Að starfa sem hjúkrunarfræðingur í Noregi

Sykepleier med pasient
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Hér má lesa um hvernig hjúkrunarfræðingar með menntun í öðru norrænu landi geta fengið vinnu í Noregi.

Starfsleyfi hjúkrunarfræðinga í Noregi

Í Noregi eru nokkrar stéttir verndaðar með lögum og krefjast þess vegna löggildingar. Meðal þeirra eru hjúkrunarfræðingar. Helsedirektoratet (norsk heilbrigðisyfirvöld) annast löggildingu hjúkrunarfræðinga í Noregi. Ef þú ert með erlenda menntun sem hjúkrunarfræðingur en hefur hug á að starfa í Noregi þarftu að sækja um löggildingu hjá Helsedirektoratet.

Í Noregi er engin sérlöggilding fyrir sérhæfða hjúkrunarfræðinga.

Þú sækir um löggildingu eða starfsleyfi með því að fylla út umsóknareyðublað. Ýmis gögn þurfa að fylgja umsókninni. Skjöl sem skrifuð eru á dönsku, norsku, sænsku eða ensku þarf ekki að þýða.

Atvinnurekanda er skylt að ganga úr skugga um löggildingu heilbrigðisstarfsfólks áður en það er ráðið til starfa.

Hvar starfa hjúkrunarfræðingar í Noregi?

Algengast er að hjúkrunarfræðingar starfi á sjúkrahúsum og við heilbrigðisþjónustu og umönnun hjá sveitarfélögum, á hjúkrunarheimilum, elliheimilum, í heimaþjónustu, við heilsugæslu hjá fyrirtækjum, hjá geðheilsugæslu, í skólum eða hjá heilsugæslustöðvum. Sumir hjúkrunarfræðingar starfa við rannsóknir og kennslu eða við hjálparstörf.

Noregi er skipt í fjórar svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir: Helse Sør-Øst, Helse Vest, Helse Midt og Helse Nord. Hver stofnun rekur sjúkrahús á sínum sviðum. Á vefsíðum heilbrigðisstofnananna er að finna yfirlit og tengla á sjúkrahúsin svo og upplýsingar fyrir atvinnuleitendur.

Í Noregi annast sveitarfélögin þjónustu fyrir aldraða og aðra sem á umönnun þurfa að halda. Þess vegna ráða mörg sveitarfélög einnig heilbrigðisstarfsfólk.

Hvar er hægt að finna vinnu sem hjúkrunarfræðingur í Noregi?

Atvinnuauglýsingar fyrir allt landið er að finna á starfatorgi NAV (norsku tryggingastofnunarinnar). Útlendingar geta einnig nýtt sér EURES-þjónustuna í heimalandi sínu í leit sinni að vinnu sem hjúkrunarfræðingur í Noregi.

Þar sem sveitarfélögin annast heilbrigðis- og umönnunarþjónustu í Noregi er einnig ráðlegt að skoða atvinnuauglýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna.

Enn önnur leið í atvinnuleitinni eru einkareknar starfsmannaleigur eða ráðningaþjónustur eða að hafa samband beint við hugsanlega vinnustaði. Þá sérhæfa sumar starfsmannaleigur og ráðningaþjónustur sig í að finna starfsfólk á sviði heilbrigðis- og umönnunarþjónustu.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna