Tollareglur í Noregi
Það gilda reglur um hvað má flytja tollfrjálst inn til Noregs þegar flutt er til landsins eða við komu frá öðrum löndum. Hér á eftir eru gefnar upplýsingar um þær tollareglur sem gilda um búslóðaflutninga og vörur sem falla undir sérstakar reglur um innflutning.
Innflutningur búslóðar til Noregs
Ef þú hefur búið erlendis samfleytt í eitt ár eða lengur er þér heimilt að flytja inn búslóð þína að mestu leyti án þess að greiða tolla eða gjöld. Þú getur flutt inn búslóð þína tollfrjálst ef:
- þú hefur dvalið erlendis samfleytt í eitt ár eða lengur,
- þú hefur átt heimilishlutina og notað þá á meðan þú dvaldist erlendis og ráðgerir að halda áfram að nota þá í Noregi,
- þú flytur inn búslóðina vegna búferlaflutninga til Noregs.
Um suma innanstokksmuni gildir að þú þarft að fylla út yfirlýsingu um innflutning á búslóð sem þú skilar til tollstjóra.
Vörur sem sérstakar reglur gilda um við innflutning til Noregs
Um sumar vörur gilda sérstakar innflutningsreglur. Hér á eftir er gefið yfirlit yfir þær:
Ef þú flytur til Noregs með bíl eða annað vélknúið ökutæki þarftu að gefa það upp og greiða gjöld. Nánari upplýsingar um þetta fást hjá Tolletaten og Skatteetaten.
Í vissum tilfellum er hægt að flytja frístundabáta til Noregs án þess að greiða tolla og gjöld. Þú verður að hafa búið erlendis í fimm ár að lágmarki og báturinn má ekki vera lengri en 15 metrar. Þú verður að hafa átt bátinn og notað hann erlendis í eitt ár að lágmarki. Bátinn þarf að flytja inn í landið eigi síðar en einu ári eftir að þú flytur til Noregs. Báturinn verður að vera til persónulegra nota og hann má ekki selja fyrstu tvö árin eftir innflutninginn eigi hann að vera undanþeginn tolli og gjöldum. Þú þarft að sækja skriflega um undanþágu. Nánari upplýsingar fást hjá Tolletaten.
Ýmsar vörur á borð við byggingavörur, vörusýni, íðefni, raftæki og annað eru ekki undanþegnar gjöldum við búferlaflutninga. Nánari upplýsingar fást hjá Tolletaten.
Í sumum tilfellum þarf að tollafgreiða innflutt matvæli. Sérstakar reglur gilda um innflutning ýmissa matvæla. Lestu meira um innflutning matvæla í atvinnuskyni og til eigin nota hjá Mattilsynet.
Þú getur tekið með þér ákveðið magn áfengis og tóbaks án þess að greiða fyrir það gjöld eftir að hafa verið erlendis. Ef þú vilt taka með þér meira magn þarftu að gefa það upp og greiða tolla og gjöld við komuna til Noregs.
Ferð þú á skotveiðar eða tekur þátt í skotkeppni í Noregi? Þá þarftu að sýna fram á að þú hafir leyfi til að bera vopnið. Lestu meira um innflutning á vopnum til Noregs hjá Politiet.
Sérstakar takmarkanir gilda um innflutning á plöntum og fræjum til Noregs. Nánari upplýsingar eru á vef Mattilsynet.
Stundum þarf að tollafgreiða eða greiða gjöld fyrir nýjar vörur sem keyptar voru í útlöndum. Þetta geta verið snyrtivörur, fatnaður og skór, leikföng, húsgögn og annað. Nánari upplýsingar fást hjá Tolletaten.
Þegar þú kemur til Noregs þarftu að geta sýnt fram á að lyfin sem þú hefur meðferðis séu til eigin nota. Slík staðfesting getur verið ávísun læknis, vottorð frá lækni eða apóteksmerking á umbúðum. Nánari upplýsingar um að flytja inn og ferðast með lyf til Noregs fást hjá lyfjastjórnsýslusviði (Direktoratet for medisinske produkter).
Ef þú hyggst taka með þér erlendan gjaldeyri að hærra andvirði en 25 þúsund norskra króna til Noregs eða úr landi þarftu að tilkynna það til tollstjóra.
Innflutningur til og útflutningur frá Svalbarða
Á Svalbarða eru strangar kröfur gerðar um innflutning matvæla, dýra og annars.
- Bannað er að flytja lifandi spendýr og fugla til Svalbarða, með vissum undantekningum um búrfugla, kanínur og lítil nagdýr. Mattilsynet getur gefið leyfi fyrir innflutningi hunda. Leitaðu svara hjá Mattilsynet við hugsanlegum spurningum.
- Hundaæði er að finna á Svalbarða og því gilda strangar reglur um flutning dýra og kjötafurða frá Svalbarða til meginlands Noregs. Leitaðu svara hjá Mattilsynet við hugsanlegum spurningum.
- Sérstakar leiðbeiningar gilda um innflutning og útflutning vopna og skotfæra til og frá Svalbarða Nánari upplýsingar um þetta fást hjá Sysselmesteren.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.