Tigrar – Svíþjóð

Tigrar, 2021, Filmprize
Photographer
TriArt Film
Sænska kvikmyndin „Tigrar“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Martin er einn efnilegasti fótboltamaður Svía frá upphafi. Þegar hann er sextán ára rætist draumurinn: hann er keyptur af einu virtasta fótboltaliði á Ítalíu. Þann draum þarf hann þó að greiða dýru verði – færa miklar fórnir, helga sig starfinu, þola mikið álag og fyrst og fremst mikla einsemd. Martin fer að efast um hvort þetta sé í raun það líf sem hann þráði. Með einstakri sýn á veröld atvinnumennsku í íþróttum segir Ronnie Sandahl sanna sögu af hinni 16 ára fótboltastjörnu Martin Bengtsson. Tigrar (Tigers) er þroskasaga um brennandi þráhyggju ungs manns í heimi þar sem verðmiði er á öllu – og öllum.

Rökstuðningur

Ronnie Sandahl lýsir fantavel hinum ljótari hliðum íþróttarinnar; heimi þar sem ungt hæfileikafólk er smættað niður í líkama sinn, keppnisskap og síðustu frammistöðu á vellinum. Mynd- og hljóðvinnsla fangar þau smáatriði sem gera frásögnina margbrotnari og miðlar innri jafnt sem ytri ringulreið – og skapar fágætan trúverðugleika kringum þá taug sem tengir leikmenn á fótboltavelli saman og hina rafmögnuðu stemningu á leikvanginum. Erik Enge ber myndina uppi og fyllir sérhvern ramma sem hann sést í með næmum leik sínum og lágstemmdum en blæbrigðaríkum tilþrifum í líkamstjáningu og svipbrigðum. Hér er á ferð óvenju vel heppnuð blanda af góðri leikstjórn og miklum leikhæfileikum.

Handritshöfundur/leikstjóri – Ronnie Sandahl

Ronnie Sandahl (1984) er handritshöfundur og leikstjóri með fjölmiðlabakgrunn.

Síðan hann gerði fyrstu mynd sína Svenskjävel (2015), sem vann til verðlauna á kvikmyndahátíðunum í Zürich og Chicago, hefur Sandahl unnið að þríleik um íþróttir og sálfræði: auk Tigrar skrifaði hann handritið að Borg/McEnroe (2017), sem hlaut áhorfendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Róm, og Perfect, væntanlegri kvikmynd um fimleika í leikstjórn Oliviu Wilde. Tigrar hlaut verðlaun sem besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í S-Kóreu, verðlaun ungmennadómnefndar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck og Dragon-verðlaunin fyrir bestu norrænu myndina á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2021.

Framleiðandi – Piodor Gustafsson

Piodor Gustafsson (1962) hefur yfir 30 ára reynslu í kvikmyndum, sjónvarpi og auglýsingum. Síðan í september 2020 hefur hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra handrita hjá TV4 Media. Gustafsson hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Black Spark Film & TV, ritstjóri og yfirmaður dagskrárgerðar hjá SVT og ráðgjafi hjá sænsku kvikmyndastofnuninni. Hann var líka einn af stofnendum teiknimyndafyrirtækisins Happy Life og var framkvæmdastjóri og framleiðandi þar í nærri áratug.

Þar á meðal eru The Wife (2017) eftir Björn Runge, sem Glenn Close hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir, Gräns eftir Ali Abbasi, sem hlaut Un Certain Regard-verðlaunin á Cannes 2018, og sjónvarpsþáttaraðirnar Sthlm Rekviem, Dirigenten og Allt sem ég man ekki. Hann er meðframleiðandi íslensku kvikmyndarinnar Dýrið, sem skartar Noomi Rapace í aðalhlutverki og var valin til sýningar í flokknum Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2021.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Tigrar

Titill á ensku: Tigers

Leikstjóri: Ronnie Sandahl

Handritshöfundur: Ronnie Sandahl

Aðalhlutverk: Erik Enge, Alfred Enoch, Frida Gustavsson, Maurizio Lombardi, Liv Mjönes, Johannes Bah Kuhnke

Framleiðendur: Piodor Gustafsson

Framleiðslufyrirtæki: Spark Film & TV

Lengd: 116 mínútur

Dreifing í heimalandi: TriArt

Alþjóðleg dreifing: Wild Bunch