senn íburðarmikið og létt, mettað og teinrétt og sem hvetur til samskynjunar skilningarvita, eins og hér: „Lyktin af sítrus gerir herbergið appelsínugult.“ Textinn er auðugur af blæbrigðum. Þessi skáldsaga er sannkölluð fjársjóðskista myndhverfinga, fjörug og titrandi. Haslund-Gjerrild kann bæði að færa okkur aftur í tíma og að skrifa um viðfangsefnið eins og það sé nýtt og ferskt. Hinn sögulegi raunveruleiki setur henni ekki skorður, heldur virðist hann fremur hafa veitt henni aðgang að uppsprettu sköpunarfrelsis. Hún hefur hina sögulegu atburði vissulega á valdi sínu, en einkum þó skáldskaparlistina. Hún lánar okkur augu og tungumál til að skynja með.

Eitt af einkennum skáldsögunnar er það hvernig höfundur nýtir sér margræðni. Zahrtmann, sem er sögumaður bókarinnar, er spaugsamur og ögrandi, kraftmikill og hégómlegur, viðkvæmur og sjálfsöruggur, ólgandi og leyndardómsfullur. Gráir tónar eru ekki áberandi á málverkinu, þó að tíminn sé að renna aðalpersónunni úr greipum.

Haslund-Gjerrild skrifar vægðarlaust og fallega um það að eldast. Þegar við hittum hinn sjötuga Zahrtmann hefur hann löngu horfst í augu við það að hann er ekkert unglamb lengur. Tíminn hefur tekið sér bólfestu í skrokknum, lifrarblettirnir hafa hafið innreið sína, hann er að „dalmatíserast“, eins og Haslund-Gjerrild skrifar. „Ég tek um beinin í mér og dreg mig upp, hryggjarlið fyrir hryggjarlið.“ En hnignunarstef skáldsögunnar getur einnig af sér spennu. Þó að hið niðurnídda landslag líkamans kveiki löngun eftir því sem eitt sinn var, þá lítur Zahrtmann ekki aðeins til baka – í skáldsögunni má einnig greina niðandi undiröldu löngunar eftir einhverju meira. Togkraftur löngunarinnar getur af sér fjöruga viðleitni.

Og það er einkum hið ósagða sem Rakel Haslund-Gjerrild nýtir sem drifkraft í þessari skáldsögu. „Að hafa spegil á heimilinu. En andstyggileg hugmynd.“ Sumt þolir einfaldlega ekki dagsljósið. „Aðeins gleði og minniháttar sorgum ætti að deila með öðrum, lífið þarf maður sjálfur að bera.“

Sem listamaður má segja að Zahrtmann hafi verið „hinsegin“ – list hans skar sig úr á sínum tíma – en um tilveru hans úti á jaðri kynferðislegs siðferðis þess tíma er ekki hægt að tala. Í þessari skáldsögu leyfist aðeins auganu að snerta. Haslund-Gjerrild sameinar á fágaðan hátt skáldskap og söguleg heimildaskrif um „stóra siðsemdarmálið“ í Kaupmannahöfn 1906–07. Þá voru margir framámenn samfélagsins sakfelldir fyrir viðskipti sín við vændiskarla. Endursögn höfundar á nístandi illkvittnum pistli Johannesar V. Jensen um Herman Bang hefur einkum áhrif á lesandann. Þau textabrot undirstrika að enginn á roð í dómstól alþýðunnar. Þar liggur grundvöllurinn að því sem höfundur skáldsögunnar kemur okkur í skilning um: hinni að öllum líkindum fljótandi kynhneigð Zahrtmanns er aðeins unnt að ýja að.

Í Adam i Paradis setur Rakel Haslund-Gjerrild fram skýrar hugmyndir í texta sem er þrunginn skynjun. Hún sýnir okkur manneskju sem er haldin slíkum þorsta eftir merkingu að hann máir á endanum út heiminn, svo að minnir helst – með orðum Haslund-Gjerrild sjálfrar – á fölnaða servíettu.