Norræni vegabréfaskoðunarsamningurinn

20.06.19 | Samningar
Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna, gerður 12. júlí 1957, sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965, með breytingum frá 27. júlí 1979 og viðaukum frá 2. apríl 1973 og 18. september 2000. Samningurinn tekur einnig til Færeyja frá 1. janúar 1961.

Upplýsingar

Signing of agreement
18.09.2000
Effective date for the agreement
22.04.2001
Signing countries
Danmörk
Finnland
Ísland
Svíþjóð
Noregur

Fyrirvari

Athugaðu að þessi texti er ekki opinber útgáfa. Ekki ber að nota textann í lagalegum tilgangi. Norræna ráðherranefndin tekur ekki ábyrgð á villum sem kunna að koma fyrir í textanum.

___________________

 

Inngangur að samningnum 12. júlí 1957

Aðildarríkin,

 

sem álíta að það sé æskilegt að auðvelda ferðalög milli Norðurlandanna,

 

sem áður hafa algerlega afnumið vegabréfaskyldu fyrir ríkisborgara Norðurlandanna,

 

sem eru sammála um að leyfa útlendingum að ferðast beint frá einu landi til annars innan Norðurlandanna á landamærastöð, sem er viðurkennd til ferða inn í landið og til útlanda, án þess að vera háðir vegabréfaskoðun, og

 

sem vilja í meginatriðum stefna að því að samræma kröfur um vegabréfsáritun og vilja leitast við að koma á samræmdum venjum að því er snertir veitingu vegabréfaáritana fyrir verslunarferðir, námsferðir, skemmtiferðir og aðrar ferðir, sem taka álíka skamman tíma, hafa orðið sammála um eftirfarandi:

Inngangur að samningnum 2. apríl 1973

Samningaríkin hafa orðið sammála um eftirfarandi viðauka við samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaeftirlits við landamæri milli Norðurlandanna (hér á eftir nefnt vegabréfaeftirlitssamningurinn), sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965.

Inngangur að samningnum 27. júlí 1979

Ríkisstjórnir aðildarríkjanna hafa orðið sammála um eftirfarandi breytingar á samkomulaginu frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna.

Inngangur að samningnum 18. september 2000

Samningsríkin,

 

sem með samkomulagi frá 12. júlí 1957 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hafa afnumið vegabréfaskoðun við samnorrænu landamærin (hér á eftir nefnt vegabréfaskoðunarsamningurinn), sem Ísland gerðist aðili að 24. september 1965, og sem breytt var með samkomulagi frá 27. júlí 1979 og samkomulagi frá 2. apríl 1973 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um viðauka við vegabréfaskoðunarsamninginn frá 12. júlí 1957,

 

sem samkvæmt bókun um samþættingu Schengen-gerðanna innan Evrópusambandsins við Amsterdam-sáttmálann, sem undirrituð var 2. október 1997, eiga að taka upp nánara samstarf innan ramma Evrópusambandsins eða sem 18. maí 1999 undirrituðu samning um þátttöku í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna við Evrópusambandið,

 

sem telja að þörf sé á að kveða nánar á um beitingu einstakra ákvæða í vegabréfaskoðunarsamningnum með hliðsjón af þátttöku Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu, hafa orðið sammála um eftirfarandi viðauka við vegabréfaskoðunarsamninginn:

1. gr.

Í þessum samningi er með orðinu útlendingur átt við hvern þann, sem er ekki ríkisborgari í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

 

Með orðunum norræn ríki eða Norðurlöndin er í þessum samningi átt við Danmörku (að Grænlandi og Færeyjum undanteknum), Finnland, Noreg (að Svalbarða og Jan Mayen undanteknum) og Svíþjóð.

 

Með orðunum norræn útmörk er í þessum samningi átt við:

a) landamæri milli norræns ríkis og ríkis utan Norðurlandanna,

 

b) flugvöll í norrænu ríki, sem hefur reglulegar flugsamgöngur við ríki utan Norðurlandanna,

 

c) höfn í norrænu ríki, sem hefur reglulegar skipa- eða ferjusamgöngur við ríki utan Norðurlandanna,

 

d) höfn eða flugvöll í norrænu ríki, sem skip og flugvélar frá ríki utan Norðurlandanna koma óreglulega til, eða þaðan sem skip eða flugvélar fara til ríkis utan Norðurlandanna.

2. gr.

Sérhvert aðildarríkjanna á að framkvæma vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma inn í landið við norræn útmörk þess. Aðildarríki ákveður að hvaða marki vegabréfaskoðun skuli framkvæmd hjá þeim sem fara út úr landinu við norræn útmörk þess.

 

Sérhvert aðildarríkjanna á að nota skráningarspjöld (komuspjöld) sem hjálpargögn við komueftirlit með:

a) útlendingum með vegabréf sem eru áritunarskyld í einhverju aðildarríkjanna, ef þetta aðildarríki krefst skráningarspjalda,

 

b) útlendingum sem aðildarríki hefur í sambandi við ákvörðun um brottvísun úr landi tilkynnt bann við endurkomu til þess ríkis án sérstaks leyfis.

 

___

1 Nýr texti 1979.

3. gr.

Það ríki sem komið er til skal geyma komuspjaldið. Hafi útlendingurinn fengið vegabréfsáritun til annars norræns ríkis, skal senda því ríki afrit af spjaldinu.

 

___

1 Nýr texti 1979

4. gr.

Vilji eitthvert aðildarríkjanna afnema eða koma á áritunarskyldu á vegabréf gagnvart ríki utan Norðurlandanna eða gera aðrar verulegar breytingar á samkomulagi sínu um áritanir við ríki utan Norðurlandanna, skal hið fyrrnefnda ríki fyrirfram tilkynna aðildarríkjunum um hinar fyrirhuguðu ráðstafanir, svo framarlega sem ekki eru brýnar ástæður fyrir hendi, sem gera það nauðsynlegt að framkvæma þessar ráðstafanir strax. Ef svo stendur á, skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um framkvæmd þessara ráðstafana eins fljótt og auðið er, þegar þeim er lokið.

 

Það, sem sagt er í 1. málsgrein, á einnig við um setningu annarra almennra ákvæða um komu og brottför útlendinga og dvöl í hlutaðeigandi ríki.

5. gr.

Sérhvert aðildarríkjanna skal krefjast þess, að útlendingur, sem ber vegabréf, sem ekki er áritunarskylt, og óskar að dveljast í hlutaðeigandi ríki lengur en 3 mánuði, eftir að hann er kominn inn í norrænt ríki frá ríki utan Norðurlandanna, skuli sækja um dvalarleyfi í því norræna ríki, sem hann dvelst í, þegar þriggja mánaða tímabilið rennur út.

 

Hafi útlendingur fengið dvalarleyfi í norrænu ríki, gildir leyfið aðeins fyrir dvöl í því ríki. Innan þess tímabils, sem dvalarleyfið gildir fyrir, skulu hin aðildarríkin, þar sem útlendingurinn er ekki skyldur til að útvega sér áritun á vegabréf sitt, leyfa honum að dvelja í landinu í 3 mánuði án dvalarleyfis. Þetta á ekki við, ef útlendingurinn ætlar að dvelja í ríkinu lengri tíma en þessa 3 mánuði eða hyggst leita eftir atvinnu eða taka við starfi eða reka sjálfstæðan atvinnurekstur þar, svo framarlega sem þess er krafist samkvæmt löggjöf hlutaðeigandi ríkis að sækja skuli um dvalarleyfi fyrr en við lok þriggja mánaða tímabilsins.

