Formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2016

Christiansborg
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði 2016

Góðir nágrannar

Formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2016

Danir gegna formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2016.

Norðurlandaráð kaus Henrik Dam Kristensen (S) í embætti forseta og Mikkel Dencker (DF) sem varaforseta, úr landsdeild Danmerkur í Norðurlandaráði, og munu þeir leiða starf ráðsins á árinu 2016.

Formennska Dana á árinu 2016 mun leggja áherslu á þrjú meginsvið:

  • Norrænt samstarf um varnarmál
  • Norrænt samstarf um heilbrigðismál
  • Norrænt samstarf um ferðamál

Formennska Dana á árinu 2016 vill starfa áfram í sama anda og aðrar þjóðir hafa gert á formennskuárum sínum. Sameiginleg tungumál, menning og saga þjóðanna gera samstarf þeirra einstakt. Það eigum við að nýta okkur og gera enn betur. Formennska Dana á árinu 2016 mun leggja áherslu á góð samskipti nágrannaþjóða, ennfremur sameiginlegt norrænt notagildi og virðisauka, einkum á hinum þremur meginsviðum.

Norrænt samstarf um varnarmál

Ríkjum Norðurlanda er mikill hagur í því að þétta varnarmálasamstarf sín á milli sem og við grannsvæðin. Blikur eru á lofti um heim allan. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, innlimun Rússa á Krímskaga og hernaðarleg viðvera þeirra meðfram landamærum Norðurlanda og grannsvæða þeirra gera auknar kröfur um norrænar varnir. Bráðnun íshellu norðurskautsins kallar einnig á norrænt samstarf og sameiginlegar lausnir á norðurslóðum.

Norrænt varnarmálasamstarf er þegar í öflugri þróun, meðal annars vegna Stoltenberg-skýrslunnar um norrænt samstarf í varnar- og utanríkismálum. Formennska Dana í Norðurlandaráði á árinu 2016 mun áfram beina sjónum að framtíðarhorfum í norrænu varnarmálasamstarfi og leita nýrra samstarfssviða sem geta gagnast ríkjum Norðurlanda.

Norrænt samstarf um heilbrigðismál

Á Norðurlöndum sem og víðar um heim aukast heilsuþarfir og útgjöld til heilbrigðismála. Í formennskutíð Dana viljum við beina sjónum að sviðum heilbrigðismála þar sem löndin geta náð fram virðisauka og notagildi.

Aukin útgjöld til lyfjakaupa geta orðið þess valdandi að löndin sjái sig knúin til þess að grípa til niðurskurðar á öðrum sviðum heilbrigðis- og öldrunarmála. Ríkjum Norðurlanda er hagur í því að starfa saman, til dæmis um kaup á lyfjum. Á árinu 2016 munum við reyna að kortleggja þarfir landanna og tækifæri til samstarfs á þessu sviði og leggja síðan til hvernig standa megi að því framvegis.

Meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum er margvíslegum erfiðleikum háð í löndunum. Hún krefst sérhæfingar og sérþekkingar sem örðugt er að skapa í hverju landi um sig. Fyrir vikið er hætt við að einstaklingar með sjaldgæfa sjúkdóma fái ekki greiningu í tæka tíð eða að meðferð þeirra verði ófullnægjandi. Á árinu 2016 vill Norðurlandaráð beina sjónum að sjaldgæfum sjúkdómum og kanna hvort þar leynist svið sem löndin sjá sér hag í að eiga samstarf um.

Norrænt samstarf um ferðamál

Norðurlöndin hafa markað sér skýra stöðu alþjóðlega á sviðum eins og hönnun, matargerð, kvikmyndagerð, húsagerðarlist, sjálfbærni og lýðræði. Löndin hafa hvert um sig staðið að ótalmörgum kynningarferðum til útlanda á sviðum viðskipta og ferðamála. Formennska Dana á árinu 2016 vill beina sjónum að því hvort og hvernig löndin geta unnið saman að markaðssetningu Norðurlanda sem áfangastaðar ferðamanna og skapað þannig frekari hagvöxt og verðmæti á Norðurlöndum og alþjóðlega. Á árinu 2016 munum við kanna forsendur fyrir sameiginlegri norrænni stefnumótun í ferðamálum.