Tigrar – Svíþjóð
Martin er einn efnilegasti fótboltamaður Svía frá upphafi. Þegar hann er sextán ára rætist draumurinn: hann er keyptur af einu virtasta fótboltaliði á Ítalíu. Þann draum þarf hann þó að greiða dýru verði – færa miklar fórnir, helga sig starfinu, þola mikið álag og fyrst og fremst mikla einsemd. Martin fer að efast um hvort þetta sé í raun það líf sem hann þráði. Með einstakri sýn á veröld atvinnumennsku í íþróttum segir Ronnie Sandahl sanna sögu af hinni 16 ára fótboltastjörnu Martin Bengtsson. Tigrar (Tigers) er þroskasaga um brennandi þráhyggju ungs manns í heimi þar sem verðmiði er á öllu – og öllum.
Rökstuðningur
Ronnie Sandahl lýsir fantavel hinum ljótari hliðum íþróttarinnar; heimi þar sem ungt hæfileikafólk er smættað niður í líkama sinn, keppnisskap og síðustu frammistöðu á vellinum. Mynd- og hljóðvinnsla fangar þau smáatriði sem gera frásögnina margbrotnari og miðlar innri jafnt sem ytri ringulreið – og skapar fágætan trúverðugleika kringum þá taug sem tengir leikmenn á fótboltavelli saman og hina rafmögnuðu stemningu á leikvanginum. Erik Enge ber myndina uppi og fyllir sérhvern ramma sem hann sést í með næmum leik sínum og lágstemmdum en blæbrigðaríkum tilþrifum í líkamstjáningu og svipbrigðum. Hér er á ferð óvenju vel heppnuð blanda af góðri leikstjórn og miklum leikhæfileikum.
Handritshöfundur/leikstjóri – Ronnie Sandahl
Ronnie Sandahl (1984) er handritshöfundur og leikstjóri með fjölmiðlabakgrunn.
Síðan hann gerði fyrstu mynd sína Svenskjävel (2015), sem vann til verðlauna á kvikmyndahátíðunum í Zürich og Chicago, hefur Sandahl unnið að þríleik um íþróttir og sálfræði: auk Tigrar skrifaði hann handritið að Borg/McEnroe (2017), sem hlaut áhorfendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Róm, og Perfect, væntanlegri kvikmynd um fimleika í leikstjórn Oliviu Wilde. Tigrar hlaut verðlaun sem besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í S-Kóreu, verðlaun ungmennadómnefndar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck og Dragon-verðlaunin fyrir bestu norrænu myndina á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2021.
Framleiðandi – Piodor Gustafsson
Piodor Gustafsson (1962) hefur yfir 30 ára reynslu í kvikmyndum, sjónvarpi og auglýsingum. Síðan í september 2020 hefur hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra handrita hjá TV4 Media. Gustafsson hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Black Spark Film & TV, ritstjóri og yfirmaður dagskrárgerðar hjá SVT og ráðgjafi hjá sænsku kvikmyndastofnuninni. Hann var líka einn af stofnendum teiknimyndafyrirtækisins Happy Life og var framkvæmdastjóri og framleiðandi þar í nærri áratug.
Þar á meðal eru The Wife (2017) eftir Björn Runge, sem Glenn Close hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir, Gräns eftir Ali Abbasi, sem hlaut Un Certain Regard-verðlaunin á Cannes 2018, og sjónvarpsþáttaraðirnar Sthlm Rekviem, Dirigenten og Allt sem ég man ekki. Hann er meðframleiðandi íslensku kvikmyndarinnar Dýrið, sem skartar Noomi Rapace í aðalhlutverki og var valin til sýningar í flokknum Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2021.
Upplýsingar um myndina
Titill á frummáli: Tigrar
Titill á ensku: Tigers
Leikstjóri: Ronnie Sandahl
Handritshöfundur: Ronnie Sandahl
Aðalhlutverk: Erik Enge, Alfred Enoch, Frida Gustavsson, Maurizio Lombardi, Liv Mjönes, Johannes Bah Kuhnke
Framleiðendur: Piodor Gustafsson
Framleiðslufyrirtæki: Spark Film & TV
Lengd: 116 mínútur
Dreifing í heimalandi: TriArt
Alþjóðleg dreifing: Wild Bunch