Meðganga og fæðing á Grænlandi

Graviditet og fødsel i Grønland
Hér er að finna upplýsingar um meðgöngu og fæðingu á Grænlandi.

Á Grænlandi er aðgengi að sjúkrahúsum misjafnt eftir búsetu. Í grundvallaratriðum stendur öllum sams konar eftirlit til boða á meðgöngu, en útfærsla eftirlits og fæðingarhjálpar er mismunandi fyrir íbúa höfuðstaðarins, íbúa strandbæja eða íbúa í byggðum þar sem ekki er sjúkrahús.

Rannsóknir á meðgöngu

Við upphaf meðgöngu stendur öllum eftirfarandi grunnpakki til boða:

  • Blóð- og þvagprufur
  • Fyrirbyggjandi rannsókn á arfgengum sjúkdómum
  • Skimun fyrir kynsjúkdómum
  • Reglulegt eftirlit hjá ljósmóður

Þessum rannsóknum er ætlað að veita yfirlit yfir heilsu þína og gefa lækni og ljósmóður vísbendingar um framvindu meðgöngunnar. Á meðgöngunni kann þér einnig að verða boðið upp á ómskoðun.

Meðganga í Nuuk

Sért þú í Nuuk við upphaf meðgöngu geturðu leitað til Heilbrigðisstofnunar Ingiríðar drottningar (Dronning Ingrids Sundhedscenter). Þar verður tekin þvagprufa og þér síðan vísað til ljósmóður sem stofnar fyrir þig meðgönguskrá.

 

Meðganga í strandbæ með sjúkrahúsi

Sért þú í strandbæ við upphaf meðgöngu skaltu leita til göngudeildar á sjúkrahúsi staðarins. Þar mun læknir skoða þig og vísa þér áfram til ljósmóður/fæðingarhjálpara/heilbrigðisstarfsmanns sem stofnar fyrir þig meðgönguskrá og fylgist með þér það sem eftir er meðgöngunnar.

Meðganga í þorpi

Sért þú í þorpi við upphaf meðgöngu skaltu leita til heilsugæslunnar. Þar skoðar heilbrigðisstarfsmaður þig og stofnar fyrir þig meðgönguskrá. Því næst mun heilbrigðisstarfsmaðurinn hafa samband við næsta sjúkrahús og panta fyrir þig fyrstu skoðun hjá lækni og ljósmóður. Að því loknu fer fram reglulegt eftirlit í þorpinu og 2-3 sinnum á sjúkrahúsinu meðan á meðgöngunni stendur.

Fæðing

Í Nuuk fæðast öll börn á Spítala Ingiríðar drottningar. Á spítalanum er fæðingardeild með fæðingarlæknum og ljósmæðrum og þar er aðstaða til að framkvæma keisaraskurð ef eitthvað óvænt kemur upp á í fæðingu.

Búir þú annars staðar en í Nuuk og hafi meðgangan gengið vel, geturðu fætt á næsta sjúkrahúsi.

Sé þekktur áhættuþáttur til staðar eða aukin áhætta á að vandkvæði komi upp í fæðingu, verður þér vísað á fæðingardeildina í Nuuk. Í slíkum tilfellum átt þú að fara til Nuuk eigi síðar en þremur vikum fyrir settan dag og dvelja á spítalanum eða sjúkrahótelinu fram að fæðingu.

Sé von á tvíburum skaltu fara til Nuuk sjö vikum fyrir settan dag.

Ferðakostnaður vegna meðgöngueftirlits og fæðingar

Búir þú í þorpi og ætlir til Nuuk eða annars bæjar vegna meðgöngueftirlits eða til að fæða, stendur hið opinbera straum af ferðakostnaði þínum og barnsins. Viljir þú hafa maka þinn með þurfið þið sjálf að borga ferðakostnað hans og uppihald.

Við tvíburafæðingar greiðir hið opinbera einnig ferðakostnað og uppihald maka. Þá skalt þú leggjast inn á spítalann eða sjúkrahótelið í Nuuk sjö vikum fyrir settan dag og maki þinn má koma þangað þremur vikum fyrir settan dag. Viljir þú hafa maka þinn með allar sjö vikurnar þurfið þið sjálf að útvega honum dvalarstað fyrstu fjórar vikurnar.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna