Beita sér fyrir viðurkenningu prófa í auknu mæli

02.11.16 | Fréttir
Reykjavik-deklarationen
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænu löndin ætla að verða þau fyrstu í Evrópu til að koma á sjálfkrafa viðurkenningu stúdentsprófa frá hinum löndunum. Sjö norrænir menntamálaráðherrar voru samankomnir í Kaupmannahöfn í dag, þar sem þeir endurskoðuðu Reykjavíkuryfirlýsinguna.

Menntamálaráðherrarnir funduðu í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember, og endurskoðuðu við það tækifæri Reykjavíkuryfirlýsinguna frá árinu 2004.

Í rúman áratug hefur yfirlýsingin leiðbeint löndunum varðandi gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina fyrir Norðurlandabúa og fólk sem flytur til Norðurlanda.

Próf eiga að geta sýnt fram á hæfni hvar sem er

Málið snýst um það hvaða hæfni einstaklingur sem sækir um nám eða vinnu í tilteknu landi getur sýnt fram á með prófskírteini frá öðru landi. 

Síðastliðinn rúman áratug hafa löndin unnið að því saman að þróa verklag við mat á menntun. Nú er vonast til þess að samstarfið beri þann árangur að Norðurlöndin geti orðið frumkvöðlar þegar kemur að sjálfkrafa viðurkenningu prófa innan ESB:

Sem dæmi um árangursríkt samstarf má nefna ritið „The Nordic-Baltic Recognition Manual“, sem auðveldar viðurkenningu á prófum milli Norðurlanda og Eystrasaltslanda. Annað dæmi er samstarf um prófskírteini frá rómönsku Ameríku og Miðausturlöndum.

Aukinn hreyfanleiki

Á þessu ári hefur Finnland, sem formennskuland í Norrænu ráðherranefndinni, lagt áherslu á hreyfanleika á Norðurlöndum og aðlögun nýrra íbúa sem sérstök forgangssvið. 

Vonast er til þess að endurskoðun Reykjavíkuryfirlýsingarinnar muni auðvelda bæði innfæddum og aðfluttum Norðurlandabúum að vinna og stunda nám á Norðurlöndum.

Viðurkenning prófa er nátengd víðtækari viðurkenningu á hæfni fólks.

Átta undirskriftir

Hin endurskoðaða Reykjavíkuryfirlýsing var ekki aðeins undirrituð af menntamálaráðherrum norrænu ríkjanna fimm, heldur einnig af starfssystkinum þeirra frá Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. 

„Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan yfirlýsingin var samin, einnig í Færeyjum. Nú sjáum við sjálf um alla stjórnsýslu menntamála. Það er okkur mikilvægt að halda í við þá þróun sem á sér stað í öðrum norrænum löndum og löndum ESB. Við viljum að færeysk ungmenni eigi kost á að stunda nám annars staðar, og ungmenni frá öðrum löndum hjá okkur,“ segir Rigmor Dam, ráðherra menntamála og rannsókna í Færeyjum.

 

 

Tengiliður