Átak gegn sýklalyfjaónæmi

06.12.16 | Fréttir
Henrik Dam Kristensen
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Norðurlandaráð vinnur nú að hvítbók um aðgerðir til að stemma stigu við sýklalyfjaónæmi. Í dag stóð ráðið fyrir opnum umræðum í Folketinget í Kaupmannahöfn, þar sem saman komu alþjóðlegir sérfræðingar á þessu sviði.

„Nú er aðgerða þörf!“

Með þessum orðum hóf Henrik Dam Kristensen, forseti Norðurlandaráðs, umræðurnar, sem höfðu yfirskriftina „Maður deyr ekki úr lungnabólgu, er það nokkuð …?“

Þátttakendur og dagskrá

  • Maður deyr ekki úr lungnabólgu, er það nokkuð?

Ef við gerum ekki breytingar á sýklalyfjanotkun okkar, og ef ekki koma ný lyf á markað, þá munu sýkingar sem við meðhöndlum auðveldlega í dag verða banvænar í framtíðinni.

„Afleiðingarnar eru alvarlegar. Aðeins þrjú norrænu landanna hafa aðgerðaáætlanir vegna sýklalyfjaónæmis, og enn sem komið er hafa löndin ekki náð saman um nýskapandi lausnir,“ sagði Dam Kristensen, sem vonar að hin væntanlega hvítbók geti orðið löndunum hvatning til sameiginlegs átaks gegn sýklalyfjaónæmi.

Þörf er á hertum reglum um notkun sýklalyfja en einnig þarf að skapa hvata til þróunar nýrra lyfja, sem gætu komið í stað þeirra sýklalyfja sem nú eru á markaði.

Geta haft áhrif um allan heim

Dr. Joseph Larsen, aðstoðarframkvæmdastjóri Biomedical Advanced Research and Development Authority (BARDA) og stjórnarmeðlimur í Carb-X, telur að ef Norðurlöndum auðnist að sameina krafta sína geti þau haft mikil áhrif um allan heim.

Þeir sérfræðingar sem tóku þátt í umræðunum tóku undir það mat Norðurlandaráðs að í norrænu samstarfi búi vannýtt tækifæri til frekari samvinnu á þessu sviði. Þá óskuðu margir sérfræðinganna eftir samstarfi um slembirannsóknir, sameiginlegt eftirlit, sameiginlega gagnagrunna og bætta verkferla til að miðla bestu starfsháttum.

Minni notkun = minna ónæmi

Afar mikilvægt er að leggja áherslu á miðlun þekkingar til framtíðar.

„Það þarf að uppræta þá algengu ranghugmynd að alltaf verði að ljúka við sýklalyfjakúra. Við þurfum fleiri slembirannsóknir, en ég fullyrði að ef við færum að hætta inntöku sýklalyfja þegar sjúklingurinn hefur náð bata gæti það orðið mikilvægt innlegg í baráttuna gegn ónæmi meðal almennings,“ sagði Dag Berild, prófessor í lyflækningum við háskólasjúkrahúsið í Ósló.

Berild lagði það til á léttu nótunum að yfirvöld nýttu sér „létt-stalínskar aðferðir“ til að draga úr uppáskriftum á sýklalyf, en gamninu fylgdi þó einhver alvara. Í dag fær til dæmis einn af hverjum tveimur Dönum lyfseðil fyrir sýklalyfjum á hverju einasta ári.

Sérfræðingarnir sem voru samankomnir í Folketinget vilja að stjórnmálamenn, yfirvöld og ríkisstjórnir axli aukna ábyrgð á lausn vandans, sem sé orðinn of umfangsmikill til að hann verði leystur á vettvangi faghópa á sviðinu.

Þörf er á hertum reglum um notkun sýklalyfja en einnig þarf að skapa hvata til þróunar nýrra lyfja, sem gætu komið í stað þeirra sýklalyfja sem nú eru á markaði.

 One Health – nauðsynlegt að horfa á dýr og mannfólk í samhengi

Hinsvegar stendur ekki til að þróa nýjar gerðir sýklalyfja handa dýrum. Þó að Norðurlönd notið lítið af sýklalyfjum í dýraeldi samanborið við önnur lönd heimsins getum við gert betur þegar kemur að framleiðslu matvæla.

Til dæmis hefur Svíþjóð náð betri árangri en Danmörk í því að draga úr notkun sýklalyfja. Í Noregi er notkun þeirra í laxeldi nú í algjöru lágmarki, en áður var lyfjanotkun mikil í þeim iðnaði.

Eitt voru sérfræðingarnir sammála um: það á ekki að gefa heilbrigðum dýrum sýklalyf. Aðgerðir sem miða að bættri velferð dýra ættu því einnig að miða að því að draga úr sýklalyfjaónæmi og MRSA (Methicillin Resistente Staphylococcus Aureus).  

Áorkum meiru í sameiningu

Hin norska Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar, tók niðurstöður umræðnanna saman og hvatti viðstadda til að leggja aukna áherslu á að þróa aðgerðir þvert á landamæri.

„Ef við breytum ekki háttum okkar, þá deyjum við. En ég held að við getum breyst. Með því að nýta okkur markvissar og snjallar tillögur úr hinni væntanlegu hvítbók getum við orðið forystusvæði á þessu sviði. Við fáum áorkað meiru og með minni tilkostnaði ef við tökumst á við þetta saman, frekar en sitt í hverju lagi. Ég tel að þannig getum við orðið umheiminum fyrirmynd á alþjóðavettvangi,“ sagði Stein Mathisen.