Kirste Paltto og Laila Labba (myndskr.)

Kirste Palto og Laila Labba
Photographer
Kimmo Pallari og June Bjørnback
Kirste Paltto og Laila Labba (myndskr.): Jođašeaddji Násti. Unglingabók, Davvi Girji, 2019. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Jođašeaddji Násti („Rísandi stjarna“, hefur ekki komið út á íslensku) er norðursamísk barna- og unglingabók eftir Kirste Paltto. Jođašeaddji Násti er framhald bókarinnar Luohtojávrri oainnáhusat, sem var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Hugsaðu þér barn sem horfir á stjörnurnar og tunglið. Það sér að tunglið er með augu og munn. Hvað er úti í geimnum og hvernig er eiginlega umhorfs á tunglinu? Í þessu verki tekst höfundinum að líkja eftir því aðdráttarafli sem geimurinn hefur fyrir börn og örva um leið forvitni barnsins og hæfileika til undrunar á því sem í honum býr. Með dyggri hjálp hinna ráðagóðu Gauri og Várbu kanna jarðarbörnin Ritni og Urbán himingeiminn.

Í bókinni Jođašeaddji Násti hittum við bræðurna Ritni og Urbán aftur fyrir í nýjum og furðulegum ævintýrum, og í þetta sinn er sögusviðið geimurinn. Einn góðan veðurdag eru Ritni og Urbán úti á leikvellinum. Þar finnur Ritni lítinn, blikkandi bolta sem skoppar upp og niður. Hvað var nú þetta? Næsta dag fara strákarnir aftur á leikvöllinn að leita að boltanum. Út úr grænum boltanum opnast laufblað og grænklæddur strákur kemur hlaupandi á móti þeim. Hann heitir Gauri. Hann segir þeim að boltinn sé fararskjóti þeirra Várbu, og auk þess stjarna hugsana, drauma og vonar. Sá grænklæddi spyr Ritni og Urbán hvort þeir vilji koma með um borð í hina rísandi stjörnu. Bræðurnir stinga upp á að fara til tunglsins og þannig hefst ferðalag þeirra til móts við alheiminn. Á ferðalaginu hitta krakkarnir tröll með fjögur höfuð og mánaeðlu. Tröllið hefur glatað börnunum sínum. Þess vegna langar það að taka Ritni og Urbán að sér. Hvað verður um bræðurna þegar tröllið stingur upp á keppni? Hvað er eiginlega mánaeðla, og hvað gerist ef maður horfir óvart í augun á henni? Þetta ljær frásögninni spennu og furðu.

Tröllið með höfuðin fjögur minnir á tröllið sem við þekkjum úr samískum sögnum. Í þetta sinn fylgja tröllinu þó stærri og annars konar áskoranir en fyrr. Það hefur nefnilega misst heimili sitt og er einmana. Tröllið segir frá börnunum sínum, sem svífa heimilislaus um geiminn því að gervitungl eyðilagði heimili þeirra. Þannig færir Paltto tröllið inn í nútímann og tengir það fyrirbærum sem snerta alla heimsbyggðina. Börnin þurfa að leysa úr hinum ýmsu áskorunum með klókindum, hugvitssemi og góðri samskiptahæfni.

Í textanum er lögð áhersla á sjálfstæði sem grundvallargildi. Börnin þurfa að komast klakklaust frá því að hitta tröllið og fleiri persónur, en með góðum ráðum Gauri og Várbu komast þau að lokum gegnum ferðalagið.

Myndskreytingar Laila Labba færa okkur inn í spennandi heim með því að sýna börnin á baki mánaeðlunnar og dansandi stúlkur sem lýsa eins og stjörnur. Einnig draga myndirnar fram mismunandi svipbrigði tröllsins með ýmiss konar grænum litbrigðum.

Textinn hæfir vel börnum á aldrinum 8 til 13 ára, bæði hvað varðar innihald, málfar og byggingu. Málbeiting höfundar er falleg, ljóðræn og litrík.