Grundvallartilhögun norræns samstarfs til umræðu

28.06.17 | Fréttir
Hverjir fá að taka þátt í opinberu norrænu samstarfi á vettvangi Norðurlandaráðs, hvernig skiptist ábyrgðin og hver eru opinber tungumál samstarfsins? Þessar grundvallarspurningar voru á dagskrá á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Silverskär í skerjagarði Álandseyja þann 27. júní. Grundvöllur og tilhögun samstarfsins komu til tals að frumkvæði Færeyinga og finnsku og íslensku landsdeildanna í Norðurlandaráði. Forsætisnefndin lagði ekki til neinar meiriháttar breytingar á núgildandi reglum á fundinum.

Árið 2016 sendu Færeyingar Norðurlandaráði bréf þar sem þeir sóttu um fullgilda aðild að Norðurlandaráði, og jafnframt fulla aðild að öllum norrænum samningum og sáttmálum. 

Sama ár lögðu landsdeildir Finnlands og Íslands til að finnska og íslenska yrðu gerð að opinberum vinnutungumálum í norrænu samstarfi, auk skandinavísku málanna dönsku, norsku og sænsku. 

Hvert getur hlutverk Álandseyja, Færeyja og Grænlands í samstarfinu verið? 

Samkvæmt Helsingforssamningnum, sem er lagalegur grunnur opinbers norræns samstarfs, eru norrænu ríkin fimm aðilar að samstarfinu. Aðeins sjálfstæð ríki geta átt fulla aðild að Norðurlandaráði. Samkvæmt viðbót við samninginn sem samþykkt var árið 1983 eiga sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland rétt til þátttöku í samstarfinu. Árið 2007 voru möguleikar sjálfstjórnarsvæðanna til aðkomu að samstarfinu skilgreindir nánar og efldir með hinu svonefnda Álandseyjaskjali. 

Með vísan til undirbúnings getur forsætisnefndin ekki stutt ósk Færeyinga.

Í undirbúningi sínum varðandi ósk Færeyinga hefur forsætisnefndin kannað hvort viðmiðunarreglum Álandseyjaskjalsins hafi verið fylgt. Einnig hefur verið kannað hvaða takmarkanir danska stjórnarskráin kveði á um hvað varðar möguleika Færeyja til fullrar aðildar að alþjóðlegri stofnun á borð við Norðurlandaráð. 

Á grundvelli þessara athugana ákvað forsætisnefndin að ekki væri unnt að verða við ósk Færeyinga. Bæði Helsingforssamningurinn í núverandi mynd og danska stjórnarskráin varna því að svo megi verða. 

„Ég vil þó taka fram að forsætisnefndin kann afar vel að meta vilja Færeyinga til að dýpka norrænt samstarf. En það má einnig gera á núverandi grunni samstarfsins,“ segir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs.

Hún segir einnig ánægjulegt að öllum þeim aðgerðum til eflingar samstarfsins sem kveðið er á um í Álandseyjaskjalinu hafi verið hrint í framkvæmd. 

Snúin umræða um vinnutungumál

Tillagan um að gera finnsku og íslensku að opinberum vinnutungumálum á vettvangi samstarfsins var lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2016. Erindið hefur verið í umsagnarferli hjá landsdeildum landanna.

Í svörum þeirra er áhersla einkum lögð á lýðræði, jöfnuð, fjármál, norræna samkennd og praktískar lausnir. 

Það að skipta yfir í ensku af hagkvæmnisástæðum væri reiðarslag fyrir norræna samkennd

„Við reyndum að hafa alla þessa þætti og gagnverkun þeirra á milli til hliðsjónar við undirbúning málsins,“ segir Britt Lundberg. Tillaga að ákvörðun á grundvelli svaranna var að skandinavísku málin skyldu áfram vera opinber vinnutungumál Norðurlandaráðs. 

„Það að skipta yfir í ensku af hagkvæmnisástæðum væri reiðarslag fyrir norræna samkennd,“ segir forsetinn. Um þetta ríkti einhugur í svörum landsdeildanna.

Að lengri umræðum loknum ákvað forsætisnefndin að fresta málinu. Landsdeildum Finnlands og Íslands var gefinn kostur á að vinna nýja og markvissari tillögu fyrir fund forsætisnefndarinnar í september. 

„Tillagan sem lögð var fram hefði haft í för með sér framför frá núverandi ástandi, en þó ekki jafnræði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fulltrúi Íslands í forsætisnefndinni. Hinn finnski Juho Eerola er á sama máli.

„Finni og Íslendingur taka ekki þátt í norrænu samstarfi á sömu forsendum og manneskja sem talar eitthvert skandinavísku málanna að móðurmáli,“ segir hann. 

Tillagan um stöðu Færeyja í norrænu samstarfi og tillagan um vinnutungumálin verða teknar til endanlegrar afgreiðslu í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki í nóvember.