Kosningaréttur í Færeyjum
Kosningar til færeyska lögþingsins
Ef þú ert átján ára, ert danskur ríkisborgari og í þjóðskrá í Færeyjum ertu með kosningarétt til færeyska lögþingsins, Lagtinget.
Færeyjar eru eitt kjördæmi og allir sem hafa kosningarétt til lögþingsins eru um leið kjörgengir.
Til lögþingsins eru kosnir 33 þingmenn sem eru fulltrúar fjölflokkakerfis.
Kjörtímabil lögþingsins er fjögur ár.
Sveitarstjórnarkosningar
Þú ert með kosningarétt og getur boðið þig fram til sveitarstjórnar ef þú:
- ert orðin/n átján ára,
- hefur verið skráð/ur í þjóðskrá í sveitarfélaginu í 14 daga fyrir kjördag að lágmarki og
- ert enn búsett/ur í sveitarfélaginu á kjördag og
- uppfyllir að öðru leyti reglur sem eiga við um kosningarétt og kjörgengi til lögþingsins.
Ef þú ert ekki danskur ríkisborgari en með erlendan ríkisborgararétt þá ertu með kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga og getur boðið þig fram ef þú ert orðin/n átján ára og hefur átt fasta búsetu í Færeyjum síðustu þrjú ár fyrir kosningarnar.
Kosið er til sveitarstjórna fjórða hvert ár.
Kosningar til danska þingsins
Færeyjar eru eitt kjördæmi í danska ríkinu. Í Færeyjum eru kjörnir tveir fulltrúar til setu á danska þinginu, Folketinget. Yfirleitt er kosið til danska þingsins sama dag og annars staðar í Danmörku.
Til þess að geta kosið til danska þingsins í Færeyjum þarftu að hafa fasta búsetu í Færeyjum, vera danskur ríkisborgari, vera í þjóðskrá í Færeyjum og vera orðin/n átján ára.
Í ákveðnum tilvikum geturðu haft kosningarétt til danska þingsins þó að þú dveljir erlendis og sért ekki með fasta búsetu í danska ríkinu.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Yfirleitt hefur fólk sem er með kosningarétt til lögþingsins um leið rétt á að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum. Engin lög ná til þjóðaratkvæðagreiðslna í heild. Hins vegar eru samþykkt sérstök lög um hverja þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meðal annars er kveðið á um það hver hefur kosningarétt. Til dæmis var í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslunni sem snérist um sameiningu sveitarfélaga sérstök grein um að fólk sem hefði kosningarétt til lögþingsins hefði einnig kosningarétt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þjóðaratkvæðagreiðslur sem efnt er til í Danmörku eru einnig haldnar í Færeyjum ef lögin sem atkvæði eru greidd um eiga að gilda í Færeyjum. Færeyingar taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum sem snúast um aðild Dana að Evrópusambandinu þar sem Færeyjar eru ekki aðili að Evrópusambandinu.
Tengt efni
Færeyskur ríkisborgararéttur er ekki fyrir hendi og gilda danskar reglur á þessu sviði. Nánari upplýsingar um þær er að finna hér.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.