Gyða Valtýsdóttir

Gyða Valtýsdóttir
Photographer
Lilja Birgisdottir
Gyða Valtýsdóttir er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Gyða Valtýsdóttir steig fyrst fram á sjónarsviðið upp úr síðustu aldamótum með hinni rómuðu tilraunakenndu rafsveit múm. Árið 2017 gaf Gyða út plötuna Epicycle, sem inniheldur verk tónskálda á borð við Schubert, Schumann og Messiaen, en einnig tilraunakenndari höfunda eins og Harry Partch og George Crumb. Þar fór Gyða að innsta kjarna tónlistarinnar; sveigði hana og beygði líkt og af eðlisávísun að sinni eigin einstöku túlkun. Árið 2018 sendi hún frá sér plötuna Evolution, sem ber nafn með rentu og er glæsilegt verk, byggt á reynslu hennar á sviði sígildrar tónlistar en einnig er tilraunakenndum og nútímalegum þráðum vafið inn í heildarmyndina. Strengir þyrlast, raftónar suða mjúklega, raddir hljóma - og þagna aftur - af miklum þokka. Þetta er sterkbyggð en jafnframt fáguð plata, í senn viðkvæm og kraftmikil. Mikill skriður er á ferli Gyðu þessi misserin. Fyrsta plata hennar með kvikmyndatónlist (við myndina Undir halastjörnu) kom út á síðasta ári og einnig hefur hún hlotið mikið lof fyrir flutning sinn á tónleikum, þar sem einkennandi söngur, frumlegur hljóðfæraleikur og miklir persónutöfrar hafa undirstrikað virðulegt handbragð.