Sofia Nordin

Sofia Nordin
Ljósmyndari
Viktor Gårdsäter
Sofia Nordin: En sekund i taget (Ein sekúnda í senn). Rabén & Sjögren 2013

„Ég flý, hleyp niður tröppurnar þó að það sé enginn til sem gæti elt mig. Það er satt að segja enginn til. Allir eru dánir. Mamma er dáin. Pabbi er dáinn. Litli bróðir minn Ludvig er dáinn. Og sennilega allir aðrir líka.“

Þannig hefst unglingabók Sofiu Nordin, En sekund i taget (Ein sekúnda í senn). Hún fjallar um þrettán ára gamla stelpu sem heitir Hedvig og lifir ein af sótt sem drepur ekki bara alla fjölskylduna hennar heldur líka allt fólk í kringum hana. Á götunum liggur dáið fólk út um allt. Er hún ein eftir? Þessi spurning lætur hana ekki í friði meðan hún berst fyrir lífi sínu. Hún pakkar niður helstu nauðsynjum og fer út fyrir bæinn að bóndabæ sem skólinn notar til kennslu.

Þar byrjar nýtt líf og hún byggir smám saman upp tilveru sem gengur út á að sinna hænsnum og hestum, kveikja eld í viðarofninum, mjólka kýrnar og reyna að finna leiðir til að lifa af komandi vetur einsömul. Hugsunum sem tengjast umheiminum og framtíðinni reynir hún að ýta frá sér en öðru hverju hellast þær yfir hana og sömuleiðis sorgin vegna látinnar fjölskyldu hennar og sektarkenndin yfir að hafa yfirgefið þau. Hvernig tekst maður á við vitneskjuna um að vera kannski ein eftir í heiminum, að eiga kannski aldrei eftir að eignast vini eða einhvern til að elska, að fá aldrei framar að snerta aðra manneskju. Það er ekki auðvelt að lifa eina sekúndu í senn. Og dag einn sjást fótspor fyrir utan húsið ...

Grípandi, þétt og óhugnanleg frásögn Sofiu Nordin af lífinu eftir hamfarirnar er einstök á sínu sviði. Hún snertir við lesandanum, spyr spurninga um tilveru okkar og knýr okkur til að horfast í augu við það sem við viljum helst ekki hugsa um.

Sofia Nordin er fædd 1974 og býr í Stokkhólmi. Hún þreytti frumraun sína 2003 með bókinni Äventyrsveckan(Ævintýravikan) og síðan þá hefur hún skrifað á annan tug barna-, unglinga- og fullorðinsbóka sem næstum allar hafa verið gefnar út af Rabén & Sjögren. Í janúar 2014 kom út bókin Spring så fort du kan (Hlauptu eins hratt og þú getur) út sem er sjálfstætt framhald af En sekund i taget. Algeng umfjöllunarefni í bókum Sofiu Nordins eru sterkar tilfinningar, félagsleg stigveldi og einsemd. Tvær af unglingabókum hennar, Natthimmel(Næturhiminn) og Det händer nu (Það gerist núna), voru tilnefndar til August-verðlaunanna 2009 og 2010 í flokki barna- og unglingabóka. Hún vinnur jafnframt sem þýðandi og hefur þýtt unglingabókina Juli eftir Tania Kjeldset úr norsku.