Susanne Ringell

Susanne Ringell
Ljósmyndari
Niklas Sandstrom
Susanne Ringell: God morgon. Stuttur prósi, Förlaget M, 2017

Lýsa mætti Susanne Ringell sem ljóðskáldi og leikritaskáldi með dálæti á stuttum prósa. Nýjasta verk hennar, God morgon (á íslensku „Góðan daginn“), er óstýrilát og lifandi heild sem erfitt er að flokka ofan í ákveðin hólf bókmenntanna. Ljóðmælandi veltir vöngum yfir lífinu og tilverunni þegar gripið er inn í ritgerðarlegan tóninn með ljóðum, skáldskap og sviðsettum leikbrotum. Mikilvæg textatengsl verksins má finna í leikritinu Draumleik eftir August Strindberg og eiga inngangsorð leikskáldsins ágætlega við um aðferð Susanne Ringell þegar hún skrifar: „ … á óverulegum veruleikagrunni spinnur ímyndunaraflið og vefur nýtt mynstur: þar sem blandast saman minningar, reynsla, frjálsar hugdettur og spuni.“

God morgon samanstendur af tíu mislöngum prósabrotum. Í öllum textunum eru ljóðmælandi og maki hennar á ferð, oft á leið í svonefndar ferðamannaparadísir: „Allur heimurinn vill losna frá eymd alls heimsins, skilja hana eftir, komast burt.“ Elskendurnir eru „sem slíkir alltaf hjálparvana“ og skipta á milli nærveru og fjarlægðar. Skyndilega birtist annað par í hótelíbúðinni, Claire og Pascal. Með fjálglegum hreyfingum franska parsins, sem spanna aðskilnað, endurfundi og brúðkaup, sviðsetur Susanne Ringell kynið „sem stöðugan gjörning“.

Susanne Ringell hefur glöggt auga fyrir hinu leikræna: sviðsmyndum, leikmunum, búningaskiptum, innkomu og útgöngu. En gripið er fram í fyrir snotrum söguboganum. Gamall hundur liggur undir teppi og deyr en hjartað er svo sterkt að það heldur áfram að slá þegar frásögninni lýkur. Í annarri sögu tekst sjálfinu að jafna sig á vonbrigðum en sögunni lýkur þegar í ljós kemur að vonbrigðin höfðu verið tilefnislaus. Það skiptir ekki máli hvað gerðist: „Að er alltaf mikilvægara en af því að.“ Aftur og aftur hverfa sjálfsöruggar aðalpersónur í skuggann þegar sviðið fyllist birtu frá hversdagsenglum sem sópa gólf, búa um rúm og skilja tungur manna og dýra. Næmi sem jaðrar við viðkvæmni gagnvart raunveruleika og draumum er lýst með orðum fullum af hreyfingu, lit og blíðu. Meira að segja okkur, fiðraða lesendurna, umvefur Susanne Ringell vingjarnlegri alúð sinni. Ákafinn er mikill en alltaf í bland við stríðnislega kímni og skynbragð á hið grátbroslega:

Brosandi munnur mánasigðar sem barn teiknar yfir dökkan líkama sofandi fjalladýrsins. Eins og barn teiknar munn mömmu sinnar, brosandi, stóran.

Örlítið skakkt hangir brosið á himninum, eins og hún hafi fengið slag, móðirin, tunglið en samt ekki.

Susanne Ringell er fædd 1955 og á heima í Helsinki. Hún er leikari að mennt en helgar sig alfarið ritstörfum. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Det förlovade barnet kom út 1993. Hún hefur gefið út þrettán bækur og samið leikrit fyrir svið og útvarp. Hún hefur verið tilnefnd og hlotið ýmis verðlaun, meðal annars tungumálaverðlaun Hugo Bergroth, bókmenntaverðlaun Svenska Yle (sænskumælandi ríkisútvarpsins í Finnlandi) og verðlaun Svenska litteratursällskapet (Sænska bókmenntafélagsins).