Að starfa sem hjúkrunarfræðingur í Noregi

Starfsleyfi hjúkrunarfræðinga í Noregi
Í Noregi eru nokkrar stéttir verndaðar með lögum og krefjast þess vegna löggildingar. Meðal þeirra eru hjúkrunarfræðingar. Helsedirektoratet (norsk heilbrigðisyfirvöld) annast löggildingu hjúkrunarfræðinga í Noregi. Ef þú ert með erlenda menntun sem hjúkrunarfræðingur en hefur hug á að starfa í Noregi þarftu að sækja um löggildingu hjá Helsedirektoratet.
Í Noregi er engin sérlöggilding fyrir sérhæfða hjúkrunarfræðinga.
Þú sækir um löggildingu eða starfsleyfi með því að fylla út umsóknareyðublað. Ýmis gögn þurfa að fylgja umsókninni. Skjöl sem skrifuð eru á dönsku, norsku, sænsku eða ensku þarf ekki að þýða.
Atvinnurekanda er skylt að ganga úr skugga um löggildingu heilbrigðisstarfsfólks áður en það er ráðið til starfa.
Hvar starfa hjúkrunarfræðingar í Noregi?
Algengast er að hjúkrunarfræðingar starfi á sjúkrahúsum og við heilbrigðisþjónustu og umönnun hjá sveitarfélögum, á hjúkrunarheimilum, elliheimilum, í heimaþjónustu, við heilsugæslu hjá fyrirtækjum, hjá geðheilsugæslu, í skólum eða hjá heilsugæslustöðvum. Sumir hjúkrunarfræðingar starfa við rannsóknir og kennslu eða við hjálparstörf.
Noregi er skipt í fjórar svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir: Helse Sør-Øst, Helse Vest, Helse Midt og Helse Nord. Hver stofnun rekur sjúkrahús á sínum sviðum. Á vefsíðum heilbrigðisstofnananna er að finna yfirlit og tengla á sjúkrahúsin svo og upplýsingar fyrir atvinnuleitendur.
Í Noregi annast sveitarfélögin þjónustu fyrir aldraða og aðra sem á umönnun þurfa að halda. Þess vegna ráða mörg sveitarfélög einnig heilbrigðisstarfsfólk.
Hvar er hægt að finna vinnu sem hjúkrunarfræðingur í Noregi?
Atvinnuauglýsingar fyrir allt landið er að finna á starfatorgi NAV (norsku tryggingastofnunarinnar). Útlendingar geta einnig nýtt sér EURES-þjónustuna í heimalandi sínu í leit sinni að vinnu sem hjúkrunarfræðingur í Noregi.
Þar sem sveitarfélögin annast heilbrigðis- og umönnunarþjónustu í Noregi er einnig ráðlegt að skoða atvinnuauglýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna.
Enn önnur leið í atvinnuleitinni eru einkareknar starfsmannaleigur eða ráðningaþjónustur eða að hafa samband beint við hugsanlega vinnustaði. Þá sérhæfa sumar starfsmannaleigur og ráðningaþjónustur sig í að finna starfsfólk á sviði heilbrigðis- og umönnunarþjónustu.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.