Fjarvistir vegna veikinda minnstar á Íslandi af Norðurlöndunum

19.11.14 | Fréttir
Nordisk Statistisk årbog 2014
Aðeins 1,7% Íslendinga sem eru í vinnu voru fjarverandi vegna veikinda í meira en eina viku árið 2013, sem er lægsta hlutfallið á Norðurlöndum. Fjarvistir vegna veikinda voru mestar í Noregi, 3,5%. Næstir komu Finnar með 2,6% og í þriðja sæti Svíar með 2,3%. Þetta kemur fram í Nordisk statistisk årsbok 2014 (Norrænum hagtölum 2014).

Veikindafjarvistir kvenna eru almennt meiri en karla, en íslensku konurnar ásamt þeim dönsku eru með minnstar fjarvistir. Af þeim höfðu 1,7% verið fjarverandi vegna veikinda í meira en eina viku árið 2013. Norskar konur eru efstar með 4,3%. Næst þeim koma finnskar og sænskar konur með 2,9%.Norrænar hagtölur 2014, sem koma út 19. nóvember, eru gefnar út af

Norrænu ráðherranefndinni og kosta 260 danskar krónur (án vsk.). Þar er að finna samanburðarhæfar tölur um norrænu ríkin fimm; Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð, auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja.Einnig er ókeypis aðgangur að gagnagrunni með margvíslegri tölfræði um norræn samfélög. Gagnagrunnurinn og Norrænar hagtölur 2014 á pdf-sniði.