 

Þegar beitt er ákvæðum í 1. málsgrein, skal telja það tímabil, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, frá og með komudegi, þó skal, ef útlendingurinn hefur, áður en hann kom síðast inn í landið, dvalist í norrænu ríki, draga frá því tímabili, sem hann má dvelja þar án dvalarleyfis, það tímabil, sem útlendingurinn hefur dvalist í norrænu ríki á síðustu 6 mánuðum, áður en hann síðast kom til landsins.

 

Þegar beitt er ákvæðum í 2. málsgrein, skal telja það tímabil, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, frá og með komudegi í hlutaðeigandi ríki, þó skal, ef útlendingurinn hefur, áður en hann síðast kom til landsins, dvalist áður í þessu landi, draga frá því tímabili, sem hann má dvelja þar án dvalarleyfis, það tímabil, sem útlendingurinn hefur dvalist í þessu landi á síðustu 6 mánuðum, áður en hann síðast kom til landsins.

6. gr.

Aðildarríkin eiga að vísa burt við hin norrænu útmörk sín sérhverjum útlending,

a) sem ekki hefur í höndum gilt vegabréf eða annað ferðaskírteini, sem hlutaðeigandi yfirvöld í aðildarríkjunum geta viðurkennt, sem gilt vegabréf,

 

b) sem hvorki hefur nauðsynlegt leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki eða vinna þar, né slík leyfi í hinu eða hinum norrænu ríkjunum, sem útlendingurinn ætlar að ferðast til,

 

c) sem álíta verður, að hvorki hafi nauðsynlegt fé til að dvelja í þessu ríki né þeim öðrum aðildarríkjanna, þar sem hann ætlar að dveljast, ásamt fé til heimferðarinnar,

 

d) sem álíta verður, að ekki muni vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt,

 

e) sem áður hefur verið dæmdur til fangelsisvistar, og gera má ráð fyrir að muni fremja hegningarverðan verknað í norrænu ríki, eða sem vegna fyrri athafna sinna eða af öðrum ástæðum má búast við að muni fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða óleyfilegt fréttastarf í einhverju aðildarríkjanna,

 

f) sem í einhverju aðildarríkjanna er færður á skrá yfir útlendinga, sem vísað hefur verið úr landi.

 

Að öðru leyti er hægt að hafna hvaða útlendingi sem er, þegar af öðrum ástæðum á ekki að veita honum leyfi til að koma inn í eitt eða fleiri af aðildarríkjunum.

 

Ákvæðin í bókstafsliðunum b) – f) eiga ekki við um útlending, sem ætlar að ferðast til eins af aðildarríkjunum, sem hann hefur leyfi til að ferðast til, eða þar sem hann hefur dvalarleyfi, sem gefur honum heimild til að koma inn í það land.

7. gr.

Ákvæði 2. og 6. gr. eiga ekki við um útlendinga sem koma frá ríki utan Norðurlanda sem einn af áhöfn skips. Þó skal útlendingur sem kemur frá ríki utan Norðurlanda sem einn af áhöfn skips og er afskráður í norrænu ríki sæta komueftirliti samkvæmt ákvæðum 2. og 6. gr.

 

Hvert um sig af aðildarríkjunum á rétt á því að ákveða, að maður af áhöfn skips megi án sérstaks leyfis dvelja í landi, meðan skipið dvelur í höfn vanalegan tíma.

 

Ákvæði þessarar greinar eiga á sama hátt við um fólk, sem tilheyrir útlendri áhöfn flugvélar.

 

___

1 Nýr texti í 1. málsgrein 1979

8. gr.

Aðildarríki skal heimilt að framkvæma úrtaksskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis. Aðildarríki getur auk þess einnig framkvæmt vegabréfaskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis, þegar það er talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir veruleg brögð að því að menn fari með ólöglegum hætti inn í ríkið vegna mismunar á áritunarskyldu aðildarríkjanna. Ákvörðun um þess háttar eftirlit má hverju sinni gilda í sex mánuði hið lengsta.

 

Framkvæmi aðildarríki vegabréfaskoðun samkvæmt 1. málsgr. má gera útlendingi það skylt að sýna vegabréf sitt og láta í té þær upplýsingar sem óskað er eftir.

 

Nú tekur aðildarríki ákvörðun um að framkvæma vegabréfaskoðun við landamæri sín og annars norræns ríkis samkvæmt 2. og 3. málslið 1. málsgr. og fellur þá niður skylda hins norræna ríkissins samkvæmt 10. gr. til að taka aftur við þeim, sem hafa komið inn í landið á slíku tímabili.

 

Sérhvert aðildarríkjanna getur við landamæri sín og annars aðildarríkis vísað frá sérhverjum útlendingi sem ekki hefur leyfi til að fara inn í hlutaðeigandi ríki.

 

___

1 Nýr texti 1979

9. gr.

Aðildarríki má ekki leyfa útlendingi, sem annað aðildarríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis. Slíks leyfis er þó ekki krafist, ef aðildarríkið vill senda útlending, sem það hefur vísað úr landi, gegnum yfirráðasvæði annars aðildarríkis.

 

Hafi útlendingur, sem vísað hefur verið úr landi í einu Norðurlandanna, dvalarleyfi í einhverju af hinum Norðurlöndunum, er síðarnefnda landið skyldugt til að taka við útlendingnum, ef þess er óskað.

10. gr.

Sérhvert aðildarríkjanna skuldbindur sig til að taka aftur við útlendingi, sem í samræmi við 6. grein, bókstafsliðina a) og b), að því er snertir leyfi til að koma inn í landið, eða samkvæmt bókstafslið f) hefði átt að vera hafnað af hlutaðeigandi ríki við útmörk þess, og sem án leyfis hefur ferðast frá þessu ríki til annars norræns ríkis.

 

Sömuleiðis skuldbindur sérhvert aðildarríkjanna sig til þess að taka aftur við útlendingi, sem án fullgilds vegabréfs og án sérstaks leyfis, þar sem þess er krafist, hefur ferðast beint frá hlutaðeigandi ríki til annars norræns ríkis.

 

Reglur þær sem gefnar eru í 1. og 2. málsgr. eiga ekki við um útlending, sem dvalist hefur í því ríki, sem krefst endursendingar, í að minnsta kosti 6 mánuði talið frá þeim tíma, þegar hann með ólöglegum hætti kom inn í ríkið, eða sem eftir að hafa komið með ólöglegum hætti inn í ríkið, hefur fengið dvalar- og eða atvinnuleyfi þar. Skylda til að taka aftur við manni er háð því skilyrði, að tilmæli þar um hafið verið borin fram innan eins mánaðar eftir að yfirvöldum varð kunnugt um dvöl útlendingsins í ríkinu.

 

___

1 Nýr texti í 3. málsgrein 1979

11. gr.

(Greinin fellur brott, skv. viðauka 2000)

12. gr.

Það, sem í þessum samningi er tilgreint um útlendinga, sem vísað hefur verið úr landi, á einnig við um útlendinga, sem samkvæmt finnskum eða sænskum lögum „förvisats“ eða „förpassats“ og hefur verið bannað að koma aftur án sérstaks leyfis.

13. gr.

Í þeim tilgangi að samræma eftirlitið með útlendingum í aðildarríkjunum og að öðru leyti bera fram og ræða atriði, sem snerta hið sameiginlega vegabréfaeftirlitssvæði á Norðurlöndunum, skal skipa samvinnunefnd (Det nordiske udlændingsudvalg). Í nefndinni skal eiga sæti einn fulltrúi fyrir hvert aðildarríkjanna. Fulltrúarnir geta kvatt sérfróða menn sér til aðstoðar, ef nauðsyn krefur.

14. gr.

Að undangengnum samningum getur ríkisstjórn Íslands gerst aðili að þessum samningi. Að undangegnum samningum má einnig bæta því ákvæði við þennan samning, að hann nái til Færeyja og Grænlands.

Samkomulag milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar dagsett 2. apríl 1973 um viðauka við samkomulag sömu ríkja frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaeftirlits við landamæri milli Norðurlandanna, gert 2. apríl 1973.

1. gr.

Að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum, sem 1. júlí 1973 hvíla á samningsríki gagnvart ríki, sem ekki er aðili að samningnum, getur samningsríkið gert eftirfarandi frávik frá vegabréfaeftirlitssamningnum:

a) Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 5. gr. getur samningsríki fallið frá kröfu um dvalarleyfi fyrir sérstaka flokka vinnuþega.

 

b) Þrátt fyrir ákvæði 3. málsgr. 5. gr. getur samningsríki við útreikning á því tímabili, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, látið hjá líða að draga frá tíma vegna fyrri dvalar í samningsríki.

 

c) Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. getur samningsríki látið hjá líða að vísa útlendingi frá, enda mundi ákvörðun um frávísun hans ekki reist á tilliti til allsherjarreglu, öryggis eða heilbrigðis í  því samningsríki.

 

Nú hefur ríki samkvæmt undanþáguákvæði þessu látið hjá líða að vísa útlendingi frá, og er það þá samt, með þeirri takmörkun, sem greinir í 3. málsgr. 10. gr., skuldbundið til að taka aftur við útlendingnum, ef hann er kominn inn í annað samningsríki. Sama gildir, ef samningsríki til að fullnægja skuldbindingum sínum gagnvart ríki, sem ekki er aðili að samningnum, hefur ekki vísað frá útlendingi, sem síðar er kominn inn í annað samningsríki án þess að hafa tilskilið vinnuleyfi þar.

 

d) Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 9. gr. getur samningsríki leyft útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma inn í landið án sérstaks leyfis, ef láta má hjá líða að vísa honum frá samkvæmt ákvæðum í staflið c).

2. gr.

Nú er á sviði samstarfs samningsríkis við ríki, sem ekki er aðili að samningnum, lögð fram tillaga um ákvæði, sem ekki samrýmast vegabréfaeftirlitssamningnum og samkomulagi þessu, og skulu þá, eftir að hinum samningsríkjunum hefur samkvæmt 2. málsgr. 4. gr. vegabréfaeftirlitssamningsins verið tilkynnt um tillöguna, eftir kröfu samningsríkis, fara fram viðræður milli samningsríkjanna. Viðræðurnar skulu fara fram áður en ákvörðun er tekin um tillöguna, nema brýnar ástæður geri það nauðsynlegt að taka slíka ákvörðun strax. Í síðast nefndu tilviki skulu viðræður fara fram svo fljótt sem unnt er eftir að ákvörðun er tekin.

 

Í viðræðunum skulu samningsríkin leitast við að skýra, hver áhrif hin nýju ákvæði muni hafa á hið norræna samstarf um vegabréfaeftrilit, og íhuga, hverjar breytingar muni þurfa að gera á vegabréfaeftirlitssamningnum eða á samkomulagi þessu.

Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um viðauka við norræna vegabréfaskoðunarsamninginn frá 12. júlí 1957 sem breytt var með samkomulagi frá 27. júlí 1979 og með viðaukasamkomulagi frá 2. apríl 1973, gert 18. september 2000.

1. gr.

Við vegabréfaskoðunarsamninginn skulu ennfremur gilda eftirfarandi skilgreiningar:

Skilgreiningar:

Schengen-ríki:

Ríki, sem samkvæmt bókun um samþættingu Schengen-gerðanna innan Evrópusambandsins á að taka upp nánara samstarf innan Evrópusambandsins eða sem gerst hefur aðili að samningnum um Schengen-samstarf, sem undirritaður var 18. maí 1999 við Evrópusambandið, og sem tekur þátt í hinu raunverulega samstarfi innan Schengen.

