Grunnskólar í Noregi
Réttur til skólavistar í grunnskóla í Noregi
Í Noregi er grunnskólanám skylda. Ef þú hyggst dvelja í Noregi með barn á grunnskólaaldri lengur en í þrjá mánuði þarftu að skrá barnið í skóla hjá sveitarfélaginu þar sem þið ætlið að búa. Foreldrar þurfa sjálfir að skrá börn sín í skóla.
Allir opinberir grunnskólar í Noregi eru gjaldfrjálsir en fjármagnaðir af sveitarfélögunum. Einnig starfa nokkrir einkareknir grunnskólar. Fáðu nánari upplýsingar um skólana hjá sveitarfélaginu þar sem þú býrð eða ert að flytja til. Valkostur við grunnskóla er einkakennsla á heimilinu.
Grunnskólinn er tíu ár og börn hefja yfirleitt skólagöngu árið sem þau verða sex ára. Grunnskólanum er skipt í tvö stig. Fyrstu sjö árin (1.-7. bekkur) eru kölluð barnastig og þau þrjú næstu (8.-10. bekkur) unglingastig. Skólanum ber að sjá nemendum fyrir öllum nauðsynlegum námsgögnum og útbúnaði. Nemendur þurfa að hafa með sér nesti í skólann.
Sérkennsla
Nemendur sem ná ekki tilskildum árangri með almennri kennslu eiga rétt á sérkennslu. Skólarnir/skólaeigendur ákveða hvort nemendur eiga rétt á sérkennslu. Ef nemandi eða foreldrar hans eru ekki sáttir með úrskurðinn geta þeir kvartað til Statsforvalteren.
Önnur tungumálakennsla
Allir nemendur með annað móðurmál en norsku og samísku eiga rétt á aukakennslu í norsku þar til nemandinn er orðinn það góður í norsku að hann getur fylgst með hefðbundinni kennslu. Ef þörf krefur eiga nemendurnir einnig rétt á móðurmálskennslu og/eða kennslu á tveimur tungumálum.
Ef þrír grunnskólanemar eða fleiri í Troms og í Finnmörku fara fram á að fá kennslu á finnsku eiga þeir rétt á því. Á samískum svæðum eiga allir nemendur á grunnskólaaldri rétt á kennslu í og á samísku. Í öðrum sveitarfélögum gildir sú regla að ef tíu nemendur eða fleiri óska eftir kennslu í og á samísku eiga þeir rétt á henni að því tilskildu að eigi færri en sex nemendur verða eftir í hópnum.
Aðstoð við heimanám og skóladagheimili
Allir grunnskólanemar eiga rétt á ókeypis aðstoð við heimanám. Sveitarfélaginu er skylt að bjóða hana. Nemendum er frjálst hvort þeir þiggja aðstoð við heimanám. Sveitarfélögum er einnig skylt að bjóða skólanemum í 1.-4. bekk pláss á skóladagheimili (SFO) á undan og eftir skóla. Sama á við um börn með sérþarfir í 1.-7. bekk. Skóladagheimilin eru einnig valfrjáls. Nánari upplýsingar um þessa þjónustu veitir sveitarfélagið eða skólarnir sjálfir.
Leiðin í skólann og skólaakstur
Ef leiðin í skólann þykir löng eða hættuleg eða ef nemandi er fatlaður eða slasaður á hann rétt á ókeypis skólaakstri.
Frí og frídagar
Eigandi skólans ákveður hvenær frí og frídagar eru í skólanum. Allir norskir helgidagar eru frídagar. Sveitarfélaginu er heimilt að gefa nemendum frí úr skóla í allt að tvær vikur ef það þykir verjandi.
Grunnskóli á Svalbarða
Umsjón með kennslu á eyjaklasanum er í höndum yfirvalda í Longyearbyen, Svalbarða.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.