Marjun Syderbø Kjelnæs

Marjun Syderbø Kjelnæs
Photographer
Finnur Justinussen
Marjun Syderbø Kjelnæs: Sum rótskot. Unglingabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Ung stúlka að nafni Fríða er sögumaður þessarar bókar um fjóra vini, sem ná saman í baráttunni um að bjarga heiminum frá yfirvofandi loftslagsbreytingum. Fríða er ung og hraust, en þó varfærin og innhverf og heldur sig til hlés eftir fremsta megni. Dag einn í menntaskólanum hittir hún aftur æskuvinkonu sína Miriam, sem flutti til Danmerkur mörgum árum áður, og þá fer ýmislegt að breytast. Miriam þjáist af slímseigjusjúkdómi en er þó félagslynd og áræðin, og saman hefjast vinkonurnar tvær handa við að leggja á ráðin um að sannfæra umheiminn – og ekki síst foreldra sína – um að tímabært sé að líta loftslagsbreytingarnar alvarlegum augum. Ásamt vinum sínum Pax og Steffan, sem einnig er bróðir Miriam, leggja þær á ráðin um aðgerðir. Miriam heldur dagbók, sem gegnir mikilvægu hlutverki þegar Miriam er lögð inn á spítala og biður Fríðu fyrir dagbókina. Dagbókin opnar Fríðu og lesandanum leið inn í hugarheim og tilfinningalíf Miriam. Höfundur nýtir dagbókina til að skipta um tíma, stað og sjónarhorn í frásögninni svo að lesandinn nær smám saman að setja sig inn í sögu hvers og eins af vinunum fjórum, og einnig til að koma boðskap bókarinnar til skila með ræðu, innblásinni af Gretu Thunberg, sem Miriam skrifaði fyrir loftslagsverkfall en náði aldrei að flytja.

Bókin skrifar sig inn í vistfræðilega strauma í bókmenntum okkar tíma með viðfangsefni sem er í hæsta máta aðkallandi. Hér er þó annað og meira á ferðinni en loftslagsskáldskapur. Þetta er líka, og kannski enn frekar, saga af því sem leitar á huga fólks – bæði þess yngra og eldra – í dag. Þetta er bók um ungt fólk sem vafrar um í flóknum heimi og um fyrirbæri á borð við loftslagsbreytingar, skjánotkun, áfengisvanda og sorg, auk stórra og flókinna viðfangsefna sem tengjast sjálfsmynd, kynhneigð, vísindum og trúarbrögðum.

Allt þetta hittir lesandinn fyrir í texta Marjun Syderbø Kjelnæs, sem er aðgengilegur, dálítið stríðnislegur og hlýr. Bókin inniheldur ýmis textatengsl og vísanir í bókmenntalega, fræðilega og trúarlega texta. Þannig verður þessi stutta og fljótlesna bók yfirgripsmeiri en ella og veitir fyrirheit um að opna á nýjar merkingar við hvern lestur. Titillinn Sum rótskot („Eins og rótarskot“, hefur ekki komið út á íslensku) vísar í Biblíuna, til texta Jesaja spámanns um að frelsari heimsins muni koma eins og rótarskot úr þurrum jarðvegi. Með öðrum orðum ættum við ekki að búast við því að fólkið sem við berum mestar væntingar til muni bjarga heiminum. Ungmennin fjögur leggja sitt af mörkum. Þau taka málin í eigin hendur. Athafnir þeirra hafa þó afleiðingar sem setja þau í klemmu: Hve langt eru þau reiðubúin að ganga til að færa ástand heimsins til betri vegar?

Marjun Syderbø Kjelnæs (f. 1974) er færeyskur rithöfundur, ljóðskáld og leikskáld. Síðan frumraun hennar kom út árið 2000 hefur hún skrifað fyrir fullorðna, börn og ungmenni. Unglingabókin Skriva í sandin (2010) hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2011, verðlaunin The White Raven árið 2011 og var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013. Marjun Syderbø Kjelnæs hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga og verk hennar hafa verið þýdd á ýmis norræn tungumál auk ensku, frönsku og þýsku.