 

Schengen-ríki sem ekki er norrænt:

Schengen-ríki, annað en Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð.

 

Schengen-upplýsingakerfið (SIS):

Sameiginlega upplýsingakerfið sem komið var á fót samkvæmt samningnum frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985.

 

Útlendingur:

Maður sem hvorki er ríkisborgari í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna né á Íslandi eða í Noregi.

2. gr.

Að því leyti sem það er nauðsynlegt til að fullnægja skuldbindingum sem hvíla á samningsríkjunum samkvæmt Schengen-samningnum gilda eftirfarandi frávik frá vegabréfaskoðunarsamningnum:

a) Ákvæði vegabréfaskoðunarsamningsins um vegabréfaskoðun eiga ekki við, ef norræn útmörk eru landamæri að Schengen-ríki sem ekki er norrænt.

 

b) Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. (3. mgr. í norska textanum) 2. gr. og 3. gr. getur samningsríki látið hjá líða að nota komuspjöld.

 

c) Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur samningsríki leyft útlendingi, sem hefur dvalarleyfi í eða vegabréfsáritun til annars samningsríkis eða Schengen-ríkis sem ekki er norrænt, að ferðast inn á svæði samningsríkisins án sérstaks leyfis í því skyni að halda för áfram til útgáfulandsins.

 

d) Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur samningsríki við útreikning á því tímabili, sem dvalarleyfis er ekki krafist fyrir, talið það sem eitt dvalartímabil, ef hvorki lengd samfelldrar dvalar né heildarlengd fleiri dvalartímabila sem koma hvert á eftir öðru fer fram úr 3 mánuðum á 6 mánaða skeiði, talið frá fyrsta komudegi til samningsríkis eða Schengen-ríkis sem ekki er norrænt.

 

e) Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. má leyfa útlendingi, sem hefur dvalarleyfi í samningsríki eða í Schengen ríki sem ekki er norrænt, innan þess tímabils sem dvalarleyfið gildir, að dvelja á landssvæði hinna samningsríkjanna í allt að 3 mánuði.

 

f) Þrátt fyrir ákvæði f-liðar 1. mgr. 6. gr. getur samningsríki því aðeins vísað burt útlendingi, sem færður er á skrá annars samningsríkis yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi, að útlendingurinn hafi jafnframt verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfinu.

 

g) Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. skal ekki vísa burt samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr.

 

h) Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. getur samningsríki þó vísað burt útlendingi, ef útlendingurinn er færður á skrá samningsríkisins yfir útlendinga sem vísað hefur verið úr landi.

 

i) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. getur samningsríki einungis tímabundið framkvæmt vegabréfaskoðun við innri norræn landamæri, þegar tillit til allsherjarreglu eða þjóðaröryggis krefst þess, sbr. 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins.

 

j) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. getur samningsríki því aðeins meinað útlendingi, sem annað samningsríki hefur vísað úr landi, að koma án sérstaks leyfis, að útlendingurinn hafi verið tilkynntur sem óæskilegur í Schengen-upplýsingakerfinu.

 

k) 11. gr. fellur brott.

 

l) Ákvæði vegabréfaskoðunarsamningsins ber að túlka í samræmi við viðeigandi reglur sem settar hafa verið á grundvelli Schengen-samningsins og frekari þróun þeirra.

3. gr.

Nú er innan ramma þátttöku samningsríkjanna í Schengen-samstarfinu lögð fram tillaga um ákvæði sem ekki samrýmast vegabréfaskoðunarsamningnum, og skulu þá eftir kröfu eins samningsríkis fara fram viðræður milli samningsríkjanna. Viðræður skulu fara fram áður en ákvörðun er tekin um tillöguna, nema brýnar ástæður geri það nauðsynlegt að taka slíka ákvörðun strax. Í síðast nefndu tilviki skulu viðræðurnar fara fram svo fljótt sem unnt er eftir að ákvörðunin er tekin.

 

Í viðræðunum skulu samningsríkin leitast við að skýra hver áhrif hin nýju ákvæði muni hafa á hið norræna samstarf um vegabréfaskoðun og íhuga hverjar breytingar muni þurfa að gera á  vegabréfaskoðunarsamningnum.

Lokaákvörðun um samninginn frá 12. júlí 1957

15. gr.

Samninginn skal fullgilda og koma fullgildingarskjölunum fyrir í Kaupmannahöfn til geymslu.

 

Samningurinn öðlast gildi strax og öllum fullgildingarskjölum hefur verið komið fyrir til geymslu, þó ekki fyrr en 1. janúar 1958.

 

Sérhvert aðildarríkjanna getur sagt samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara.

 

Sérhvert aðildarríkjanna getur fyrirvaralaust fellt samninginn úr gildi, að því er snertir eitt eða fleiri af hinum ríkjunum, þegar stríð kemur eða hætta er á stríði, eða ef sérstakar aðstæður aðrar, annaðhvort í því ríki sjálfu eða erlendis, gera þetta nauðsynlegt. Þegar svo stendur á, skal tafarlaust tilkynna ríkisstjórnum hinna ríkjanna um þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar.

 

Til staðfestingar á ofanrituðu hafa fulltrúar hlutaðeigandi ríkja undirskrifað samninginn og sett innsigli sitt undir.

 

Gert í Kaupmannahöfn 12. júlí 1957 í eintaki á dönsku, finnsku, norsku og sænsku og skal danska utanríkisráðuneytið fá ríkisstjórnum hinna aðildarríkjanna staðfest afrit.

Lokaákvörðun um samninginn frá 2. apríl 1973

Samkomulag þetta skal fullgilda og fullgildingarskjölunum skal komið fyrir til geymslu í Kaupmannahöfn.

 

Samkomulagið öðlast gildi 1. júlí 1973. Það helst í gildi að því er varðar samningsríki á meðan vegabréfaeftirlitssamningurinn er í gildi að því er varðar það ríki.

 

Samkomulagið skal geyma í danska utanríkisráðuneytinu, og staðfest eftirrit af því skal láta ríkisstjórnum hinna samningsríkjanna í té.

 

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar samningsríkjanna undirritað samkomulag þetta.

 

Gjört í Kaupmannahöfn hinn 2. apríl 1973 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku.

Lokaákvörðun um samninginn frá 27. júlí 1979

Samkomulag þetta um breytingu tekur gildi 30 dögum eftir dagsetningu undirritunar.

 

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar aðildarríkjanna undirritað samkomulag þetta.

 

Gert í Kaupmannahöfn hinn 27. júlí 1979 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku og skal danska utanríkisráðuneytið afhenda ríkisstjórnum hinna aðildarríkjanna staðfest afrit.

Lokaákvörðun um samninginn frá 18. september 2000

4. gr.

Samkomulag þetta öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag þegar öll samningsríki hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu um staðfestingu þeirra á samkomulaginu. Samkomulagið getur þó í fyrsta falli öðlast gildi frá þeim degi sem ráð Evrópusambandsins hefur tekið ákvörðun um hina raunverulegu framkvæmd Schengen-samstarfsins á Norðurlöndunum.

 

Danska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsríkjunum um móttöku þessara tilkynninga og um það hvenær samkomulagið öðlast gildi.

5. gr.

Samkomulagið heldur gildi fyrir samningsríki meðan vegabréfaskoðunarsamningurinn er í gildi fyrir viðkomandi ríki.

6. gr.

Samkomulagið skal geyma í danska utanríkisráðuneytinu, og staðfest afrit þess skulu látin ríkisstjórnum hinna samningsríkjanna í té.

 

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar samningsríkjanna undirritað samkomulag þetta.

 

Gjört í Kaupmannahöfn 18. september 2000 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og eru allir textarnir jafngildir.