Bankareikningur í Finnlandi

Pankkitili Suomessa
Hér eru upplýsingar um bankaþjónustu í Finnlandi, svo sem bankareikninga, húsnæðislán, netbankaauðkenni og millifærslur milli landa.

Finnskir bankar bjóða viðskiptavinum sínum afar fjölbreytta þjónustu. Hér er aðeins fjallað um þá þjónustu sem nauðsynleg er í daglegu lífi fólks. Þú færð upplýsingar um aðra bankaþjónustu hjá bankanum þínum.

Finnska fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi banka í Finnlandi og veitir upplýsingar er varða neytendavernd. Komi upp vandamál tengd bankamálum geta viðskiptavinir bankanna leitað ráða hjá ráðgjafarþjónustunni FINE.

Að opna bankareikning í Finnlandi

Ekki er gerð krafa um finnska kennitölu til að opna bankareikning, en viðskiptavinir þurfa þó alltaf að geta framvísað fullnægjandi persónuskilríkjum. Öruggasta leiðin er að framvísa gildu vegabréfi eða nafnskírteini sem gefið er út af yfirvöldum, sem ávallt skal hafa meðferðis þegar farið er í bankaútibú til að opna bankareikning. Hafi viðskiptavinur ekki finnska kennitölu kann það að takmarka að einhverju leyti þá þjónustu sem honum býðst, til dæmis hvað varðar greiðslukort og netbanka. 

Yfirleitt er gerð krafa um fullnægjandi ástæðu fyrir því að fólk þurfi finnskan bankareikning, svo sem fasta búsetu, vinnu eða nám í Finnlandi. Til staðfestingar á vinnuráðningu má til dæmis sýna gildan starfssamning eða launaseðil, og nemendaskírteini eða inntökubréf frá menntastofnun til staðfestingar á námi.

Finnskir bankar geta skoðað upplýsingar um fjárhag þeirra sem vilja opna hjá þeim reikning. 

Hér fyrir neðan er listi yfir finnska banka sem þjónusta viðskiptavini og veita aðgang að netbanka.

Netbankaauðkenni

Í Finnlandi gegna innskráningarupplýsingar í netbanka hlutverki rafræns auðkennis og notkun þeirra samsvarar undirskrift þinni. Auk innskráningar í netbanka geturðu því notað bankaauðkennið til innritunar á aðra þjónustuvefi, svo sem vef finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kansaneläkelaitos eða Kela) og vef skattayfirvalda, og til þess að staðfesta kaup á netinu. Innskráningarupplýsingarnar þínar eru aðeins ætlaðar til þinna einkanota og ekki er leyfilegt að afhenda þær öðrum.

Til að fá innskráningarupplýsingar fyrir netbanka þarft þú að mæta í eigin persónu í útibú bankans þíns. Þú verður að hafa persónuskilríki meðferðis.

Millifærslur til annarra landa

Millifærslur í evrum er hægt að framkvæma á sama hátt og á sama verði til Finnlands og til annarra SEPA-landa. SEPA-löndin (e. „Single Euro Payments Area“) eru, auk evrulandanna, önnur lönd innan ESB og EES auk Sviss og Bretlands. Sláðu reikningsnúmer móttakanda greiðslunnar inn á IBAN-formi svo að bankinn viti að um SEPA-greiðslu sé að ræða.

Eigir þú von á greiðslu frá öðru landi skaltu gæta þess að gefa reikningsupplýsingar þínar upp á réttu formi. Í SEPA-greiðslum þarf reikningsnúmer móttakanda að vera á IBAN-formi og einnig þarf BIC-númer viðskiptabanka móttakandans að koma fram. IBAN-reikningsnúmer er hægt að sjá á reikningsyfirliti, í netbanka eða fá upplýsingar um það í bankanum.

Nánari upplýsingar færðu hjá þínum viðskiptabanka.

Húsnæðislán

Finnskir bankar veita almennt aðeins húsnæðislaun til kaupa á húsnæði í Finnlandi. Hyggist þú taka húsnæðislán hjá finnskum banka til kaupa á húsnæði í öðru norrænu landi skaltu hafa samband við bankann þinn til að ganga úr skugga um hvort nota megi húsnæðislán frá þeim til að kaupa íbúð í öðru norrænu landi.

Hyggist þú kaupa íbúð í Finnlandi með húsnæðisláni frá erlendum banka er ekki víst að bankinn þinn samþykki að veita slíkt lán vegna kaupa á húsnæði í Finnlandi. Athugaðu málið hjá þínum banka.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna