Barnabætur á Grænlandi
Á Grænlandi eru barnabætur greiddar barnafjölskyldum. Þó eiga ekki allar fjölskyldur rétt á barnabótum.
Hvað eru grænlenskar barnabætur?
Barnabætur eru bætur sem ætlað er að styrkja framfærslu barnsins og því ber að verja þeim í barnið.
Réttur á grænlenskum barnabótum ræðst af tekjum foreldra og upphæð bótanna er einnig aðlöguð að tekjum. Almennt eru það einkum lágtekjufjölskyldur sem eiga rétt a barnabótum á Grænlandi.
Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta fengið grænlenskar barnabætur?
Til að fá barnabætur þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Barnið verður að vera yngra en 18 ára
- Barnið verður að vera danskur ríkisborgari
- Barnið verður að eiga lögheimili á Grænlandi
- Barnið má ekki vera í fóstri utan heimilis
- Barnið má ekki vera í hjónabandi
Hvernig er sótt um?
Á Grænlandi er ekki hægt að sækja um barnabætur, heldur eru þær greiddar sjálfkrafa á grundvelli árstekna. Flytjir þú í annað sveitarfélag á Grænlandi fylgja barnabæturnar sjálfkrafa með.
Hafir þú nýlega flust til Grænlands færðu barnabætur greiddar út þegar þú hefur skráð lögheimili þitt í landinu, eigir þú rétt á slíkum bótum.
Þegar barn þitt nær 18 ára aldri hættir þú að fá barnabætur.
Ef forsendur þínar breytast, til dæmis samfara nýju hjónabandi eða skilnaði, ef þú ferð í veikindaleyfi eða á eftirlaun, ber þér skylda til að upplýsa sveitarfélagið um það.
Ef þú flytur úr landi
Þú getur aðeins fengið grænlenskar barnabætur ef þú býrð á Grænlandi og hefur þar lögheimili samkvæmt þjóðskrá. Þess vegna getur þú ekki flutt barnabæturnar með þér frá Grænlandi.
Þú getur þó fengið barnabætur greiddar áfram þó að barn þitt búi ekki á Grænlandi, til dæmis vegna náms við heimavistarskóla eða tímabundinnar dvalar erlendis.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.