Engin ákvörðun tekin um stöðu Færeyja

02.11.17 | Fréttir
Høgni Hoydal
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Afgreiðslu á umsókn Færeyinga um fullgilda aðild að Norðurlandaráði var frestað á þingi ráðsins í Helsinki. Umræðan sem fram fór á þinginu einkenndist af vilja til málamiðlana, en úr varð að fresta málinu.

Færeyska landsdeildin lagði það til í tengslum við afgreiðslu málsins að hlustað yrði á færeysk yfirvöld og þeim gefið færi á að bregðast við stjórnskipunarréttarlegum, þjóðréttarlegum og pólitískum rökstuðningi og hugsanlegum lausnum í málinu. Að lokinni langri umræðu ákváðu þingmennirnir að fresta ákvörðun sinni þar til á þinginu í Ósló árið 2018.

„Það var besta hugsanlega útkoman að afgreiðslu málsins yrði haldið áfram,“ segir Høgni Hoydal, varalögmaður Færeyja og fulltrúi í Færeysku landsdeildinni. „Við viljum fara lengra með þetta,“ segir hann. 

Árið 2016 sendu Færeyingar Norðurlandaráði bréf þar sem þeir sóttu um fullgilda aðild að Norðurlandaráði, og jafnframt fulla aðild að öllum norrænum samningum og sáttmálum. Fjallað hefur verið um málið í forsætisnefnd.

Í nefndaráliti sínu, að undangenginni umfjöllun um málið, telur forsætisnefndin að bæði Helsingforssamningurinn, sem er stjórnarskrá norræns samstarfs, og danska stjórnarskráin geri að verkum að ómögulegt sé að samþykkja tillöguna. Í undirbúningi málsins er einnig vísað til hins svonefnda Álandseyjaskjals frá árinu 2007.

Samkvæmt Helsingforssamningnum eru norrænu ríkin fimm aðilar að samstarfinu. Aðeins sjálfstæð ríki geta átt fulla aðild að Norðurlandaráði. Samkvæmt viðbót við samninginn sem samþykkt var árið 1983 eiga sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland rétt til þátttöku í samstarfinu. Árið 2007 voru möguleikar sjálfstjórnarsvæðanna til aðkomu að samstarfinu skilgreindir nánar og efldir með hinu svonefnda Álandseyjaskjali. 

Einnig hefur forsætisnefndin látið kanna hvaða takmarkanir danska stjórnarskráin kveði á um hvað varðar möguleika Færeyja til fullrar aðildar að alþjóðlegri stofnun á borð við Norðurlandaráð.