Sólrún Michelsen: Hinumegin er mars

Sólrún Michelsen
Photographer
Kontakt forlaget
Mentunargrunnur Studentafelagsins, 2013

Við upphaf bókar er sögukona rúmlega sextug og horfist í augu við að farið sé að síga á seinni hlutann.  Sagt er frá móður sem á ekki langt eftir og jafnframt brugðið upp svipmyndum af lífshlaupi þeirra mæðgna. Hinumegin er mars er ljóðræn frásögn af því að eldast, með áherslu á mikilvægi þess að staldra við og njóta hvers augnabliks.

Móðirin býr ein en á í æ meiri erfiðleikum með að sjá um sig sjálf. Elliglöp færast í aukana og hún fær ekki nægilega heimilisaðstoð. Það er ekki pláss á hjúkrunarheimilinu og börnin eiga í vandræðum með að sjá um móður sína sem skyldi. Alla söguna bíða þau þess með óþreyju að nýja hjúkrunarheimilið verði opnað, og sögukona lætur þá von hálfskömmustulega í ljós að móðirin spjari sig þangað til byggingu þess er lokið.

Persóna móðurinnar hverfur smátt og smátt sjónum og loks fær lesandinn að vita að hún sé farin – að sú manneskja sem hún var sé ekki lengur til. Skortur á aðhlynningu fyrir aldraða er eitt af grunnstefjum bókarinnar og birtist m.a. í starfsfólki heimaþjónustunnar sem tekur móðurina ekki alvarlega heldur ávarpar hana eins og barn. Annað áberandi stef er dauðinn og kveðjustundin. Þegar móðirin er flutt á spítala veit lesandinn að það er í síðasta skipti og þá er sorgin í forgrunni.

Hugleiðingar um hlutverk kvenna eru einnig áberandi. Sagt er frá „her kvenna“ og verkefnum þeirra, og sögukona þarf bæði að sinna móður sinni og eigin barnabörnum. Hún segist hafa ákveðið að hætta að vinna til að hafa tíma fyrir „allt sem ég náði ekki að gera og sem mig hefur alltaf langað til“. Gefið er í skyn að hana hafi einkum dreymt um að helga sig ritstörfum, sem hún reynir að sinna meðfram umönnunarstörfunum.  

Í bókinni mætir skáldskapur raunveruleika og lýsingar sögukonu fléttast saman við minningar móður hennar, einkum úr bernsku. Hún dregur fram brotakenndar sýnir frá bernskuárunum og segir á hjartnæman hátt frá veiðiferð feðginanna, þar sem hún landaði aflanum ein og óstudd. Móðurinni er lýst sem glaðlyndri, óvenjulegri og nútímalegri í augum dóttur sinnar og vinkvenna hennar. Þegar hún er farin að eldast og orðin ekkja fær hún alltaf heimsóknir, enda hefur hún alla tíð fylgt tveimur grundvallarreglum gestrisninnar sem sögukonan endursegir á þessa leið: „Kvartaðu aldrei!“ og „Láttu alltaf sem þú sért glöð og hissa að sjá gestina!“ Þetta hefur móðurinni tekist þangað til elliglöpin knýja dyra.

Stíll bókarinnar er ljóðrænn, sumir kaflanna nánast eins og ljóð, og þrátt fyrir alvarleg umfjöllunarefni fer mest fyrir skáldskapnum í hinu hversdagslega. Lífinu er lýst sem ferðalagi um marga áfanga þar sem ferðalangurinn er ekki alltaf meðvitaður um hvar hann er staddur hverju sinni eða að fá sem mest út úr því. Það hefur móðirin verið, og í sögunni felst skilyrðislaus ástarjátning í garð hennar og lífsins.