Verðlaunahafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Solvej Balle
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg, norden.org
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 hlýtur bókin Om udregning af rumfang I, II og III eftir Solvej Balle frá Danmörku.

Rökstuðningur dómnefndar

Aðalpersónan í verki Solvej Balle, Tara Selter, hefur stigið óviljug frá borði tímans í hinu mikilfenglega prósaverki Om udregning af rumfang („Um útreikning rúmmáls“, hefur ekki komið út á íslensku). Í veruleika hennar endurtekur 18. nóvember sig aftur og aftur. Allt í einu upplifir hún ekki lengur dagaskil, mánaðamót eða árstíðaskipti. Fólkið í kringum hana eldist ekki og á vitanlega erfitt með að botna í hinum nýja og furðulega reynsluheimi Töru. Þessi reynslugjá reynist gjöfull jarðvegur fyrir miklar bókmenntir, því að hún getur af sér grundvallarspurningar um þau áhrif sem einstaklingsupplifun okkar af tíma og rúmi hefur á tilveru okkar og sambönd.

 

Nú eru útkomin þrjú af alls sjö fyrirhuguðum bindum um dvöl Töru fyrir utan gang tímans. Þessi þrjú fyrstu bindi mynda þegar samhangandi heild sem hver nýr hluti eykur við á nýja og ófyrirséða vegu, og ögrar um leið hugmyndum okkar um listaverkið sem snyrtilega og afmarkaða einingu. Þannig lætur Solvej Balle lesandann endurupplifa tímann, ekki síst samtímann, og þau sjónarmið sem etja kappi innan hans varðandi viðfangsefni á borð við hagvöxt, aktívisma og kyn. Gegnum verkið skynjum við að samtími okkar er eitthvað sem við eigum sameiginlegt, þó að við lifum kannski stundum hvert í sinni „loftbólu“.

 

Verðlaunin eru veitt fyrir þrjú fyrstu bindin í alls sjö fyrirhuguðum bindum um dvöl Töru Selter fyrir utan gang tímans. Fyrstu bindin þrjú mynda strax þétt samhangandi heild sem hvert bindi eykur við á nýja og ófyrirséða vegu. Með Om udregning af rumfang hefur Solvej Balle skrifað meistaraverk til tímans. Með verkinu stígur Solvej Balle aftur fram á sjónarsviðið svo að um munar, ekki bara á svið danskra eða norrænna fagurbókmennta, heldur einnig evrópskra.

 

Solvej Balle: Om udregning af rumfang I, II og III, Pelagraf 2020–2021.