Viðurkenning á erlendri menntun í Noregi

Godkjenning av utenlandsk utdanning i Norge
Hér er að finna upplýsingar um viðurkenningu á erlendri menntun og starfsfærni í Noregi.

Norðurlöndin eru einn mennta- og vinnumarkaður og Norðurlandabúar eiga að geta nýtt sér það. Hér er að finna upplýsingar um viðurkenningu á erlendri menntun og starfsfærni í Noregi.

Ertu með framhaldsskólapróf og vilt sækja um háskólanám í Noregi?

Norðurlöndin viðurkenna framhaldsskólapróf hvers annars. Hafir þú lokið almennu framhaldsskólanámi (stúdentsprófi) í öðru Norðurlandanna sem veitir aðgang að háskólum í viðkomandi landi uppfyllir þú kröfur um almenna námsfærni og getur sótt um háskólanám í Noregi. Auk þess gera sumar námsleiðir forkröfur í einstökum greinum umfram almennar aðgangskröfur.

Ef þú ert í vafa um hvort þú búir yfir almennri námsfærni geturðu sótt um mat á menntun þinni hjá Samordna opptak (SO). Gerðu það tímanlega áður en þú sækir um háskólanám í Noregi vegna þess að matsferlið getur tekið langan tíma.

Ertu með starfsmenntun og hyggstu sækja um vinnu í Noregi?

Almenna reglan er sú að norræn starfsmenntun sem er sambærileg norskri starfsmenntun veitir sömu réttindi. Ef þú ert með norræna starfsmenntun áttu ekki að þurfa að sækja um sérstakt starfsleyfi í Noregi til þess að stunda iðn þína. Gættu þó að því að sumar greinar krefjast starfsleyfis.

Ef þú ert með starfsmenntun frá öðru Norðurlandanna og hefur hug á að starfa að grein þinni í Noregi skaltu snúa þér beint til atvinnurekandans til að sækja um vinnu. Atvinnurekandanum er heimilt að meta hvort þú búir yfir tilhlýðilegri starfsfærni. Ef atvinnurekandinn er í vafa um hvernig meta skuli menntun þína í Noregi eða ef þér er sagt að þig vanti starfsfærni geturðu leitað til NOKUT en það er opinber stofnun sem sér um gæðamat á menntun.

Ertu með háskólamenntun frá öðru Norðurlandanna?

NOKUT (Nasjonalt organ for kvalitet i utdanningen) getur veitt almenna viðurkenningu á erlendu háskólaprófi. NOKUT metur hvort erlent háskólapróf jafngildir norsku háskólaprófi og hvað það samsvarar mörgum námseiningum.  Sumt nám á Norðurlöndum er sjálfkrafa viðurkennt af NOKUT. Ef þú ert með þess háttar menntun geturðu sótt skjal á netinu sem staðfestir að prófgráðan þín er sjálfkrafa viðurkennd en skjalið sýnir þú menntastofnunum og atvinnurekendum þegar þess gerist þörf. Sjálfkrafa viðurkenning á prófum er staðfesting þess að erlend prófgráða sé lögð að jöfnu við samsvarandi norska gráðu. Þú getur einnig sótt um að fá háskólamenntun þína viðurkennda á hefðbundinn hátt. Ef menntunin þín er viðurkennd færðu viðurkenningarskjal sem þú getur framvísað þegar þú sækir um störf í Noregi.  Háskólar geta einnig lagt faglegt mat á erlenda háskólamenntun sem samsvarar þeirra eigin prófgráðum og námsframboði. Nánari upplýsingar veita þær menntastofnanir sem skipta máli fyrir þig.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna