Grunnskóli í Svíþjóð

Skola
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Hér er að finna upplýsingar um grunnskóla í Svíþjóð. Einnig er gefið yfirlit yfir skólaskyldu, skólastig, frístundaheimili, einkunnir og móðurmálskennslu í skólum í Svíþjóð.

Í Svíþjóð eru það sveitarfélögin sem bera höfuðábyrgð á grunnskólanum en ríkið stýrir skólamálum með lagasetningu, reglum og námsskrám sem kveða á um markmið og viðmið fyrir skólastarf.

Skólayfirvöld, Skolverket, bera ábyrgð á að fylgja eftir, meta, þróa og hafa eftirlit með skólastarfi. Öllum sem starfa í skólanum ber skylda til að vinna að sameiginlegum markmiðum svo tryggja megi samræmda menntun.

Sænski skólinn er í meginatriðum fjármagnaður af hinu opinbera og er gjaldfrjáls. Lítill hluti nemenda gengur í einkaskóla (fritstående skola) sem einnig eru fjármagnaðir af hinu opinbera.

Öll börn í Svíþjóð eiga rétt á og eru skyldug til að hljóta kennslu í níu ár.

Skólaskylda

Í Svíþjóð er skólaskylda. Skólaskylda felur í sér að börn fái kennslu í skóla og að nemandinn skuli taka þátt í kennslunni sem fram fer í skólanum nema hann hafi gilda ástæðu til þess að taka ekki þátt.

Skólaskylda hefst á haustönn þess almanaksárs sem börnin verða sex ára. Skólaskyldu lýkur að jafnaði að loknu tíunda skólaári. Ef barnið er í sérskóla lýkur skólaskyldu að loknu ellefta ári.

Öll börn sem almenn skólaskylda nær til eiga rétt á ókeypis grunnnámi.

Frjálst val um skóla

Við val á skóla skal sveitarfélagið taka tillit til óska foreldra og barna um skóla og til reglunnar um nálægð frá skóla (nálægðarreglunnar (närhetsprincipen)), en barnið á ekki rétt á að komast í ákveðinn skóla.

Foreldrar og nemendur geta valið um skóla á vegum sveitarfélagsins og einkaskóla (einkarekinna skóla). Stundum þarf að skrá sig á biðlista fáeinum árum áður en nám hefst til þess að komast að í einkaskóla. Einkaskóli ber sjálfur ábyrgð á inntöku nemenda og hefur eigin aðferðir við val á nemendum. Á utbildningsinfo.se eru nánari upplýsingar um þá skóla sem standa til boða.

Hafið samband við það sveitarfélag sem flytjast á til, til þess að fá upplýsingar um hvernig á að skrá barn í þann skóla sem óskað er eftir í Svíþjóð.

Forskóli

Barnið hefur nám í forskóla árið sem það verður sex ára til þess að undirbúa sig undir skólagöngu. Forskólinn hluti af skólaskyldu í Svíþjóð.

Forskóli er sérstakt skólastig en er oft rekinn samhliða grunnskólanum. Hlutar af námskrá grunnskóla gilda um forskólann.

Grunnskóli

Sænski grunnskólinn og samsvarandi skólagerðir (grundsärskola og specialskola) byggist upp af forskólabekk og níu bekkjum (1. - 9. bekkur) og kennslunni er skipt í haust- og vorönn.

Grunnskólar eru bæði á vegum sveitarfélagsins og einkareknir (fristående). Allir grunnskólar fylgja sömu námskrá, en einkaskólar geta haft áherslur sem eru ólíkar þeim sem sveitarfélagið hefur, t.d. hvað trú eða kennslufræði varðar. Einkaskólar geta verið í eigu fyrirtækis, stofnunar eða félags.

Nánari upplýsingar um grunnskólann fást hjá Skolverket eða sveitarfélaginu.

Ef einstaklingur flytur til Svíþjóðar frá öðru norrænu ríki, á barn hans rétt á að vera í skóla í Svíþjóð, í bekk með jafnöldrum og á sama stigi og barnið var á í sínum skóla í heimalandinu - óháð tungumálakunnáttu.

Hafi barnið verið í skóla í öðru norrænu ríki áður og er að innritast í sænskan grunnskóla skal hafa meðferðis skjöl frá fyrri skóla á skandinavísku tungumáli eða ensku. Hafa skal samband við þann skóla sem barnið á að fara í til þess að fá upplýsingar um hvaða skjöl barnið á að hafa meðferðis.

Alþjóðlegir skólar

Börn sem eru búsett í Svíþjóð um skamman tíma eða hafa aðrar ástæður til að stunda nám í alþjóðlegum skóla eiga rétt á því ef skólinn er viðurkenndur sem alþjóðlegur skóli af Skolinspektionen. Til þess að fá viðurkenningu verður nám í skólanum að vera jafngilt námi í sænskum grunnskóla.

Einkunnir

Í grunnskólanum er einkunnaskali með fimm þrepum sem eru viðurkennd, A-E og F sem er falleinkunn. Í 6.-9. bekk eru gefnar einkunnir (terminsbetyg) í öllum þeim greinum sem nemandinn hefur fengið kennslu í.

Í lok vorannar í 9. bekk fær nemandinn lokaeinkunn (slutbetyg). Lokaeinkunnin er notuð þegar sótt erum framhaldsskóla.

Í grunnsérskólum eru gefnar einnkunnir ef nemandi eða forráðamaður nemanda óskar eftir því. Í sérskólum eru gefnar einkunnir í 7.-10. bekk.

Skólastig

Norrænu skólakerfin eru ekki nákvæmlega eins. Hér sést hvernig skólastigin skiptast í norrænu ríkjunum fimm (tölur í sviga sýna að viðkomandi bekkur er ekki skylda) Forskóli plús 9–10 ára skólaganga:

Svíþjóð          Danmörk          Finnland         Ísland          Noregur          Aldur

     0                     0                      (0)                 1                  1                6

     1                       1                      1                    2                  2                 7

     2                      2                       2                   3                  3                 8

     3                      3                       3                   4                  4                 9

     4                      4                       4                   5                  5                10

     5                      5                       5                   6                  6                11

     6                      6                       6                   7                  7                12

     7                      7                       7                   8                  8                13

     8                      8                       8                   9                  9                14

     9                      9                       9                  10                10               15

     -                    (10)                   (10)                 -                   -               16

Móðurmál

Nemandi sem á forráðamann með annað móðurmál en sænsku á rétt á móðurmálskennslu í því tungumáli ef tungumálið er talað á heimlinu dags daglega, nemandinn hefur grunþekkingu á tungumálinu og ef minnst fimm nemendur óska eftir þessari kennslu í sveitarfélaginu.

Ef móðurmál forráðamannsins er viðurkennt sænskt minnihlutatungumál skal bjóða nemandanum móðurmálskennslu jafnvel þótt tungumálið sé ekki talað að staðaldri á heimilinu og jafnvel þótt ekki séu til staðar fimm nemendur. Sænsku minnihlutatungumálin eru finnska, meänkieli (tornedalsfinnska), samíska (allar mállýskur), romani, chib og jiddíska.

Frístundastarf

Grunnskólanemar geta tekið þátt í frístundastarfi á frístundaheimili (fritidshem), í opnu frístundastarfi eða í gæslu frá því þau eru sex ára og til loka vorannar á því ári sem barnið verður 13 ára.

Frístundaheimilið er opið frá því snemma á morgnana fram á kvöld til þess að gera foreldrum kleyft að stunda vinnu eða nám.

Foreldrar þurfa að jafnaði að greiða fyrir vistina á frístundaheimilinu.

Í flestum tilvikum er frístundaheimilið tengt skólanum og undir sömu stjórn og skólinn.

Skólaakstur

Nemendur sem eiga heima langt frá skóla, búa við fötlun eða þurfa af öðrum ástæðum á akstri í og úr skóla að halda geta í ákveðnum tilvikum átt rétt á ókeypis skólaakstri (skolskjuts). Hafðu samband við sveitarfélagið til að fá nánari upplýsingar.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna