Ökuskírteini í Noregi

Førerkort i Norge
Hér geturðu lesið um hvernig sótt er um útgáfu og endurnýjun ökuskírteinis í Noregi og um notkun norsks ökuskírteinis erlendis.

Hvaða flokkar ökuskírteina eru í Noregi?

Í Noregi eru ökuskírteini flokkuð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Aldurstakmörk eru mismunandi eftir flokkum. Ýmsar tegundir ökuskírteina eru í gildi en þú þarft að vera með nýjustu tegundirnar (EES-plastökuskírteini) ef þú hyggst stjórna farartæki í útlöndum. Statens vegvesen sér um útgáfu ökuskírteina í Noregi. 

Erlent ökuskírteini í Noregi

Meginreglan er að þú getur notað erlent ökuskírteini svo lengi sem það er í gildi. 

Ökuskírteini gefin út í öðru ESB-/EES-ríki

Ef ökuskírteinið þitt er gefið út í öðru ESB/EES-landi gildir það til aksturs í Noregi svo framarlega sem það er í gildi. Þegar þú sest að í Noregi er þér heimilt að nota ökuskírteinið til aksturs í Noregi eða fá því skipt fyrir norskt ökuskírteini.

Norðurlandabúar sem fara á milli landa til vinnu geta notað ökuskírteini frá heimalandinu ef það gildir þar í landi. Ökuskírteini eru endurnýjuð í búsetulandinu.

Ökuskírteini frá ríki utan ESB/EES-svæðisins

Ef ökuskírteinið þitt er frá ríki utan ESB/EES getur þú notað það í þrjá mánuði frá komu til landsins, bæði ef um tímabundna dvöl er að ræða eða varanlegan flutning. Ökuskírteinið verður að vera í gildi og uppfylla verður reglur um aldur sem gilda í Noregi.

Gildistími og endurnýjun ökuskírteinis

Árið 2013 varð gildistími ökuskírteina fimmtán ár ef heilsufarsástæður kveða ekki á um annað. Gildistími þyngri flokka ökuskírteina er yfirleitt fimm ár. Ef ökuskírteini þitt er samkvæmt gamla kerfinu þarftu að endurnýja það. Ýmsar dagsetningar eru í gildi. Þú sækir um endurnýjun ökuskírteinis í útibúi Statens vegvesen. 

Óháð aldri umsækjanda er læknum skylt að senda tilkynningu til fylkisstjóra ef þeir telja að umsækjandi uppfylli ekki tilskilin heilbrigðisskilyrði.

Norskt ökuskírteini í útlöndum

Mælt er með því að þú notir EES-plastökuskírteini ef þú ætlar að stjórna ökutæki í útlöndum. Þú getur komist hjá misskilningi hjá erlendum yfirvöldum, bönkum, bílaleigum o.fl. þar sem litlu ökuskírteinin eru yfirleitt auðskiljanlegri sem persónuskilríki.

Mörg lönd utan ESB/EES-svæðisins viðurkenna EES-ökuskírteinin og því er ekki nauðsynlegt að vera með alþjóðlegt ökuskírteini til viðbótar. Engu að síður skaltu hafa samband við þarlend yfirvöld eða sendiráð Noregs á staðnum til að ganga úr skugga um reglurnar áður en þú leggur af stað.

Hvernig sæki ég um ökuskírteini í Noregi?

Þú getur sótt rafrænt um ökuskírteini hjá Statens vegvesen. Ef þú ætlar að verða atvinnubílstjóri þarftu að afla þér réttinda sem atvinnubílstjóri til viðbótar við ökuskírteinið.

Ökuskírteini færðu ef þú

  • hefur átt lögheimili í Noregi í að minnsta kosti sex mánuði;
  • uppfyllir aldurskröfur;
  • sendir inn umsókn um ökuskírteini;
  • uppfyllir heilbrigðisskilyrði og ert með flekklaust orðspor (hjá lögreglu) í fyrsta sinn sem þú sækir um ökuskírteini.

Allt ökunám sem nauðsynlegt er til að sækja um ökuskírteini þarf að fara fram hjá löggildum ökuskóla.

Hér má finna nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna