Grunnskólar í Danmörku
Fræðsluskylda í Danmörku
Í Danmörku er engin skólaskylda heldur er það réttur og skylda allra barna á fá kennslu.
Fræðsluskyldan er í tíu ár og hefst 1. ágúst á sama almanaksári og barnið verður sex ára.
Skyldubundin kennsla getur verið
- í grunnskólanum, sem er ókeypis
- í frískólum eða einkaskólum þar sem foreldrar greiða fyrir kennsluna
- sem heimakennsla.
Auk þess eru til heimavistarskólar og svonefndir eftirskólar þar sem nemendur búa á heimavist.
Grunnskólinn
Grunnskólinn er tíu ára skóli, forskólabekkur (0. bekkur) og 1.-9. bekkur ásamt valfrjálsum 10. bekk.
Ef þú býrð í Danmörku áttu rétt á að barnið þitt gangi í grunnskóla í því skólahverfi sem fjölskyldan býr eða dvelur í.
Þið getið valið annan grunnskóla en hverfisskólann, jafnvel í öðru sveitarfélagi að því gefnu að laust pláss sé í skólanum.
Nánari upplýsingar veitir sveitarfélagið.
Frískólar, einkareknir grunnskólar, eftirskólar og frjálsir fagskólar í Danmörku
Frískólar og eftirskólar eru einkareknir skólar með greiðsluskyldu fyrir kennslu, og ef það á við búsetu. Nemendur geta búið á frískólum (6.-10. bekk), eftirskólum 8.-10. bekk) og frjálsum fagskólum (10. bekkur og áfram)
Alþjóðlegir grunnskólar í Danmörku
Í Danmörku eru margir alþjóðlegir skólar þar sem kennslan fer fram á erlendum tungumálum.
Flestir alþjóðlegir skólar eru stofnaðir í samræmi við reglur um einkaskóla og fá ríkisstyrk. Þá krefjast þeir skólagjalda en þau geta numið allt frá um 15.000 til 80.000 danskra króna á ári.
Meðal nemenda í alþjóðlegum skólum geta verið dönsk börn sem vilja fá kennslu á erlendu tungumáli en einnig útlensk börn sem kunna ekki dönsku. Þrátt fyrir að kennslan fari fram á erlendu tungumáli, er yfirleitt einnig boðið upp á aukakennslu fyrir erlenda nemendur í dönsku og danskri menningu.
Sótt er um skólavist í alþjóðlegum skólum hjá hverjum skóla fyrir sig. Sumir skólar eru afar vinsælir og með biðlista, þess vegna er ráðlegt að hafa samband við skólann eins snemma og kostur er.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.